Sigrún Huld Hrafnsdóttir

Sigrún Huld Hrafnsdóttir (f. 12. janúar 1970)[1] er íslensk afrekskona í sundi. Hún var afar sigursæl á sundferli sínum og á Ólympíumóti þroskaskertra í Madríd á Spáni árið 1992 var hún sá keppandi sem hlaut flest verðlaun.

Sigrún Huld ólst upp í Seljahverfinu í Reykjavík og gekk í Öskjuhlíðarskóla. Hún hóf að æfa sund hjá Íþróttafélaginu Ösp árið 1982[2] og keppti á fjölmörgum stórmótum innanlands og utan. Hápunktur íþróttaferils hennar var án efa er hún vann til 9 gullverðlauna og tvennra silfurverðlauna á Ólympíumóti þroskaskertra í Madríd árið 1992.

Árin 1989, 1991 og 1994 var hún valin íþróttamaður ársins hjá Íþróttasambandi fatlaðra og árið 1991 var hún útnefnd besti íþróttamaður þroskaheftra í heiminum af Alþjóðasamtökum þroskaheftra. Hún var valin íþróttamaður Reykjavíkur árið 1992 og árið 2015 var hún sæmd riddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu fyrir afrek og framgöngu á vettvangi íþrótta fatlaðra.[1]

Sigrún Huld hætti keppni að loknu Ólympíumóti fatlaðra í Atlanta í Bandaríkjunum árið 1996.[2] Hún hefur um árabil starfað hjá Nóa-Síríus og hefur einnig haldið nokkrar einkasýningar á myndlist sinni og tekið þátt í starfi listahátíðarinnar List án landamæra.[2]

Tilvísanir

breyta
  1. 1,0 1,1 Ifsport.is, „Sigrún Huld sæmd riddarakrossi fálkaorðunnar“ Geymt 19 september 2020 í Wayback Machine (skoðað 22. september 2019)
  2. 2,0 2,1 2,2 „Kjarnakonan Sigrún Huld: Utanlandsferð á fertugsafmælinu“, Hvati, 1. tbl. 10. árg. 2010. bls. 40.