Ritstíll er yfirbragð og gangverk skrifaðs texta, og með því einnig innri hrynjandi og samræmi orðanotkunar og innihalds, setningaskipunar og hugsunar. Ritstíll er oft litaður af tíðarandanum og talmáli hvers tíma. Góður stílisti þjálfar ólíka ritstíla (þ.e. hermir og lærir), beygir þá undir sig, rétt eins og hann stækkar í sífellu orðaforða sinn og finnur hverju orði réttan stað í texta. Í mörgum tilfellum hefur góður stílisti einnig náð að tengja efni sitt og um leið persónuleika sinn við orðin og nær þannig oft betur í gegn til lesandans og getur því skapað raunverulegar tilfinningar í huga hans.

Höfundar um ritstíl breyta

Í áranna rás hafa rithöfundar reynt að fanga lifandi myndir í texta, festa orð í skrift sem bera með sér þann lykil að geta opnað lesandanum þann heim sem höfundurinn sá innra með sjálfum sér. Stíll er oft mikilvægur þáttur þess að það takist. Það er þó ekki öllum gefið að stíla vel eða skýrt, enda þarf ýmislegt að koma til. Johann Wolfgang von Goethe, höfundur leikritsins Faust, skrifaði einu sinni:

„Ef maður setur sér að skrifa skýran stíl, þá er best að byrja á því að hafa skýra hugsun, og ef maður sækir eftir tignum stíl, þá er nauðsynlegt að hafa tigna sál“.

Aðrir höfundar hafa reynt að láta orðin gufa upp í huga lesandans eins og Willa Cather, höfundur skáldsögunnar, Hún Antónía mín, en hún sagði eitt sinn: „Ég vil ekki að nokkur maður sem lesi bækur mínar hugsi um ritstíl. Ég vil að lesandinn verði eitt með sögunni“. Hinn franski Voltaire, höfundur Birtings, hafði mjög einfalda skoðun á stíl og hvað gerði hann góðan. Hann skrifaði einu sinni: „Allur stíll sem ekki er leiðinlegur er góður stíll“.

Í bók Ólafs Ragnarssonar, Til fundar við skáldið, spyr Ólafur Halldór Laxness hvort hann velti frásagnarhætti bókarinnar fyrir sér áður en hann fer að skrifa og hvort stíllinn komi af sjálfu sér. Laxness svaraði: „Það getur verið snúið að finna réttan tón í upphafi verks og þar með í hvaða stíl er best að skrifa ákveðna bók. Stundum detta menn ofan ofan á heppilegan stílsmáta bara eins og í ógáti, jafnvel afskaplega góðan, skemmtilegan, upphefjandi eða furðulegan stíl dálitla stund og getur verkað vel á lesarann. En svo er kúnstin að halda stílnum - ef hann á þá við efnið. Þetta tvennt, efni og stíll, þarf að fallast í faðma.“ [1]

Höfundar hafa einnig velt fyrir sér markmið ritstíla og séð að ólíkur stíll hæfir ólíkum tilefnum. Rómverjinn Cíceró taldi að til væru þrjár stíltegundir til að ná fram marki höfundar. Hann nefndi stíltegundirnar og markmiðin:[2]

  • Einfaldur stíll til að gefa til kynna staðreyndir eða sannanir.
  • Hófstilltur stíll til skemmtunar.
  • Tilfinningaþrunginn stíll til að snúa hug áheyrandans.

Orðaforði og ritstíll breyta

Ritstíll litast mjög af orðaforða höfundar, málfræðikunnáttu hans og lestri almennt. Hættan er því mikil þegar heil þjóð gefst upp á fjölbreytni orðanna og dýpri merkingu í málfræði tungunnar. Helgi Hálfdanarson þýðandi, skrifaði í Morgunblaðið árið 1980, og varaði við vankunnáttu og einföldunum. Hann taldi minnkandi orðaforða og verri málfræðikunnáttu skila sér í takmarkaðri möguleika til stílkosta. Hann skrifaði:

Eitthvert geigvænlegsta hnignunarmerki tungunnar er flóttinn til einföldunar. Einföldun máls er jafnan af hinu illa. Hún gerir tungutakið fátæklegra, eyðir hollri fjölbreytni í orðafari, þurrkar út blæbrigði merkinganna, sviptir málið nákvæmni sinni og þröngvar stílkosti þess. Þeir sem ofnota skildagatíð vegna óvissu sinnar um viðtengingarhátt, fremja í einföldunar skyni rosaleg málspjöll, sem stefna á útrýmingu sagnbeyginga. Þeir sem nota í tíma og ótíma veikbeygð orð vegna vafa síns um notkun sterkbeygðra orða, vinna til einföldunar ámóta óþurftarverk. Þeir sem banna sögnina „brúka“, eru að þrengja svigrúm málsins með einföldun í orðavali á sama hátt og þeir sem ofnota „brúka“ í stað „nota“. Þó að merking þessara sagna sé næsta lík, hafa þær sitt stílgildið hvor, og sá þarflegi munur máist brott, ef þær eru lagðar að jöfnu í notkun. Orðin „bíll“ og „bifreið“ eru bæði ómissandi, þó að merking þeirra sé hin sama; „bifreið“ getur brugðið á hugtakið nokkrum svip sparibúnings vegna þess að orðið „bíll“ er haft til hversdags-nota. Sú einföldun máls að útrýma öðruhvoru orðinu, væri því málspjöll. [3]

Ritstílar breyta

  • alþýðustíll - stíll Íslendingasagna er oft sagður vera alþýðustíll, öfugt við lærða stílinn sem er skrifaður fyrir menntamenn, en Íslendingasögurnar voru ætlaðar öllum til lestrar. [4]
  • barnalegur ritstíll – höfundur skrifar eins og barn sem lítið veit (getur verið stílbragð). Orðaforði takmarkaður og setningabyggingin bernsk.
  • hátíðlegur ritstíll – höfundur ávarpar lesendur af töluverðri (eða mikilli) alvöru (vandmeðfarinn ritstíll og sem ekki á alltaf við; getur verið stílbragð).
  • hátimbraður ritstíll – höfundur nær ekki jarðsambandi, eða er of háfleygur. Stundum er hátimbraður ritstíll aðeins merki um að höfundur vilji fela vankunáttu sína. Ekki er það þó einhlýtt.
  • hversdagslegur ritstíll – höfundur skrifar eins og hann hafi aðeins lesið dagblöð alla ævi.[5] Hversdagslegur stíll er auðveldur aflestrar, en ber takmörkuð persónuleikaeinkenni.
  • kansellístíll – embættisbréfastíll með flókinni og samanskrúfaðri orðskipan (að uppruna dansk-þýskri); samanbarinn og tilgerðarlegur flækjustíll. [6] [7]
  • klúsaður ritstíll eða broti – ritstíll með snúið, flækjukennt, tilgerðarlegt mál(far).
  • knosaður ritstíll eða tyrfinn ritstíll – orðabeitingin samanrekinn og textinn torskilinn.
  • kurlstíll – stíll með stuttum setningum, oft einkenni Íslendingasagna.
  • lágkúrulegur ritstíll – höfundur þjáist af menningarleysi, viðhefur klaufalega orðaskipun, kauðskt orðalag og kauðskar orðmyndir, ónákvæm og geigandi beitingu orða og fábreytilegan orðaforða.
  • lipur ritstíll – liðlegur ritháttur, stíll sem áreynslumerki sjást ekki á.
  • lærður stíll - er stíll sem er á kirkjulegum ritum fornum og öðrum þýddum ritum. Ólíkt íslendingasögunum er hann flókinn, en stíll Íslendingasagna nefnist alþýðustíll og er öllum skiljanlegur. [8]
  • sprokverskur ritstíll – höfundur virðist ekki vita hvaða tungumál hann er að skrifa, þar eð hann slettir í gríð og erg (getur verið stílbragð).
  • staglstíll - er stíll sem algengur er af hendi opinberra aðila. Dæmi: „Stöður grunnskólakennara við grunnskóla úti um allt land“. (sjá Nástaða)
  • stílleysa – höfundur er fastur í rásinni og skrifar dauflegan texta, kemur sér ekki undan klisjum og er æði tilþrifalítill og jafnvel svo að textinn verður að engu.
  • talmálsritstíll – höfundur skrifar eins og almenningur talar, en slíkur ritstíll er oftast aðeins heppilegur í ræðu.
  • tilgerðarlegur ritstíll – höfundur ræður ekki við tungumálið, en gerir sig til fyrir því.

Tilvísanir breyta

  1. Ólafur Ragnarsson; Til fundar við skáldið; Veröld, Reykjavík 2007, bls. 24
  2. Íslensk málsaga
  3. Þið, um þér, frá vor, til oss; grein í Morgunblaðinu 1980
  4. Mál og menning; grein í Tímanum 1956
  5. Stíll dagblaða er þó ekki alltaf hversdagslegur. Hann getur verið tilgerðarlegur, klúsaður, lágkúrulegur eða jafnvel stílleysa.
  6. http://wayback.vefsafn.is/wayback/20041102214711/www.ma.is/kenn/svp/kennsluefni/malsaga/malsverk/mv11.htm
  7. Íslensk málsaga Kansellístíll er kenndur við Kansellí, eina af stjórnarskrifstofum í Kaupmannahöfn.
  8. Mál og menning; grein í Tímanum 1956

Tengt efni breyta

Tenglar breyta