Steingrímur trölli
Steingrímur trölli er sá landnámsmaður sem samkvæmt Landnámu nam Steingrímsfjörð á Ströndum. Hann á að hafa byggt sér bæ í Tröllatungu og haft skip uppi við Hrófá. Til er þjóðsaga um að hann sé heygður með fjársjóði sínum í Steingrímshaugi í Staðarfjalli ofan við Staðarkirkju.
Í Landnámu er sagt að Oddur munkur sé kominn af Steingrími trölla.
Hugsanlegt er að sögur um Steingrím trölla hafi orðið til þess að til varð jólasveinninn Steingrímur sem kemur aðeins fyrir í tveimur nafnaþulum með nöfnum jólasveina sem Jón Árnason fékk frá Guðmundi Gísla Sigurðssyni (f. 1835) frá Stað í Steingrímsfirði.