Stjórnmálaflokkurinn

Stjórnmálaflokkurinn var íslenskur stjórnmálaflokkur stofnaður í ársbyrjun 1978. Formaður hans og oddviti var Ólafur E. Einarsson.

Meginstefnumál Stjórnmálaflokksins voru þrenn. Í fyrsta lagi að breyta stjórnarskránni til að aðskilja löggjafarvald og framkvæmdavald. Í öðru lagi að einfalda skattkerfið. Og í þriðja lagi að leggja aðstöðugjald á herstöðina á Miðnesheiði í anda aronskunnar.

Stjórnmálaflokkurinn bauð fram í Reykjavíkurkjördæmi og Reykjaneskjördæmi í Alþingiskosningunum 1978 en hafði ekki erindi sem erfiði, fékk tæp 500 atkvæði eða um 0,4%. Flokkurinn lognaðist út af skömmu síðar.