Syðradalsvatn eða Miðdalsvatn er vatn í Syðridal í Bolungarvík. Frá Djúpvegi að vatninu og meðfram því austanmegin liggur Syðridalsvegur eða þjóðvegur nr. 629. Enginn vegur liggur vestan megin við vatnið. Tveir bæir eru í byggð austanmegin við vatnið, en það eru Geirastaðir og Hanhóll.

Fornar sagnir herma að á bakka vatnsins hafi staðið bær Völu-Steins sem var sonur landnámskonu Þuríðar sundafyllis. Hún nam Bolungarvík og bjó að Vatnsnesi sem var þar sem Ósá rennur út úr vatninu til sjávar. Hún deildi við Þjóðólf, bróður sinn, og urðu þau bæði að steinum.

Syðradalsvatn er um 1 km² og liggur í 3 metra h.y.s. og er 1,7 km langt og 0,7 km breitt. Bakkar vatnsins eru lágir og vel grónir. Syðradalsvatn er grunnt og frjósamt og er dýpi vatnsins víða 0,5 til 1 m. Botninn er leir eða leðjukenndur. Í Syðridalsá falla ár og lækir úr fjöllunum í kringum vatnið, en þær helstu eru Gilsá, Tröllá og Selá. Þær ár eru aðeins fiskgengar skammt upp. Ósá á svo upptök sín í Syðradalsvatni og rennur um 2 km leið austan við þorpið í Bolungarvík. Áin er 10-12 m breið. Vatnasvið Ósár er um 35 ferkílómetrar. Innrennslisárnar í Syðradalsvatn eru kaldar og henta vel bleikju sem er aðalferskvatnsfisktegund í vatninu og í Ósá. Einnig er í vatninu urriði og áll. Mikið er um hornsíli, en það er aðalfæða bleikjunnar í vatninu.

Tenglar breyta