Sigursúlan í Berlín
Sigursúlan er frægt minnismerki sem stendur við Grosser Stern torgið í Berlín. Efst á súluni trónir Viktoría, sigurgyðja Rómverja, enda var súlan reist til minningar um nokkur sigursæl stríð Prússa á 19. öld.
Saga sigursúlunnar
breytaForsaga
breytaSíðla á 19. öld háðu Prússar nokkur árangursrík stríð. 1864 sigruðu þeir Dani í orrustunni við Dybbøl og innlimuðu Slésvík endanlega. 1866 sigruðu þeir Austurríki og urðu leiðandi þjóð í þýska sambandinu. 1870-1871 sigruðu þeir Frakka. Í kjölfarið varð Prússland að keisaraveldi. Til að minnast þessara þriggja sigra á vígvellinum var ákveðið að reisa sigursúluna.
Byggingarsaga
breytaSúlan var reist á torginu Königsplatz, sem í dag er á sömu lóð og ríkisþinghúsið. Súlan stendur á ferningslaga stalli. Ofan á stallinum eru hringlaga súlnagöng og er súlan sjálf þar upp yfir. Efst trónir Viktoría, sigurgyðja Rómverja. Hún er úr bronsi og er 8,5 metra há. Alls var súlan upphaflega 50 metra há. Súlan er innangeng og er hægt að fara upp í þar til gerðan útsýnispall við stall sigurgyðjunnar.
Tilfæringar og stríð
breytaÞegar Hitler komst til valda hafði hann eigin hugmyndir um framtíðarútlit Berlínar. Þar sem súlan stóð ætlaði hann að reisa aðra byggingu (sem svo ekkert varð úr). Því lét hann taka súluna í sundur og flytja hana á núverandi stað. Við samsetninguna var einum súlnahring bætt við. Súlan hækkaði því um 7,5 metra, þannig að hún er tæpir 67 metrar í dag. Í stríðinu sem fylgdi slapp súlan við allar skemmdir. Þegar Berlín var hernumin, lögðu Frakkar til við hin hernámsveldin að sprengja súluna, þar sem hún minnti þá óþyrmilega á ósigur þeirra gegn Prússum. Bretar og Bandaríkjamenn voru þó á móti því en Rússar sátu hjá. Því létu Frakkar sér nægja að fjarlægja minnisplattana sem héngu á súlunni og flytja þá til Parísar. Þeim var ekki skilað fyrr en 1987 þegar Berlín hélt upp á 750 ára afmæli sitt.
Nútíminn
breytaSigursúlan hefur verið friðuð. Hún stendur á umferðartorginu Grosser Stern vestur af miðborginni. Sökum þrengsla innan í súlunni reyndist ekki unnt að setja upp lyftu og verður því að ganga upp 285 þrep til að komast upp á útsýnispallinn. Torgið og umferðargatan (Strasse des 17. juni) voru notuð fyrir hina geysivinsælu gleðigöngu Love Parede á árunum 1989-2006. Þegar mest lét, mættu 1,5 milljón manns í gleðigönguna. Árið 2008 kom Barack Obama til Berlínar og hélt kosningaræðu við sigursúluna. Hann var kosin Bandaríkjaforseti seinna á því ári.
Heimildir
breyta- Schneider og Cobbers (1998). Berlin. Jaron.
- Fyrirmynd greinarinnar var „Berliner Siegessäule“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt desember 2009.