Sveinsstaðafundur

(Endurbeint frá Sveinsstaðareið)

Sveinsstaðafundur eða Sveinsstaðareið var sögufrægur bardagi á Sveinsstöðum í Húnaþingi á 16. öld, þar sem þeir tókust á, Jón Arason, þá biskupsefni, og Teitur Þorleifsson ríki í Glaumbæ, sem þá var sýslumaður í Húnaþingi.

Teitur hafði tekið að sér mál Einars, sonar Jóns Sigmundssonar lögmanns, sem Jón taldi hafa fallið í sekt við Hólastól af því að hann hafði samneytt föður sínum meðan hann var bannfærður, en Teitur mótmælti því og neitaði að framselja Einar. Jón fór vestur í Húnaþing 31. janúar 1522 með stóran hóp fylgismanna, þar á meðal Grím Jónsson lögmann og Hrafn Brandsson, sýslumann Skagfirðinga, og ætluðu þeir að sækja málið á Sveinsstaðaþingi.

Teitur vildi ekki leyfa þeim að setja þingið á hefðbundnum þingstað og var það sett á hól í Sveinsstaðalandi. Þangað kom Teitur með sveit manna og sló í bardaga á milli sveitanna. Einn maður úr liði Jóns féll, Árni Bessason, og nokkir særðust úr báðum liðum, þar á meðal Teitur sýslumaður, en Grímur lögmaður skaut hann með ör í handlegginn. Teitur hélt því raunar fram að Jón Arason hefði haldið sér föstum meðan hann var skotinn. Helgi Höskuldsson, ábóti í Þingeyraklaustri, kom með lið manna á vettvang og tókst að skilja fylkingarnar að og var honum þakkað að ekki varð meira mannfall.

Jón Arason lét svo dæma Teit í þungar sektir en Teitur harðneitaði að taka mark á dómnum. Á Alþingi um sumarið var hann svo kjörinn lögmaður í stað Gríms og var sýknaður af kæru Jóns með tylftardómi.

Þremur árum síðar náði Jón biskup fram hefndum. Þá fékk hann Hrafn Brandsson, sem skömmu síðar varð tengdasonur hans, kjörinn lögmann í stað Teits. Hrafn stefndi svo Teiti fyrir rétt og krafðist vígsbóta fyrir Árna Bessason. Teitur mætti ekki til réttarhaldsins en þar dæmdi Hrafn hann sekan og útlægan og hálft fé hans til konungs en hálft til erfingja. Eftir að hafa fengið konungsstaðfestingu á dómnum hrakti hann Teit burt úr Skagafirði og lagði eignir hans undir sig.

Heimildir breyta

  • „Jón Arason. Eimreiðin, 2. tbl. 1911“.