Svana Friðriksdóttir

Svana Friðriksdóttir (f. 1951) er íslenskur grunnskólakennari. Hún vann Nansen-verðlaunin, sem gefin eru út af Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, árið 1971 fyrir fjársöfnun sína á vegum skátahreyfingarinnar í þágu nígerískra flóttamanna.

Æviágrip

breyta

Svana Friðriksdóttir er fædd árið 1951 í Húsavík. Hún ólst þar upp til þrettán ára aldurs hjá afa sínum og ömmu en flutti síðan til Kópavogs. Hún gekk í Kennaraskólann og vann samhliða námi sem herbergisþerna á Hótel Sögu. Svana tók jafnframt þátt í starfi Skátafélagsins Kópa á þessum tíma.[1]

Árið 1971 boðuðu alþjóðleg líknarsamtök til fjársöfnunar í þágu flóttamanna í Afríku vegna borgarastyrjaldarinnar í Nígeríu. Á Íslandi nefndist átakið „Flóttafólk 71“. Svana var meðal skáta sem gengu milli húsa til að safna hjálparfé í þágu flóttamannanna. Íslendingar létu hlutfallslega mikið fé af hendi rakna til styrktar flóttamönnunum og þann 1. september tilkynnti Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna að Svana yrði sæmd Nansen-verðlaununum fyrir þátt sinn í fjáröfluninni.[2] Ekki er fyllilega ljóst hvers vegna einmitt Svana varð fyrir valinu þar sem hún sagðist ekki hafa lagt meira af mörkum en aðrir sem tóku þátt í söfnuninni.[1] Sadruddin Aga Khan, forstjóri flóttamannastofnunarinnar, komst svo að orði að Svana hefði verið valin sem „fulltrúi allra hinna óþekktu sjálfboðaliða á Norðurlöndum og annars staðar, sem í ár og á liðnum árun [hefðu] varið tíma sínum og kröftum í þágu flóttafólksins“.[2]

Svana ferðaðist til Genfar ásamt Davíð Scheving Thorsteinssyni, forseta Rauða krossins á Íslandi, til að taka við Nansen-verðlaununum. Verðlaunin voru veitt við hátíðlega athöfn í Þjóðahöllinni í Genf.[3]

Eftir að Svana lauk kennaraprófi ferðaðist hún ásamt eiginmanni sínum, Jóhanni P. Malmquist, til Pennsylvaníu í Bandaríkjunum, þar sem hann stundaði doktorsnám í tölvunarfræði. Svana nam síðar listfræði og arkitektúr og hefur unnið sem kennari í mörg ár.[1]

Tilvísanir

breyta
  1. 1,0 1,1 1,2 „Skátastúlkan sem fylgdi í fótspor forseta og kóngafólks“. Upplýsingaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna fyrir Vestur-Evrópu. 25. maí 2021. Sótt 31. maí 2021.
  2. 2,0 2,1 „Íslenzk skólastúlka tekur við Nansensverðlaununum í Genf“. Morgunblaðið. 4. september 1971. bls. 3; 23.
  3. „Enn að átta mig á hve merkilegt þetta er“. Morgunblaðið. 6. október 1971. bls. 3.