Steingrímur (jólasveinn)
Steingrímur er mögulega heiti á jólasveini sem kemur fyrir í tveimur Íslenskum nafnaþulum sem Jón Árnason fékk frá Guðmundi Gísla Sigurðssyni (f. 1835) sem alist hafði upp á Stað í Steingrímsfirði.
Fyrri þulan er svona:
- Tífill, Tútur,
- Baggi, Lútur,
- Rauður, Redda,
- Steingrímur og Sledda,
- Lækjaræsir, Bjálminn sjálfur,
- Bjálmans barnið,
- Litlipungur, Örvadrumbur.
Síðari þulan er svona:
- Tífall og Tútur,
- Baggi og Hnútur,
- Rauður og Redda,
- Steingrímur og Sledda,
- sjálfur Bjálfinn og Bjálfans barnið,
- Bitahængir, Froðusleikir,
- Gluggagægir og Syrjusleikir.
Hugsanlega er Steingrímur jólasveinn eða tröll sem orðið hefur til út frá sögnum um landnámsmanninn Steingrím trölla sem í Landnámu er sagður hafa numið Steingrímsfjörð. Líklegra er þó að nafnið Steingrímur hafi strax við landnám átt við einhvers konar náttúruvætt, enda eru slíkar vættir með endinguna -grímur alþekktar í norskri þjóðtrú, til dæmis Fossagrímur sem býr í fossum, spilar á hljóðfæri og reynir að seiða fólk í fossinn.