Tívolí í Reykjavík

Tívolí í Reykjavík einnig kallað Tívolíið í Vatnsmýrinni var skemmtigarður sem var um tíma starfræktur í Vatnsmýrinni í Reykjavík. Tívolíð opnaði 9. júlí 1946. Þar voru meðal annars bílabraut, hringekja, Parísarhjól og danspallur. Á tívolísvæðinu var byggður skáli sem notaður var til skemmtanahalds og veitingareksturs. Skálinn var nefndur Vetrargarðurinn og þar voru haldnir dansleikir.

Söguágrip breyta

Hlutafélagið Tívolí hf. var stofnað snemma árs 1946 af athafnamönnunum Þorleifi H. Eyjólfssyni húsasmíðameistara, Thor R. Thors verslunarmanni, Sigurgeir Sigurðsson lögmaður, Stefán Bjarnason verkfræðingur og Kjartan Ásmundsson gullsmiður. Félagið fékk úthlutað tveggja hektara lóð og hóf þegar í stað jarðvegsframkvæmdir við að ræsa fram mýrina. Skemmtitæki voru keypt frá Danmörku og Englandi og opnaði garðurinn þá um sumarið.

Tívolí var fyrstu árin opin frá lok maí og fram í september, en þó einungis ef veður leyfði. Það var opið á kvöldin og um helgar. Auk hvers kyns hefðbundina leiktækja og skotbakka var boðið upp á margvíslegt sýningarhald, s.s. kraftakarla sem sýndu styrk sinn og fakír sem lagðist á flöskubrot og lét brjóta brjót á maganum á sér. Á tyllidögum flugu flugvélar yfir sýningarsvæðið og vörpuðu yfir það ýmis konar sælgæti. Um skeið var vísir að dýragarði í Tívolí með framandi dýrum, stórum jafnt sem smáum.

Veitingastaðurinn Vetrargarðurinn var um skeið einn annálaðasti dans- og skemmtistaður borgarinnar. Þótt staðurinn hefði aldrei vínveitingaleyfi flaut áfengi óspart í Vetrargarðinum.

Einar Jónsson, sem lengi var forstjóri Tívolísins hafði árið 1954 frumkvæði að því að halda þar fegurðarsamkeppni þar sem fegurðardrottning Íslands var krýnd og fékk vegleg verðlaun. Uppákoma þessa varð geysivinsæl, dró að sér mikinn fjölda fólks og var endurtekin á næstu árum.

Upphaflegir stofnendur skemmtigarðsins sáu um rekstur hans fyrstu sjö árin, en þá festi Íþróttafélag Reykjavíkur kaup á svæðinu. Var ætlunin að reka það í fjáröflunarskyni og notast að mestu við sjálfboðavinnu félagsmanna. Fljótlega varð reksturinn þungur og var loks ákveðið um 1961 eða ´62 að leigja út rekstur bæði Tívolísins og Vetrargarðsins. Það lognaðist endanlega út af fáeinum árum síðar eða 1964 og var rysjóttu veðurfari meðal annars kennt um þau endalok. Eftir það var svæðið notað sem vöruskemma hjá skipaflutningafélaginu Hafskip.

Tívolí í íslenskri dægurmenningu breyta

Víða má finna vísanir í Tívolí í Vatnsmýrinni í dægurmenningu, einkum í verkum listamanna sem voru á barnsaldri þegar skemmtigarðurinn var upp á sitt besta.

  • Hljómsveitin Stuðmenn sendi árið 1976 frá sér hljómplötuna Tívolí og hafði umslag hennar og fjöldi laga að geyma skírskotanir til þess.
  • Skáldið og tónlistarmaðurinn Megas fjallar um Tívolí í ýmsum laga sinna, má þar nefna Reykjavíkurnætur á plötunni Loftmynd og Í speglasalinn á Fram og aftur blindgötuna. Þá kemur Tívolí allnokkuð við sögu í minningabók Megasar, Sól í Norðurmýri sem hann samdi í samvinnu við Þórunni Jörlu Valdimarsdóttur.
  • Pétur Gunnarsson vék að Tívolí í skáldsögunni Punktur, punktur, komma, strik.
  • Í kvikmyndinni Djöflaeyjunni gerist hluti sögunnar á skemmtistaðnum Vetrargarðinum.
  • Rithöfundurinn Sjón sendi frá sér bókina Með titrandi tár: Glæpasaga þar sem fyrir kemur skemmtigarður sem telja má innblásinn af Tívolíinu í Vatnsmýrinni.
  • Hljómsveitin Tívolí starfaði á árinum 1977-81. Hún spilaði einkum þunga rokktónlist í anda Led Zeppelin en öðlaðist þó mestar vinsældir fyrir einfalda poppsmellinn Fallinn, sem var nokkuð á skjön við önnur lög sveitarinnar.

Heimildir breyta