Sjúkraliði er fagstétt á heilbrigðissviði. Sjúkraliðar starfa bæði við almenna og sérhæfða umönnun sjúklinga og við þau hjúkrunarstörf sem þeir hafa menntun og faglega færni til að sinna. Sjúkraliðar starfa innan heilbrigðiskerfisins og starfa til dæmis á sjúkrahúsum, öldrunarheimilum, heilsugæslustöðvum og sambýlum fyrir fatlaða, svo að dæmi séu tekin.[1]

Saga breyta

Sjúkraliðanám var fyrst sett á stofn á Íslandi árið 1965 að danskri fyrirmynd. Sjúkraliðaskóli Íslands var stofnaður árið 1975. Sjúkraliðaskólinn var lagður niður árið 1990 og námið flutt í Fjölbrautaskólann við Ármúla/Heilbrigðisskólann og hefur síðar verið aðgengilegt á fleiri menntastofnunum. Framhaldsnám fyrir sjúkraliða hófst við Fjölbrautaskólann við Ármúla/Heilbrigðisskólann janúar 1992 [2].

Störf breyta

Sjúkraliðar starfa undir stjórn þess hjúkrunarfræðings sem fer með stjórn á viðkomandi stofnun eða deild. Sjúkraliðar tileinka sér þekkingu á ákveðnu sérsviði hjúkrunar og taka þátt í hjúkrun og við að aðstoða og leiðbeina sjúklingum í athöfnum daglegs lífs. Þeir þurfa einnig að hafa eftirlit með og fyrirbyggja fylgikvilla sem geta komið upp í kjölfar rúmlegu sem og að leiðbeina sjúklingum við endurhæfingu. Einnig leiðbeina þeir aðstoðarfólki við aðhlynningu og aðstoða við aðlögun nýrra starfsmanna þegar það á við.

Nám breyta

Sjúkraliðanám er viðurkennt starfsnám og nemendur hljóta löggildingu að því loknu samkvæmt reglugerð Heilbrigðisráðuneytisins. Sjúkraliðanám er 120 eininga nám og meðalnámstími á sjúkraliðabraut er 3 ár í skóla auk starfsþjálfunar á launum í 16 vikur.

Meðal áfanga sem kenndir eru má nefna: Heilbrigðisfræði, hjúkrunarfræði bókleg, hjúkrunarfræði verkleg, líffæra- og lífeðlisfræði, líkamsbeiting, lyfjafræði, næringarfræði, sálfræði, siðfræði, sjúkdómafræði, skyndihjálp, sýklafræði og upplýsingatækni. Einnig fer fram vinnustaðatengt nám og starfsnám.

Þeir skólar sem bjóða upp á sjúkraliðabraut eru: Fjölbrautaskólinn við Ármúla, Fjölbrautaskólinn í Breiðholti, Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra, Fjölbrautaskóli Suðurnesja, Fjölbrautaskóli Vesturlands, Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum, Menntaskólinn á Ísafirði og Verkmenntaskólinn á Akureyri. [3]

Sjúkraliði á ýmsum málum breyta

Enska: Licensed practical nurse [4]
Danska: Social og sundhedsassistent
Sænska: Undersköterska.
Norska: Helsefagarbeider
Franska: Aide-soignant.
Þýska: Gesundheits- und Krankenpflegehelfer.

Tengt efni breyta

Félagsliði

Tenglar breyta

Sjúkraliðafélag Íslands

Tilvísanir breyta

  1. Sjúkraliðar Geymt 10 mars 2016 í Wayback Machine, Skoðað 20. nóvember 2015.
  2. Sjúkraliðanám, Skoðað 20. nóvember 2015
  3. Hvernig verð ég sjúkraliði?, Skoðað 20. nóvember 2015.
  4. European Commission [1]