Stórabeltistengingin
Stórabeltistengingin, oft aðeins kölluð Stórabeltisbrúin, er vegtenging milli dönsku eyjanna Sjálands og Fjóns yfir Stórabelti. Tengingin liggur milli Krosseyrar á Sjálandi og Nýborgar á Fjóni með viðkomu á smáeyjunni Sprogø og kom í stað ferjutengingar fyrir lestir, bíla o.fl. sem hafði verið starfrækt milli Krosseyrar og Nýborgar síðan 1883. Vegtengingin er í eigu ríkisfyrirtækisins A/S Storebæltsforbindelsen sem innheimtir vegtoll af henni. Tengingin nær yfir þrjú mannvirki: Austurbrúna (hina eiginlegu Stórabeltisbrú) sem er um 6,8 km löng kassabrú með 1,6 km hengibrú í miðju, Vesturbrúna sem er 6,6 km löng kassabrú fyrir bíla og járnbraut, og Austurgöngin sem eru um 8 km löng járnbrautargöng. Framkvæmdir hófust árið 1988 og brúin var opnuð 14. júní 1998. Þetta var stærsta byggingarframkvæmd í danskri sögu. Heildarkostnaður við verkefnið var þá 21,4 milljarðar danskra króna á verðlagi ársins 1988. Milli 10 og 11 milljón bílar og bifhjól fara yfir brúna á hverju ári. Engin hjólabraut er yfir brúna fremur en Eyrarsundsbrúna sem tengir Danmörku og Svíþjóð.
Bygging tengingarinnar hófst með byggingu Vesturbrúarinnar milli Fjóns og Sprogø og Austurgangnanna, járnbrautargangna frá Sjálandi til Sprogø. Ákveðið var að setja járnbrautartenginguna í forgang. Austurbrúin var reist milli 1991 og 1998. Miðhluti hennar er þriðja lengsta hengibrú veraldar.