Stöðlakot
Stöðlakot (áður Stuðlakot) er steinbær í miðbæ Reykjavíkur sem stendur við Bókhlöðustíg 6. Húsið er líklega reist árið 1872 í núverandi mynd, og er hugsanlega elsti steinbærinn í Reykjavík.
Jón Árnason, nefndur hinn ríki, eignaðist Stöðlakot árið 1850 og átti kotið til dauðadags 1874. Hann stóð að gagngerðri endurbyggingu bæjarins 1872 og hlóð með grjóti. Herma sagnir að til þess hafi verið notað tilhöggvið grjót sem af gekk við byggingu Hegningarhússins. Bendir þetta til þess að Stöðlakot sé elsti steinbærinn í Reykjavík. Stöðlakot hét um tíma Narfabær.