Tannkarpi (fræðiheiti: Ctenopharyngodon idella) er ferskvatnsfiskur sem kemur upprunalega úr ám og flóðsléttum í Kína og Austur-Rússlandi (t.d. Amúrfylki),[1] en hefur verið dreift út um allan heim.

Tannkarpi

Vísindaleg flokkun
Ríki: Dýraríki (Animalia)
Fylking: Seildýr (Chordata)
Flokkur: Geisluggar (Actinopterygii)
Ættbálkur: Karpfiskar (Cypriniformes)
Ætt: Vatnakarpar (Cyprinidae)
Ættkvísl: Ctenopharyngodon
Tegund:
Ctenopharyngodon idella

Tvínefni
Ctenopharyngodon idella
(Valenciennes in Cuvier & Valenciennes, 1844)
Samheiti
  • Leuciscus idella Valenciennes, 1844
  • Ctenopharingodon idellus (Valenciennes, 1844)
  • Ctenopharyngodon idellus (Valenciennes, 1844)
  • Leuciscus tschiliensis Basilewsky, 1855
  • Ctenopharyngodon laticeps Steindachner, 1866
  • Sarcocheilichthys teretiusculus Kner, 1867
  • Pristiodon siemionovii Dybowski, 1877

Tannkarpar hafa verið ræktaðir sem matfiskur í Kína öldum saman. Þeir voru fluttir til Evrópu og Norður-Ameríku til að halda niðri gróðri í vötnum. Tannkarpar eru núna mest ræktaða fiskitegund í heimi. Heimsframleiðslan er um fimm milljón tonn á ári.[2]

Útlit breyta

kynþroska tannkarpi
tannkarpaseiði

Tannkarpi er með sívalan bol, kviðurinn er hringlaga og hausinn flatur. Kjálkarnir eru sterklegir og stendur efri kjálkinn aðeins fram yfir neðri kjálkann. Augun eru frekar lítil og munnurinn í meðallagi miðað við stærð fisksins. Uggarnir eru stuttir og jafnt dreifðir um bolinn. Í kringum hreistrið á fisknum myndast dökk lína sem gerir það að verkum að fiskurinn lítur út fyrir að vera vafinn í net. Hreistrið á honum er frekar stórgert. Karlfiskurinn er með þykka og langa kviðugga sem standa út eins og beittir hnífar en kvenfiskurinn er með þunna og stutta kviðugga. Fullþroskaðir karlfiskar þróa með sér húðþekju á kviðugga, höfði og eyruggum á hrygningartímanum en kvendýrin gera það ekki. Tannkarpinn er grár á bakinu, grængulur á hliðunum og gulhvítur á kviðnum. Þyngstur hefur hann verið skráður 45 kg.[heimild vantar]

Lifnaðarhættir breyta

Heimkynni tannkarpans er í grunnum vötnum, tjörnum og í vötnum sem renna í stórar ár. Hann þolir illa saltvatn. Hann syndir ekki langar vegalengdir nema þegar hann hrygnir sem er einu sinni á ári. Það finnast heimildir um að tannkarpi hafi ferðast yfir 1000 kílómetra frá hrygningarstað sínum. Hann þrífst best í hlýju loftslagi.[3]

Dreifing breyta

Útbreiðsla tegundarinnar er rakin til dreifðra rannsóknarverkefna um hin ýmsu lönd, ólöglegum og löglegum flutningi á fisknum og að hann hefur sloppið úr eldisstöðvum og eldiskvíum í nærliggjandi vötn. Fiskurinn hefur verið kynntur víða um heim og hefur hann náð fótfestu i í nokkrum löndum þar sem hann er ræktaður í fiskeldi og notaður til að eyða vatnagróðri.

Fyrir utan upprunaleg útbreiðslusvæði hefur tannkarpinn fest sig í sessi í stórum ám í Japan og í mið-Asíusvæðum Sovétríkjanna og í nokkrum löndum Evrópu eins og í Dóná í Ungverjalandi og í þverám annarra Evrópulanda. Á Indlandi er Tannkarpinn ein af þeim tegundum sem er notuð í svokallaða samsetta menningu indverskra stórkarpa og kínverskra karpa. Tannkarpinn er með mikla aðlögunarhæfni sem getur skýrt hversu útbreiddur hann er orðinn. En í mörgum löndum fjölgar Tannkarpinn sér ekki í eldiskvíum vegna þess hve miklar kröfur eru gerðar þegar kemur að æxlun fisktegunda.[heimild vantar]

Kínverjar hafa staðið fyrir kynningu á tannkarpa í yfir 80 löndum en kynningarnar hafa aðallega verið gerðar fyrir fiskeldi og til að eyða illgresi í vatni. Hefur þetta bæði verið gert í þróunarlöndum sem og í öðrum löndum. Til dæmis hafa lönd eins og Bandaríkin og lönd í Vestur-Evrópu aðallega sýnt áhuga á að nota tegundina í líffræðilegum tilgangi, þ,e, til að eyða illgresi í vatni. Í öðrum löndum hefur tannkarpinn verið fyrst og fremst notaður til rannsókna en vegna örs vaxtar og hvað það hefur gengið vel að nota hann til að eyða illgresi í vatni hefur hann orðið að mikilvægri fiskeldistegund. Í Ungverjalandi og nokkrum öðrum Evrópulöndum hefur tannkarpinn orðið að verðmætri fisktegund þegar kemur að sportveiðum.

Markaðir, menning og afurðir breyta

Innleiðing tannkarpa í öðrum löndum hefur almennt haft jákvæð efnahagsleg áhrif vegna aukinnar framleiðslu í fiskeldi og veiði í vötnum og ám.

Tannkarpi sem hefur komið sér fyrir í Malasíu hefur ekki haft nein neikvæð áhrif á lífstíl þar í landi, siði eða efnahag. Þess í stað hafa eldi og veiðar á tannkarpa skilað sér í jákvæðu framlagi til samfélagsins og hagkerfisins. Í Póllandi hefur ræktun á tannkarpa stuðlað að um 30% aukningu á tannkarpa í vötnum landsins. Í Tékklandi eru félagshagfræðileg áhrif tannkarpa jákvæð vegna fiskeldis í landinu. Á Indlandi hefur tannkarpi skapað uppsveiflu í fiskeldi, sérstaklega við fjallsrætur landsins þar sem indverskir stórkarpar þrifust ekki vel.

Í Víetnam hefur innleiðing tannkarpa stuðlað að aukinni fjölbreytni eldistegunda. Þar sem tannkarpinn er hraðvaxta tegund sem nærist aðallega á vatnagróðri og grasi hefur hann reynst hentugur til ræktunar í tjörnum, búrum og vötnum, sérstaklega á mið- og hálendissvæðum landsins. Á Indlandi hefur tannkarpinn aukið fiskframleiðslu og reynst góður matfiskur auk þess að vera skilvirk líffræðileg vörn gegn illgresi í vatni.

Tannkarpi er ekki vinsæll matfiskur í Japan en hann er mikilvæg tegund í veiðum í atvinnuskyni vegna stærðar og fæðuvenja. Tannkarpi er einnig vinsæll hjá stangveiðimönnum í öðrum löndum eins og Póllandi og Tékklandi.

Fyrir árið 1963 þurfti Taívan að flytja inn seiði af kínverskum körpum á hverju ári frá meginlandi Kína í gegnum Hong Kong, en eftir að það var þróuð tækni til að framkalla hrygningu karpa, þar á meðal tannkarpa flytur Taívan út mikið magn af karpaseiðum. Í Kína er tannkarpinn mikið ræktaður til matar en hann er vinsæll matfiskur þar í landi. Á mörkuðum fæst hærra verð fyrir tannkarpann en aðrar karpategundir.

Þegar gögn um tannkarpa eru skoðuð er erfitt að sjá að hægt yrði að rækta hann á Íslandi. Hann hefur ekki fjölgað sér nægilega í eldiskvíum vegna þess hversu strangar reglur eru um æxlun fiskitegunda. Eins þarf hann hlýtt loftslag og eins og veðrið er á Íslandi þá ætti tannkarpinn að öllum líkindum erfitt með að lifa í vötnum landsins.

Áhrif á vistkerfi breyta

Tannkarpi var fluttur til annara landa sem líffræðilega vörn við illgresi í tjörnum, uppistöðulónum og öðrum stöðuvötnum. Einnig til að rækta í fiskeldi og fyrir stangveiði. Á Nýja-Sjálandi var gerð rannsókn á umhverfisáhrifum tannkarpa í vötnum sem stóð í 5 ár. Niðurstöðurnar sýndu meðal annars að tannkarpar voru umhverfisvænir og að það væri betra fyrir umhverfið að nota tannkarpa til að fjarlægja illgresi í vötnum heldur en kemísk efni eða vélar.

Aðeins geldur fiskur er notaður til illgresiseyðingar á Nýja-Sjálandi þannig að stofnarnir viðhaldast ekki án endurnýjunar.

Komið hefur fram í rannsóknum að tannkarpi getur haft áhrif á aðrar fiskitegundir í vötnum með því að trufla æxlun þeirra, víkka eða þrengja fæðugrunn þeirra og takmarka búsvæði þeirra. Offjölgun tannkarpa hefur áhrif á búsvæði farfugla og vatnafugla þar sem þær vatnaplöntur sem tannkarpar eyða eru mikilvæg fæða fyrir vatnafugla og búsvæði og fæðuefni fyrir hryggleysingja. Þeir hafa líka valdið fækkun á hrygningarstöðum fyrir aðra fiska eins og stórgóma og grásleppu. Tannkarpinn keppir um jurtafæðu við krabba í litlum tjörnum sem leiðir til samdráttar í viðkomu þeirra.

Tilvísanir breyta

  1. Mandrak and Cudmore. 2004. Biological Synopsis of Grass Carp (Ctenopharyngodon idella) Geymt 6 júlí 2011 í Wayback Machine
  2. World aquaculture production of fish, crustaceans, mollusks, etc., by principal species in 2013 FAO Yearbook of Fisheries Statistics 2014
  3. Shireman, J.V. and C.R. Smith. 1983. Synopsis of biological data on the grass carp, Ctenopharyngodon idella (Cuvier and Valentines, 1844). Food and Aquaculture Organization Synopsis. 135: 86pp.