Steinbrúin í Regensburg

Steinbrúin í Regensburg var reist á 12. öld og var eina brúin yfir Dóná í borginni Regensburg í Þýskalandi í 800 ár.

Steinbrúin yfir ána Dóná

Saga brúarinnar

breyta
 
Brückturm er brúarhlið sunnan megin við brúna

Steinbrúin var aðeins 11 ár í smíðum, frá 1135-1146, og þótti það ganga með eindæmum hratt fyrir sig. Smíðin þótti einnig afar vönduð og var brúin notuð sem fyrirmynd annarra steinbrúa frá 12. og 13. öld, s.s. brúna yfir Saxelfi í Dresden, brúna yfir Moldau í Prag og brúna yfir Rón í Avignon. Lengd brúarinnar eru 336 metrar. Steinbogarnir eru 14 talsins, en á 17. öld hvarf einn boginn í jarðvegsvinnu. Hann er enn til neðanjarðar. Upphaflega voru tvö brúarhlið við sitthvorn enda brúarinnar og eitt fyrir miðju þar sem brúin hvíldi á lítilli eyju, en í dag stendur bara suðurturninn (Brückturm). Loðvík VII, konungur Frakklands, fór yfir brúna árið 1146 í krossferð til landsins helga (2. krossferðin), en það var sama ár og brúin var vígð. 1633 stóð sænskur her við borgardyrnar í 30 ára stríðinu. Borgarbúar tóku þá til bragðs að sprengja brúargólfið milli tveggja steinboga til að hindra að Svíar kæmust yfir. Það kom þó ekki að sök, því Svíar hertóku borgina þrátt fyrir það. Eftir stríðið var bráðabirgðabrú úr viði sett yfir gatið og var það í notkun allt til 1790-91 er nýtt steingólf var lagt á aftur. 23. apríl 1945 sprengdu nasistar brúna á nýjan leik á tveimur mismunandi stöðum til að hindra að bandarískur her kæmist yfir. Þær skemmdir voru ekki lagfærðar fyrr en 1967.

Ástand í dag

breyta

Brúin er komin vel til ára sinna. Hún var opin allri umferð í gegnum aldirnar, þ.á.m. bílaumferð og um tíma gengu sporvagnar yfir brúna. Sprovagnarnir hafa verið fjarlægðir og í upphafi nýs árþúsunds var bílaumferð um hana bönnuð. Aðeins strætisvagnar og leigubílar fengu að fara yfir. 2008 var allri umferð um brúna bönnuð og er hún nú eingöngu opin fyrir gangandi vegfarendur. 2010 var byrjað að taka hana í gegn og til stendur að því ljúki 2017. Þegar er búið að gera við stóran hluta hennar.[1]

Þjóðsaga

breyta

Þegar brúin var í smíðum á 12. öld ákváðu byggingameistari brúarinnar og byggingameistari Péturskirkjunnar að veðja um það hver þeirra gæti klárað sína byggingu fyrr. Þegar veðmálið var afráðið þótti byggingameistara brúarinnar brúarsmíðin ganga allt of hægt fyrir sig og óttaðist að tapa veðmálinu. Hann kallaði því á kölska og bað hann um aðstoð. Kölski sagðist aðeins mundu hjálpa til ef hann fengi fyrstu þrjár sálir sem yfir brúna gengju þegar hún væri tilbúinn. Þessu játti brúarsmiðurinn og nú gekk verkið miklu hraðar. Það tók aðeins 11 ár að fullsmíða brúna og þótti mönnum það með ólíkindum. Þegar smíðinni lauk krafðist kölski launa sinna. Byggingameistarinn lét þá hana, hænu og hund ganga fyrst yfir. Yfir þessu reiddist kölski svo að hann lamdi í brúna af öllu afli. Því er brúin enn í dag með hnúð eða upphækkun fyrir miðju. Reyndar er þessi þjóðsaga síðari tíma tilbúningur, enda var brúin þegar tilbúin þegar kirkjusmíðin hófst.

Tilvísanir

breyta
  1. https://www.regensburg.de/steinerne/instandsetzung/zeitplan Geymt 8 maí 2016 í Wayback Machine sótt 20. febrúar 2016. (Á þýsku)

Heimildir

breyta