Íslendingabók

(Endurbeint frá Slendingabók)

Íslendingabók er stutt yfirlitsrit um sögu Íslands frá landnámi og að ritunartíma, rituð af Ara fróða Þorgilssyni á árunum 1122-1133. Hún er elsta íslenska sagnaritið. Íslendingabók var skrifuð á íslensku, þrátt fyrir að alþjóðamál lærðra manna á ritunartímanum hafi verið latína. Segja má að Ari hafi þannig í upphafi íslenskrar bókmenningar markað þá stefnu að rita á móðurmálinu. Stíll Ara er knappur og ber þess nokkur merki að Ari er latínulærður. Heimildarmenn eru valdir af kostgæfni og nefndir, elsti heimildarmaður Ara var fæddur árið 995 (72 árum eldri en Ari var sjálfur). Í Íslendingabók er meðal annars sagt frá dvöl papa á Íslandi, landnámi Íslands, stofnun Alþingis, kristnitökunni, fundi Grænlands og upphafi byggðar þar, auk þess sem tímatalið er skorðað.

Elsta varðveitta handrit Íslendingabókar er frá 17. öld, pappírshandrit skrifað af Jóni Erlendssyni, presti í Villingaholti fyrir Brynjólf Sveinsson Skálholtsbiskup. Jón skrifaði Íslendingabók upp eftir gömlu handriti, sem nú er glatað, en talið er að hafi verið frá því um 1200. Handritið mun hafa týnst skömmu eftir að Jón skrifaði það upp, en Árni Magnússon fann ekkert af því þegar hann safnaði íslenskum handritum nokkrum áratugum síðar.