Svíþjóðardemókratar

Sænskur stjórnmálaflokkur

Svíþjóðardemókratar eru sænskur stjórnmálaflokkur sem byggir á þjóðernishyggju og félagslegri íhaldssemi.

Svíþjóðardemókratar
Sverigedemokraterna
Formaður Jimmie Åkesson
Stofnár 6. febrúar 1988; fyrir 36 árum (1988-02-06)
Höfuðstöðvar Stokkhólmi, Svíþjóð
Stjórnmálaleg
hugmyndafræði
Íhaldsstefna, þjóðernishyggja, hægri-lýðhyggja
Einkennislitur Gulur  
Sæti á ríkisþinginu
Sæti á Evrópuþinginu
Vefsíða sd.se

Flokkurinn var stofnaður árið 1988 upp úr eldri flokkum sem nátengdir voru sænskum nýnasistahreyfingum. Fyrsti leiðtogi flokksins, Anders Klarström, hafði áður verið meðlimur í Norræna ríkisflokknum, flokki sænskra nasista sem dáðust að Hitler.[1] Annar af stofnendum flokksins, Leif Zeilon, hafði einnig verið virkur í nasistahreyfingum og hafði áður verið leiðtogi sænska Lýðræðisbandalagsins.[2]

Í kringum og eftir aldamótin fór flokkurinn að fjarlægjast nýnasískan uppruna sinn og milda stefnu sína í ýmsum málum, sér í lagi eftir að Jimmie Åkesson varð leiðtogi flokksins árið 2005. Meðal annars féll flokkurinn frá gömlum kröfum um að öllum innflytjendum sem hefðu komið til Svíþjóðar utan Evrópu eftir 1970 skyldi vísað úr landi og um að dauðarefsing skyldi tekin upp á ný.[3]

Árið 2011 lýsti Åkesson því yfir að kynþáttahyggja yrði framvegis ekki liðin innan flokksins. Í kjölfarið var mörgum meðlimum vísað úr Svíþjóðardemókrötum.[3] Deilur um meinta kynþáttahyggju innan flokksins leiddu árið 2018 til þess að nokkrir róttækari þingmenn hans klufu sig úr Svíþjóðardemókrötum árið 2018 og mynduðu nýjan flokk, Valkost fyrir Svíþjóð.[4]

Flokkurinn hlaut í fyrsta sinn kosningu til sænska þingsins árið 2010 og hlaut 5,7 prósent atkvæða. Í Evrópuþingskosningunum 2014 fékk flokkurinn 9,7% fylgi og tvo Evrópuþingmenn. Í sænsku þingkosningunum 2014 hlaut flokkurinn 12,9 af hundraði atkvæða og, vegna fárra afgangsatkvæða, 14 % þingsæta. Í kosningum árið 2018 juku Svíþjóðardemókratar enn við sig og urðu annar stærsti flokkurinn á sænska þinginu á eftir Jafnaðarmannaflokknum, með um 19,2 % greiddra atkvæða.[5] Þar sem bæði hægri- og vinstriblokkirnar á sænska þinginu neituðu að vinna með Svíþjóðardemókrötum ríkti stjórnarkreppa í heila fjóra mánuði eftir kosningarnar.

Í kosningunum 2022 urðu Svíþjóðardemókratar aftur næststærsti flokkurinn á þingi á eftir Jafnaðarmönnum með 20,6% atkvæða. Í þetta sinn höfðu aðrir hægriflokkar opnað á möguleikann á samstarfi við Svíþjóðardemókrata.[6] Eftir kosningarnar mynduðu hinir hægriflokkarnir minnihlutastjórn undir forsæti Ulfs Kristersson sem Svíþjóðardemókratar verja vantrausti.[7]

Hugmyndafræði

breyta

Svíþjóðardemókrötunum hefur verið lýst sem þjóðernissinnuðum íhaldsflokk sem er andvígur Evrópusambandinu. Dæmi sem má nefna af stefnuskrá flokksins eru:

  • Lög Evrópusambandsins eiga ekki við sænska stjórnarskrá.
  • Stöðva þarf allan innflutning á erlendu vinnuafli.
  • Sænskt samfélag verður að vera byggt á sænskum gildum og hefðum. Íslam og önnur kerfi sem byggjast á utanaðkomandi gildismati stangast á við vestrænar hugmyndir um frjálsa hugsun og ættu ekki að fá að hafa áhrif á sænskt samfélag á nokkurn hátt.
  • Sambúð samkynhneigðra ætti ekki að vera metin til jafns við raunverulegar fjölskyldur. Samkynhneigðir ættu ekki að fá að ættleiða börn.
  • Vestræn gildi og þjóðernisstolt ættu að einkenna menntakerfi Svíþjóðar.

Tilvísanir

breyta
  1. Bergmann, Eiríkur (2020). Neo-nationalism: The Rise of Nativist Populism. Sviss: Palgrave Macmillan. bls. 115. doi:10.1007/978-3-030-41773-4. ISBN 978-3-030-41772-7.
  2. „Vaxandi kynþáttahatur“. Dagblaðið Vísir. 9. ágúst 1989.
  3. 3,0 3,1 Eiríkur Bergmann 2020, bls. 161.
  4. „Svíþjóðardemó­krat­arn­ir klofna“. mbl.is. 11. apríl 2018. Sótt 29. september 2020.
  5. „Svíþjóðardemó­krat­ar í „odda­stöðu" sam­kvæmt út­göngu­spá“. mbl.is. 9. september 2018. Sótt 14. nóvember 2018.
  6. „Svíþjóðardemókratar sagðir sigurvegarar“. mbl.is. 12. september 2022. Sótt 24. september 2022.
  7. Sigurjón Björn Torfason (16. október 2022). „Sví­þjóðardemó­kratar verja nýja stjórn gegn van­trausti“. Fréttablaðið. Sótt 14. október 2022.