Svartaskur (fræðiheiti: Fraxinus nigra) er tegund af aski sem vex í stórum hluta Kanada og Norðaustur-Bandaríkjunum, frá vesturhluta Nýfundnalands vestur til Suðaustur-Manitoba, og suður til Illinois og Norður-Virginíu.[2] Var áður algengur en hefur á síðari árum fækkað mjög vegna sníkjudýrsins Agrilus planipennis.

Svartaskur

Ástand stofns
Vísindaleg flokkun
Ríki: Jurtaríki (Plantae)
Fylking: Dulfrævingar (Magnoliophyta)
Flokkur: Tvíkímblöðungar (Magnoliopsida)
(óraðað) Asterids
Ættbálkur: Varablómabálkur (Lamiales)
Ætt: Smjörviðarætt (Oleaceae)
Ættkvísl: Eskiættkvísl (Fraxinus)
Geiri: Fraxinus sect. Fraxinus
Tegund:
F. nigra

Tvínefni
Fraxinus nigra
Marshall
Útbreiðslusvæði
Útbreiðslusvæði

Lýsing

breyta
 

Svartaskur er meðalstórt tré, 15 til 20 m hátt með um 60 cm stofnþvermál, eða einstaka sinnum allt að 160 cm í þvermál. Börkurinn er grár, þykkur og svampkenndur, jafnvel á ungum trjám, og verður hreistraður og sprunginn með aldri. Vetrarbrum eru dökkbrún til svört, með mjúkri áferð. Blöðin eru gagnstæð og samsett með 7–13 (oftast 9) smáblöðum. Hvert blað er 20-45 cm langt, smáblöðin eru 7-16 cm löng og 2,5–5 cm breið, með fíntenntum jaðri. Smáblöðin eru stilklaus. Blómin koma að vori, rétt á undan blöðunum, í gisinni blómskipan, þau eru lítt áberandi og án krónublaða, enda vindfrjóvguð. Fræin eru 2,5-4,5 cm löng með væng.[3][4][5]

Vistfræði og verndunarstaða

breyta

Svartaskur kemur oft fyrir í mýrum,[5] ósjaldan með hinum náskylda kvekaraaski (Fraxinus pennsylvanica). Haustliturinn er gulur. Svartaskur er ein af fyrstu tegundunum til að fella lauf að hausti í heimkynnum sínum. Hann er einnig mjög skyldur grænaski, Fraxinus mandschurica, og blandast honum auðveldlega. Eru jafnvel efasemdir um að þeir séu í raun aðskildar tegundir.

Svartaskur er fæða ýmissa fiðrildategunda (Lepidoptera).

Hann var eitt sinn talinn algengur og engar áhyggjur hafðar af verndun hans, en það var fyrir komu Agrilus planipennis, sem fannst fyrst í Norður Ameríku 2002. Hins vegar hefur þessi plága breiðst út um útbreiðslusvæði hans og innan fárra ára mun hann verða nær horfinn. Svipuð örlög bíða kvekaraasksins. Umboðsmaður "U.S. Forest Service" áætlaði 2014 að "níutíu og níu prósent asktrjáa í Norður Ameríku munu líklega deyja." Bláaskur og hvítaskur (Fraxinus americana) eru aðeins lítið eitt minna móttækilegir.[6]


Nytjar

breyta

Indíánar í norðaustanverðri N-Ameríku nota við hans í körfur og álíka. Hann er einnig vinsæll til að gera úr rafmagnsgítara og bassa vegna góðs hljómburðar.[7]

Gerð körfurenninga

breyta
 
Karfa úr klofnum askviði gerð af Kelly Church (Odawa-Ojibwe)

Svartaskur er nokkuð sérstakur meðal trjáa í Norður-Ameríku fyrir að vera án trefja sem tengja saman árhringina. Þetta kemur sér vel fyrir körfugerðarfólk. Ef barið er á timbrið með hamri kremst vorvöxturinn og dökkt sumarvaxtarlagið losnar frá í löngum renningum. Renningarnir eru jafnaðir og snyrtir og notaðir í körfugerð. Indíánar í skógum Norðaustur-Ameríku gerðu einnig körfur úr berkinum, sem venjan var að nota í berjatínslu.

Á Íslandi

breyta

Þessi tegund hefur lítið eitt verið reynd hérlendis og kelur lítið.[8]

Tilvísanir

breyta
  1. Jerome, D., Westwood, M., Oldfield, S. & Romero-Severson (2016). Fraxinus nigra. Rauði listi IUCN yfir tegundir í hættu. 2017.2. Sótt 14. september 2017.
  2. „Fraxinus nigra“. Germplasm Resources Information Network (GRIN). Agricultural Research Service (ARS), United States Department of Agriculture (USDA).
  3. New Brunswick tree and shrub: Fraxinus nigra Geymt 24 nóvember 2007 í Library and Archives Canada
  4. Virtual Herbarium of the Chicago Region: Fraxinus nigra Geymt 4 október 2006 í Wayback Machine
  5. 5,0 5,1 Wright, Jonathan W.; Rauscher, H. Michael (1990). Fraxinus nigra. Í Burns, Russell M.; Honkala, Barbara H. (ritstjórar). Hardwoods. Silvics of North America. Washington, D.C.: United States Forest Service (USFS), United States Department of Agriculture (USDA). 2. árgangur – gegnum Southern Research Station.
  6. „After the Trees Disappear“. New York Times. 30. júní 2014.
  7. „Guitar Wood FAQ – Wood Types & Tones“. Afrit af upprunalegu geymt þann 2. ágúst 2018. Sótt 3. mars 2018.
  8. „Lystigarður Akureyrar Svartaskur“. Afrit af upprunalegu geymt þann 21. september 2020. Sótt 3. mars 2018.
   Þessi líffræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.