Orrustan við Stanfurðubryggju

(Endurbeint frá Stafnfurðubryggju)

Orrustan við Stanfurðubryggju eða Stafnfurðubryggju (Stamford Bridge) var háð árið 1066. Þar barðist Haraldur 3. harðráði Noregskonungur við Harald 2. Guðinason Englandskonung. Haraldur harðráði lét þar líf sitt og nafni hans hafði sigur. Stanfurðubryggja er ekki langt frá Jórvík.

Málverk eftir norska málarann Peter Nicolai Arbo af orustunni við Stamford bridge. Haraldur harðráði fær ör í hálsinn.

Aðdragandi

breyta

Um miðja 11. öldina gerði Vilhjálmur 1. bastarður (einnig nefndur sigursæli), hertogi í Normandí í Frakklandi kröfu til ríkis í Englandi. Ekki fylgdi hann kröfum sínum fast eftir um sinn, en þegar Játvarður góði (Edward the Confessor) konungur Englendinga andaðist án þess að eiga lögmætan erfingja í ársbyrjun 1066, taldi Vilhjálmur sig sjálfkjörinn eftirmann hans. En Englendingar völdu innlendan höfðingja, Harald Guðinason, til konungs og skeyttu ekki um kröfur Normannahertogans. Vilhjálmur bjó út herleiðangur til Englands, en þrálát norðanátt um sumarið 1066 kom í veg fyrir að hann gæti siglt yfir Ermarsund og beið hann vikum saman eftir byr.

Haraldur harðráði

breyta

Norðanáttin var aftur á móti hagstæð Haraldi harðráða Noregskonungi, sem þetta sumar fór á stúfana og hugsaði sér að hertaka England. Haraldur gerði bandalag við hinn útlæga bróður Englakonungs, Tósta jarl, sem taldi sig ekki síður eiga rétt á konungdæminu. Haraldur sigldi frá Noregi með mikið lið á þrjú hundruð skipum og gekk á land í Norður-Englandi. Haraldur Guðinason fór með Englendingum gegn nafna sínum frá Noregi og háðu þeir orrustu mikla við Stanfurðubryggju. Englendingar höfðu betur og þeir Tósti jarl og Haraldur harðráði féllu með miklu af liði sínu þann 25. september 1066.

Sonur Haralds harðráða, Ólafur kyrri, var ekki í orrustunni því að hann var að gæta skipanna. Hann fékk leyfi til að yfirgefa England með því sem eftir var af norska hernum, gegn loforði um að ráðast aldrei á England. Fóru þeir til Noregs á 24 langskipum.

Orrustan við Hastings

breyta
Aðalgrein: Orrustan við Hastings

Um þetta leyti snerist vindáttin Vilhjálmi hertoga í vil og hélt hann þegar með her sinn yfir Ermarsund og steig á land í Suður-Englandi aðeins þremur dögum eftir orrustuna við Stanfurðubryggju. Var það upphafið að orrustunni við Hastings.