Ekki rugla saman við Simone Veil, franska stjórnmálakonu.

Simone Adolphine Weil (3. febrúar 190924. ágúst 1943) var franskur heimspekingur, dulspekingur og róttækur aðgerðasinni sem náði í upphafi miklum vinsældum fyrir verk sín um andleg málefni og kristni. Þessi verk voru gefin út skömmu eftir dauða hennar. Páll 6. páfi sagði hana einn af sínum þremur helstu áhrifavöldum. Verk hennar á sviði heimspeki og stjórnmála náðu seinna meiri athygli og frá 1995 hafa komið út yfir 2500 verk um hana og kenningar hennar.[1]

Simone Weil.

Weil útskrifaðist sem kennari og kenndi með hléum á 4. áratugnum. Á sama tíma tók hún þátt í stjórnmálastarfi og aðgerðum marxista og verkalýðsfélaga í Frakklandi og Þýskalandi. Árið 1936 gekk hún til liðs við lýðveldissinna í spænsku borgarastyrjöldinni og gerðist liðsmaður í Durruti-herdeildinni. Hún var mjög nærsýn svo félagar hennar komu í veg fyrir að hún fengi að skjóta af byssum. Eftir að hafa brennt sig við eldamennsku neyddist hún til að yfirgefa herdeildina og foreldrar hennar aðstoðuðu hana við að komast til Assísí til lækninga. Nær öll herdeildin var þurrkuð út í orrustu við Perdiguera nokkrum vikum síðar. Í Assísí varð Weil fyrir trúarlegri hugljómun og gerðist kristin, þótt hún neitaði að skírast á þeim tíma. Árið 1942 fylgdi hún foreldrum sínum til Bandaríkjanna, en fór svo sjálf til London til að ganga í frönsku andspyrnuhreyfinguna. Hugmyndin var að senda hana til Frakklands sem njósnara, en hætt var við það þar sem heilsu hennar tók að hraka. Hún var greind með berkla, en neitaði að borða meira en hún taldi að íbúar hernámssvæðanna í Frakklandi fengju. Hún lést vegna hjartabilunar á heilsuhæli í Kent, aðeins 34 ára gömul.

Frægustu verk Weil voru gefin út nokkru eftir að stríðinu lauk. Hún lét kaþólska heimspekinginn Gustave Thibon fá ritverk sín, stílabækur og bréf áður en hún hélt til Bandaríkjanna, og hann gaf út La Pesanteur et la grâce árið 1947.

Tilvísanir

  1. Saundra Lipton og Debra Jensen (3. mars 2012). „Simone Weil: Bibliography“. University of Calgary. Sótt 16. apríl 2012.
   Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.