Hálfdan Narfason (d. 1568) var prestur í Felli í Sléttuhlíð í Skagafirði á 16. öld. Hann var talinn rammgöldróttur og eru til um hann ýmsar þjóðsögur en hin þekktasta segir frá því þegar hann reyndi að sækja húsfreyjuna í Málmey í tröllaheldur.

Hálfdan var bróðursonur Einars Benediktssonar, ábóta í Munkaþverárklaustri, en ætt hans er annars óþekkt. Hann var orðinn prestur á Hólum í Hjaltadal 1507 en var síðar mjög lengi prestur á Felli, allt til dauðadags. Fátt er vitað um hann með vissu en um hann og galdrakunnáttu hans hafa þó spunnist margar sögur. Flestar segja þær frá smáatvikum eða meinlausum glettum, eða þá að séra Hálfdan notar kunnáttu sína öðrum til hjálpar, enda var hann kenndur við hvítagaldur en ekki svartagaldur.

Þekktust er sagan af því þegar bóndinn í Málmey leitaði til Hálfdanar eftir að kona hans hvarf á aðfangadag á tuttugasta og fyrsta vetri þeirra í eynni en enginn mátti búa lengur en tuttugu ár þar (sumir segja nítján). Hálfdan sagðist ekki geta náð konunni aftur en fékkst þó til að reyna. Settust þeir hann og bóndinn þá á gráan hest sem stóð við kirkjugarðinn á Felli og þaut hesturinn á ógnarhraða eftir sjónum út fyrir Dalatá og Siglunes. Í eitt skipti var eins og hesturinn hrasaði og bóndinn rak upp óp en Hálfdan sagði: „Þar skriplaði á skötu og haltu kjafti“.

Þeir héldu áfram þar til komið var undir Hvanndalabjarg (aðrir segja Ólafsfjarðarmúla), þar sem presturinn knúði dyra á bjarginu og komu þá út tvær konur og leiddu Málmeyjarhúsfreyju á milli sín, en hún var orðin „næsta torkennileg og ólík því, sem hún var áður, þrútin og blá að yfirlit og hin tröllslegasta; krossmark var í enni konunnar með réttum holdslit“. Bóndanum varð svo mikið um að hann vildi ekkert við konu sína tala og hurfu þeir frá við svo búið.

Heimildir breyta

  • „Galdrameistarinn í íslenzkri þjóðsögu. Lesbók Morgunblaðsins, 10. september 1967“.
  • „Frá séra Hálfdani á Felli. Af snerpu.is“.