Sundhöllin á Ísafirði
Sundhöllin á Ísafirði er innisundlaug sem áföstu íþróttahúsi við Austurveg á Ísafirði, teiknuð af Guðjóni Samúelssyni. Sundhöllin var vígð 1. febrúar 1946 og er 16 metra löng. Leikfimisalur, félagsmiðstöð fyrir unglinga og dægradvöl fyrir grunnskólabörn á vegum Grunnskólans á Ísafirði eru einnig í húsinu. Fyrir utan bygginguna eru tvær styttur eftir Martinus Simson af karli og konu í sundfötum. Sá kafli Austurvegs sem er við sundhöllina er skólalóð grunnskólans og er Austurvegur því göngugata á þeim kafla.
Sundhöllin á Ísafirði | |
Staðsetning | Austurvegur, Ísafirði |
---|---|
Byggingarár | 1946 |
Hannað af | Guðjón Samúelsson |
Byggingarefni | Steypa |
Aðdragandi byggingar
breytaÁhugi fyrir að reisa veglega sundhöll vaknaði árið 1930. Fram að því hafði sundkennsla farið fram í Reykjanesi við Djúp og í Pollinum á Ísafirði. Langt var inn í Reykjanes og sundiðkun í sjó nýttist ekki nema um hásumarið[1]. Árið 1936 komst skriður á málið þegar nefnd var kosin á fundi bæjarstjórnar. Nefndin ákvað á fundi sínum í október það ár að sundhöll skyldi rísa á Riistúni við Austurveg þar sem til stóð að reisa leikfimishús[1]. Málið þokaðist þó hægt þangað til byggingarnefndin var stækkuð árið 1941. Framkvæmdir hófust haustið 1943[2]. Guðjón Samúelsson húsameistari ríkisins teiknaði húsið en Ragnar Bárðarson var byggingameistari. Sundhöllin var vígð við hátíðlega athöfn 1. febrúar 1946. Laugin var mikið notuð og fyrstu þrjá dagana sem hún var opin sóttu hana 758 gestir.[3]
Leikfimisalurinn í hinni álmu hússins er 11×24 metrar að stærð og á efri hæð tengibyggingar milli álmanna tveggja var Bókasafn Ísafjarðar til húsa.
Notkun hússins
breytaFrá opnun hefur sundlaugin nýst fyrir skólasund allra bekkja Grunnskólans á Ísafirði. Sunddeild Vestra hafði laugina sem sína aðalæfingalaug en æfingar félagsins hættu árið 2016.
Leikfimisalurinn hefur verið notaður til íþróttaiðkunar almennings og skólabarna. Notkun hans minnkaði þó nokkuð þegar íþróttahúsið á Torfnesi var opnað í september 1993[4].
Á efri hæð hússins var Bókasafn Ísafjarðar starfrækt allt þar til það var flutt í Safnahúsið í Gamla sjúkrahúsinu árið 2003[5]. Vegna skorts á leikskólaplássi var á árunum 2013–15 leikskóladeild starfrækt á efri hæð sundhallarinnar. Þar voru fimm ára börn frá leikskólunum Eyrarskjóli og Sólborg sameinuð á deild sem kölluð var Eyrarsól[6]. Deildinni var lokað en ný deild fyrir fimm ára börn opnuð í kjallara tónlistarskólans við hliðina undir nafninu Tangi. Nú er á efri hæðinni rekin dægradvöl á vegum Grunnskólans á Ísafirði, þar sem börn geta dvalið eftir að stundarskrá lýkur til klukkan 16 á daginn[7].
Í kjallara hússins hefur félagsmiðstöðin Djúpið verið rekin um nokkurt skeið.
Sjá einnig
breytaSundhöll Ísafjarðar á vef Ísafjarðarbæjar Geymt 20 apríl 2021 í Wayback Machine
Tilvísanir
breyta- ↑ 1,0 1,1 Þ., Þór, Jón (1984). Saga Isafjardar og Eyrarhrepps hins forna : I-IV. Sögufélag Ísfirðinga. OCLC 866461484.
- ↑ Vesturland 10.–11. tbl. 23. árg. 1946. https://timarit.is/page/5011217
- ↑ „60 ára sundhöll“. www.mbl.is. Sótt 7. mars 2019.
- ↑ Vestfirska fréttablaðið 16. september 1993. https://timarit.is/issue/386774
- ↑ Morgunblaðið 17. júní 2003. https://timarit.is/page/3473372
- ↑ Sólborg. „Saga skólans“. Leikskólinn Sólborg. Sótt mars 2021.
- ↑ „Dægradvöl“. grisa.isafjordur.is. Sótt 8. mars 2021.