TF-RÁN

þyrla Landhelgisgæslu Íslands (1980-1983)
Sjá TF-RÁN (flugbátur) fyrir flugbátinn sem var í notkun hjá LHG frá 1955 til 1963.

TF-RAN var þyrla í eigu Landhelgisgæslu Íslands. Hún var keypt árið 1980 og var af gerðinni Sikorsky S 76 og var sérhönnuð til leitar-, björgunar, gæslu- og eftirlitsstarfa. Hún var kennd við gyðjuna Rán, persónugerving hafsins úr norrænni goðafræði, og var önnur vél landhelgisgæslunnar til að bera nafnið. TF-RÁN fórst í Jökulfjörðum þann 8. nóvember 1983 með fjögurra manna áhöfn.[1]

TF-RÁN hífð upp úr Jökulfjörðum, forsíða Morgunblaðsins 16. nóvember 1983.

TF-RÁN var keypt árið 1980 fyrir 1,6 milljónir dollara, rúmlega 800 milljónir íslenskra króna, og var afhent í september sama ár.[2] Þetta var önnur sérhæfða björgunarþyrlan í sögu Landhelgisgæslunnar, á eftir Sikorsky S-62 þyrlunni TF-GNÁ sem var í notkun á árunum 1972 til 1975. Fyrsta björgunarleiðangur TF-RÁN var 18. nóvember 1980 þegar hún flutti veikan vitavörð frá Hornströndum á sjúkrahús í óveðri.[3]

Þann 8. nóvember 1983, kl: 22:53, lagði þyrlan upp frá varðskipinu Óðni, sem statt var skammt undan Höfðaströnd i Jökulfjörðum, til æfingaflugs. Þremur mínútum síðar heyrðist óljóst kall frá henni og urðu varðskipsmenn á sama tíma einnig varir við leiftur. Umfangsmikil leit hófst þegar í stað og dreif að fiskibáta ásamt því að Flugmálastjórn og Varnarliðið sendu flugvélar af stað. Um klukkan 2 um nóttina fann línubáturinn Orri brak úr þyrlunni, sem reyndist vera hlutar úr spöðum þyrlunnar, björgunarbelti og hjálmur.[4] Vélin fannst skömmu fyrir hádegi 10. nóvember á 82 metra dýpi um hálfa aðra sjómílu norður af Höfðaströnd í Jökulfjörðum.[5] Dagana 14. til 15. nóvember var unnið að því að draga vélina upp á yfirborðið af vélbátinum Sigga Sveins. Þegar hún var komin á um 20 metra dýpi hóf kafarasveit störf við hana og fundu þeir lík tveggja áhafnameðlima í þyrlunni, þeirra Þórhalls Karlssonar, flugstjóra, og Bjarna Jóhannessonar, flugvélstjóra. Lík hinna mannanna tveggja, Björns Jónssonar, flugstjóra og Sigurjóns Inga Sigurjónssonar, stýrimanns, voru ekki um borð í þyrlunni.[6][7] Lík Sigurjóns fannst 31. janúar árið 1989 er það kom í trollið á rækjubátnum Óla ÍS,[8][9] en sami bátur fann hurð þyrlunnar árið 1985 sem talið var að hefði skyndilega opnast og sveiflast upp í aðalþyril vélarinnar og valdið hrapinu.[10][11]

Tilvísanir

breyta
  1. „Minnast áhafnar þyrlunnar TF-RAN sem fórst fyrir þrjátíu árum“. Landhelgisgæsla Íslands. 8. Nóvember 2013. Sótt 24. Ágúst 2018.
  2. „Rán heitir nýja þyrla gæzlunnar - væntanleg til landsins eftir viku“. Morgunblaðið. 17. september 1980. Sótt 22. janúar 2022.
  3. „Stutt æfingaflug sem endaði með skelfingu“. Sjómannablaðið Víkingur. 1. júní 1997. bls. 34–36. Sótt 22. janúar 2022.
  4. „Þúst kom inn á dýptarmæla“. Dagblaðið Vísir. 10. Nóvember 1983. Sótt 24. Ágúst 2018.
  5. „Neðansjávarmyndavélin staðfesti fund flaksins“. Morgunblaðið. 11. Nóvember 1983. Sótt 24. Ágúst 2018.
  6. „Þyrlan komin upp á tuttugu metra dýpi“. Morgunblaðið. 15. nóvember 1983. Sótt 24. Ágúst 2018.
  7. „Samvinna allra aðila varð til þess að þyrlunni var bjargað“. Morgunblaðið. 16. nóvember 1983. bls. 35, 36. Sótt 24. Ágúst 2018.
  8. „Rækjubátur fékk lík í trollið“. Dagblaðið Vísir. 6. febrúar 1989. Sótt 24. Ágúst 2018.
  9. „Líkfundurinn í Jökulfjörðum“. Dagblaðið Vísir. 10. febrúar 1989. Sótt 24. Ágúst 2018.
  10. „Ekki séð að hurðin breyti niðurstöðum“. Dagblaðið Vísir. 8. maí 1985. Sótt 24. Ágúst 2018.
  11. „Hurðin er óskemmd en í henni er skurður“. Morgunblaðið. 20. apríl 1085. bls. 56. Sótt 24. Ágúst 2018.