Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra

Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra eru almenn félagasamtök sem hafa það að markmiði að stuðla að aukinni orku, starfshæfni og velferð fólks með fötlun, einkum barna. í dag sinnir félagið hlutverki sínu meðal annars með þvi að starfrækja Æfingastöð SLF að Háaleitisbraut 11-13, Iðjuþjálfun SLF í Hafnarfirði og sumardvalarheimilið Reykjadal í Mosfellsdal. Þeir sem njóta þjálfunar hjá SLF eru flestir fatlaðir frá fæðingu. Á hverju ári koma um 1200 einstaklingar til þjálfunar í Æfingastöð SLF að Háaleitisbraut og 25 í Hafnarfjörð. Um 200 börn koma til dvalar í Reykjadal á hverju ári.

Félagið var stofnað 1952. Fjórum árum seinna hóf það rekstur endurhæfingarstöðvar en árið 1968 var stöðinni breytt í Æfingastöð SLF. Árið 1959 hóf SLF rekstur sumarbúða fyrir fötluð börn. Sumarbúðirnar voru fyrst í Reykjaskóla í Hrútafirði en fluttust svo árið 1963 í Reykjadal í Mosfellsdal. Árið 1972 hóf félagið rekstur leikskóla sem nú heitir Múlaborg og hefur reksturinn færst yfir til Reykjavíkurborgar.