66°01′11″N 19°23′13″V / 66.01972°N 19.38694°V / 66.01972; -19.38694

Séð yfir Sléttuhlíðarvatn.

Sléttuhlíð er byggðarlag við austanverðan Skagafjörð og nær frá Höfðahólum og út til Stafár.[1] Þar gengur ströndin töluvert til vesturs um leið og fjöllin sveigja heldur til austurs þannig að undirlendið breikkar að mun frá því sem er á utanverðri Höfðaströnd. Láglendið er þó ekki slétt því þar er langt fell, 173 m á hæð, á milli tveggja aflangra stöðuvatna sem heita Kappastaðavatn og Sléttuhlíðarvatn. Á milli fellsins og fjallanna er láglend kvos, fremur gróðursæl, og þar eru nokkrir bæir, þar á meðal kirkjustaðurinn Fell. Þar var Hálfdan Narfason prestur fyrr á öldum og er sagður hafa verið göldróttur.[2] Vestan við Fellið er eyðibýlið Fjall. Þar fæddist Sölvi Helgason (Sólon Íslandus).[3]

Tveir dalir ganga inn í fjallgarðinn upp frá Sléttuhlíð. Sunnar er Hrolleifsdalur, sem sagður er kenndur við landnámsmanninn Hrolleif og er nú allur í eyði, og Skálárdalur, sem aldrei hefur verið byggður. Úr honum rennur Skálá og fellur í Hrolleifsdalsá, sem bugðast til sjávar sunnarlega í sveitinni.[4]

Sléttuhlíð var áður í Fellshreppi en er nú hluti af Sveitarfélaginu Skagafirði.[5][6]

Heimildir

breyta
  1. „Sléttuhlíð – Iceland Road Guide“. Sótt 4. september 2024.
  2. „Fellskirkja“. web.archive.org. Afrit af upprunalegu geymt þann 20. júní 2021. Sótt 4. september 2024.
  3. „Sölvi Helgason, ens“. Safnasafnið (bresk enska). Sótt 4. september 2024.
  4. „Hrolleifsdalsá - NAT ferðavísir“. 14. maí 2021. Sótt 4. september 2024.
  5. Háskólabókasafn, Landsbókasafn Íslands-. „Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 4. september 2024.
  6. Hjördís Erna Sigurðardóttir (september 2016). „Örnefni, Örnefnanefnd, sameinuð sveitarfélög og bæjanöfn: Vald og saga örnefnastýringar“ (PDF). Háskóli Íslands.