Sigrún Þuríður Geirsdóttir
Sigrún Þuríður Geirsdóttir (fædd 3. júlí 1972) er fyrsta íslenska konan til að synda ein yfir Ermarsundið og fyrsta konan til að synda svokallað Eyjasund[1] en það er sundið milli Vestmannaeyja og Landeyjasands.
Sigrún Þuríður Geirsdóttir | |
---|---|
Fædd | 3. júlí 1972 Mosfellsbær, Íslandi |
Þekkt fyrir | Að vera fyrsta íslenska konan til að synda yfir Ermarsundið og fyrsta konan til að synda Eyjasundið |
Maki | Jóhannes Jónsson |
Börn | 3 |
Foreldrar | Geir Þorsteinsson, Emma Ottósdóttir |
Vefsíða | facebook.com/sigrung |
Auk þess að synda ein yfir Ermarsundið hefur Sigrún synt þrisvar sinnum yfir Ermarsundið í boðsundi. Sigrún hefur synt mörg sjósund við Ísland, líkt og Viðeyjarsund hið stærra (frá Bryggjunni í Viðey og inn í Reykjavíkurhöfn), Viðeyjarsund hið minna (frá Skarfakletti að bryggjunni í Viðey og aftur til baka), Drangeyjarsund, Bessastaðasund, Skarfavararsund, Ægisíðusund, Fossvogssund, Grímseyjarsund, Helgusund og Eyjasund auk þess sem hún synti boðsund frá Ánanaustum upp á Akranes.
Það skiptir ekki máli hvað þú ert lengi, heldur að taka þátt, hafa gaman og komast í mark“
— Sigrún Þuríður Geirsdóttir.
Á þjóðhátíðardaginn 17. júní 2020 sæmdi forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, Sigrúnu Þuríði riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir afrek á sviði sjósunds.[2]
Ævi og menntun
breytaSigrún er næstyngst fjögurra systkina og ólst upp í Mosfellsbæ. Hún giftist Jóhannesi Jónssyni árið 1992 og eiga þau þrjú börn.
Sigrún er menntaður þroskaþjálfi en hún útskrifaðist frá Háskóla Íslands árið 2001 og með meistarapróf í þroskaþjálfafræðum árið 2016 frá sama skóla.
Ermarsund Sigrúnar
breytaÁrið 2015 synti Sigrún fyrst íslenskra kvenna yfir Ermarsundið en áður hafði hún synt tvisvar sinnum boðsund yfir Ermarsundið.
Aðdragandinn
breytaÁrið 2012 fengu nokkrar sjósundskonur þá hugmynd að það væri gaman að synda boðsund yfir Ermarsundið. Úr varð að stofnuð var boðsundssveitin Sækýrnar, sem var skipuð sex konum. Sækýrnar náðu að synda yfir Ermarsundið þann 26. júní 2013[3]. Tími þeirra var 19 klst. og 32 mín. Sundsveitin hlaut sérstök verðlaun frá The Channel Swimming & Piloting Federation fyrir lengsta boðsund ársins,[4] en það þarf mikla þrautsegju til að gefast ekki upp.
Sigrún synti aftur boðsund yfir Ermarsund árið 2014, þá með fimm manna boðsundssveit sem kallaði sig Yfirliðið[5] og var einnig eingöngu skipuð konum. Yfirliðið náði að synda yfir Ermarsundið þann 20. júlí 2014. Tími þeirra var 13 klst. og 31 mín.
Eftir sundið með Yfirliðinu fann Sigrún að hana langaði að prófa að synda ein yfir Ermarsundið.
Ermarsundið sjálft
breytaErmarsundið er stundum kallað „Everest-fjall sjósundmanna“. Að synda yfir sundið er eitt og sér mikið afrek, en þrekvirki Sigrúnar verður líklega seint leikið eftir. Sundið tók hana 22 klukkustundir og 34 mínútur. Að synda allan þennan tíma í sjó er ótrúlegt afrek, sérstaklega þegar haft er í huga að hún hefur engan bakgrunn sem íþróttamaður og að hún lærði skriðsund árið 2012, einungis þremur árum fyrir Ermarsundið.
Vegalengdin sem Sigrún synti var 62,7 kílómetrar en það samsvarar 1.254 ferðum fram og til baka í 25 metra sundlaug, og það í gríðarlega miklum straumum, öldum og að hluta til í svarta myrkri. Eftir ríflega þriggja klukkustunda sund varð Sigrún sjóveik og kastaði hún upp hverri einustu matargjöf á 30 mínútna fresti í tæpar sjö klukkustundir[6]. Þegar hún kastaði upp þurfti hún að troða marvaðann í gríðarlega sterkum straumum og rak hana þá töluvert af leið, og það þurfti hún að vinna upp í hvert skipti. Í næstum því sjö klukkustundir fékk hún matargjöf, kastaði henni upp og hélt svo áfram að synda. Þar sem hún fékk enga næringu fór orkuleysið að segja til sín og hægði töluvert á sundi hennar. Þegar um tíu klukkustundur voru liðnar af sundinu tókst henni loks að vinna bug á sjóveikinni og halda fæðunni niðri, en þá var skipt um fæði. Það sem eftir lifði sunds var fæða hennar Coca Cola, Milky Way súkkulaði og Jelly Babies. Þá voru meira en 12 klukkustundir eftir af sundi hennar.
Eftir um 17 klukkustunda sund kom Sigrún að "Grafreit draumanna" (The Graveyard of Dreams") en það kallast síðustu mílurnar við strendur Frakklands. Hér eru öfl sjávarfallanna gríðarleg, en þau bæði ýta og toga í sundmanninn þannig að hann þarf að berjast til að halda áfram. Þreyttur sundmaður getur lent í því að synda hér í langan tíma án þess að færast nær landi. Sundmenn einfaldlega "festast" og örmagnast af þreytu. Þrátt fyrir að hér sé stutt í land reynist þetta sundmönnum oft það erfitt að þeir verða að hætta sundi. Má hér sem dæmi nefna frænda Sigrúnar, sundkappann Eyjólf Jónsson, þegar hann reyndi við Ermarsundið árið 1958, og Benedikt Hjartarson þegar hann varð frá að hverfa árið 2007 eftir meira en 15 klukkustunda sund.
Sigrún gafst aldrei upp og þegar hún nam land í Frakklandi við Cap Gris Nez hafði hún tekið um 62 þúsund sundtök og brennt meira en 22 þúsund kaloríum.
Ég hef fylgt yfir 500 sundmönnum yfir Ermarsundið og er sund þitt án efa það minnisstæðasta. Þú ert innblástur fyrir alla sem ætla að gera tilraun við heimsins erfiðasta sund. Ég er mjög stoltur af því að geta sagt að ég hafi verið hluti af afreki þínu.“
— Mike Ball (eftirlitsmaður Channel Swimming & Piloting Federation)[7].
Árið 2019 synti Sigrún enn einu sinni boðsund yfir Ermarsundið nú með sundhópnum Marglyttunum[8]. Markmiðið með boðsundinu var að vekja athygli á áhrifum plastmengunar á lífríki sjávar og að safna áheitum fyrir umhverfisverndarsamtökin Bláa herinn.[9] Það tók Marglytturnar 15 klst. að synda yfir Ermarsundið.[10]
Eyjasund Sigrúnar
breytaÁrið 2019 varð Sigrún fyrsta konan til að synda svokallað Eyjasund, sem er það afrek að synda á milli Vestmannaeyja og Landeyjasands.
Að synda Eyjasundið, sem má kalla drottningu sjósunds á Íslandi, hafði verið draumur Sigrúnar í mörg ár en frændi Sigrúnar, sundkappinn Eyjólfur Jónsson, afrekaði það í júlí árið 1959 fyrstur manna.
Að mörgu er að hyggja þegar synda á milli lands og eyja. Best er að synda þegar það er smástreymt og hefja sundið þannig að sundmaður sé ríflega hálfnaður með sundið á liggjandanum, þ.e. frá fjöru að flóði. Því þarf sundið að hefjast í austurfallinu, þegar það er að falla frá, og enda í vesturfallinu, þegar það byrjar að falla að. Æskilegast er að synda í norðaustan vindátt en þá er logn á milli lands og eyja. Auk þess þarf hitastig sjávar að vera viðunandi.
Það þarf því að fara saman að það sé smástreymt, að liggjandi verði þegar sundmaður er hálfnaður með sundið, veður og vindátt séu góð og síðast en ekki síst að hitastig sjávar sé nægjanlega hátt. Þar sem smástreymi er bara tvisvar sinnum í mánuði og þá daga er háfjara einungis tvisvar sinnum á sólarhing, eru tækifærin til að synda Eyjasundið ekkert óskaplega mörg á hverju sumri.
Rétt eftir miðnætti þann 23. júlí 2019 virtist þetta allt saman ætla að smella. Það var smástreymt og hagstæð veðurspá. Einhverjum vikum fyrr var búið að útvega bát frá Björgunarfélagi Vestmannaeyja til að fylgja Sigrúnu eftir. Að morgni mánudagsins 22. júlí komu hins vegar skilaboð frá Björgunarfélaginu um að þeir gætu ekki mannað fylgdarbátinn. Eftir nokkur símtöl tókst þó að útvega annan fylgdarbát og manna hann, og því ljóst að af sundinu gæti orðið. Iðulega hefst sundið frá Eiðinu í Heimaey, sem er á milli Klifsins og Heimakletts. Sund Sigrúnar hófst kl. 01:10 og fyrstu tvo klukkutímana fylgdu höfrungar henni eftir. Selir, mávar, fýlar og lundar sýndu sundi hennar einnig mikinn áhuga. Austurfallið var þó eitthvað að stríða Sigrúnu en í viðtali við RÚV [11] sagði Sigrún: „Mér leið stundum eins og ég væri í þeytivindu. Í þessari þeytivindu þá varð mér svolítið flökurt þannig að ég átti alveg móment þar sem ég var að kasta upp og svona, en ég harkaði bara af mér.“
Sundið tók Sigrúnu fjóra klukkutíma og 31 mínútu sem var töluvert styttri tími en hún hafði gert ráð fyrir. Leiðin sem hún synti var rúmir 11 km en hún tók land um 4 km vestan við Landeyjahöfn. Haraldur Geir Hlöðversson í Vestmannaeyjum fylgdi Sigrúnu á sundinu, auk Jóhannesar Jónssonar og Hörpu Hrundar Berndsen. Björgunarsveitin Dagrenning frá Hvolsvelli tók síðan á móti Sigrúnu þegar hún landaði.
Sigrún var fimmti Íslendingurinn til að synda Eyjasundið en með sundinu vildi hún heiðra minningu Eyjólfs Jónssonar, sem synti Eyjasundið 60 árum fyrr.
Í kjölfar þess að Sigrún Þuríður synti Eyjasundið fyrst kvenna og í tilefni þess að Vestmannaeyjabær fagnaði 100 ára kaupstaðarafmæli sínu árið 2019 ákvað bæjarráð Vestmannaeyja 30. júlí 2019 að láta útbúa sérstakan Eyjasundsbikar þar sem fram koma nöfn þeirra sem þreytt hafa umrætt sund.[12]
Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri Vestmannaeyja afhenti Sigrúnu Þuríði bikarinn í fyrsta sinn þann 1. desember 2019. Auk þess var útbúinn sérstakur upplýsingaskjöldur um Eyjasundið þar sem fram koma nöfn þeirra sem synt hafa þetta sund og verður skjöldurinn settur upp í sundlaug Vestmannaeyja.[13]
"Þegiðu og syntu" - heimildarmynd
breytaÁrið 2020 sýndi RÚV heimildarmyndina "Þegiðu og syntu"[14] sem fjallar um Sigrúnu Þuríði Geirsdóttur og sund hennar yfir Ermarsundið. Í myndinni er ótrúlegu þrekvirki hennar lýst og farið er yfir sögu Sigrúnar, þ.e. hver hún er, af hverju hún fór að stunda sjósund og hvers vegna hún ákvað að synda yfir Ermarsundið.
Myndin inniheldur upptökur frá sjálfu sundinu þar sem fram kemur hlátur, grátur, uppköst, uppgjöf, söngur og gleði. Myndin er 72 mín.
Hægt er að skoða stiklu úr heimildarmyndinni á Youtube.
Heimildarmyndin um afrek Sigrúnar Þuríðar Geirsdóttur sem sýnd var á RÚV ætti að vera skylduhorf fyrir alla. Sund hennar yfir Ermasundið er afrek engu lagi líkt, slík var þrautseigja hennar.“
— Steinar Þór Ólafsson[15].
Merkilegast við þessa heimildarmynd um þessa ótrúlegu konu og hennar sögu var hugarfarið hennar. Hún talaði ítrekað um að hún væri að gera þetta fyrir sjálfa sig, það skipti ekki máli hversu lengi hún væri, heldur að taka þátt, hafa gaman og komast í mark. Hún væri að þessu til þess að sigra sjálfa sig en ekki fyrir verðlaunin. Hógværðin skein í gegn, engin keppni.“
— Inga Birna Ragnarsdóttir[16].
Tilnefningar, viðurkenningar og verðlaun
breyta- Hlaut silfurmerki Sundsambands Íslands fyrir boðsund yfir Ermarsundið árið 2013.[17]
- Hlaut sérstaka viðurkenningu frá Sundsambandi Íslands fyrir boðsund yfir Ermarsundið árið 2014.[18]
- Tilnefnd sem maður ársins árið 2015 hjá Vísi og Bylgjunni.[19]
- Tilnefnd sem maður ársins árið 2015 á Rás 2.[20]
- Valin Mosfellingur ársins 2015.[21]
- Fékk sérstaka viðurkenningu frá Mosfellsbæ í kjöri á íþróttamanni Mosfellsbæjar fyrir árið 2015.[22]
- Hlaut verðlaun fyrir aðdáunarverðasta sund ársins 2015 (most meritorious swim of the year).[23] Verðlaunin voru veitt í mars 2016 af Ermarsundsfélaginu "The Channel Swimming & Piloting Federation"[24] og eru verðlaunin kennd við Gertrude Ederle(en) fyrstu konunnar til að synda yfir Ermarsundið.
- Fékk Drangeyjarsundsbikarinn og viðurkenningarskjal fyrir Drangeyjarsundið árið 2017 frá Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands. Nafn Sigrúnar var skráð á bikarinn sem varðveittur er hjá ÍSÍ.[25]
- Fékk Eyjasundsbikarinn og viðurkenningarskjal frá bæjarstjóra Vestmannaeyja fyrir Eyjasundið árið 2019. Nafn Sigrúnar var skráð á bikarinn sem varðveittur er hjá Vestmannaeyjabæ en þetta var í fyrsta skipti sem Eyjasundsbikarinn var afhentur.[26]
- Hlaut öðru sinni silfurmerki Sundsambands Íslands fyrir boðsund yfir Ermarsundið árið 2019. [27]
- Forseti Íslands sæmdi hana riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu þann 17. júní 2020 fyrir afrek á sviði sjósunds. [2]
Tilvísanir
breyta- ↑ „Synti frá Eyjum til lands og á leið í Ermasundið“. K100. Sótt 12. mars 2020.
- ↑ 2,0 2,1 „Hin íslenska fálkaorða“. Forseti.is. Afrit af upprunalegu geymt þann 17. júní 2020. Sótt 17. júní 2020.
- ↑ „Sækýrnar syntu yfir Ermarsundið“. www.mbl.is. Sótt 3. desember 2019.
- ↑ „Channel Swimming & Piloting Federation - CS&PF Awards 2013“. Channel Swimming and Piloting Federation. Sótt 29. júlí 2019.
- ↑ „Yfirliðið synti yfir Ermarsundið - Vísir“. visir.is. Sótt 29. júlí 2019.
- ↑ „Ældi á hálftíma fresti yfir Ermarsundið“. RÚV. 28. júní 2020. Sótt 15. janúar 2021.
- ↑ Ball, Mike. „Umsögn fyrir heimildarmyndina "Þegiðu og syntu"“. IMDb. Sótt 30. nóvember 2020.
- ↑ „Marglyttunum tókst ætlunarverkið“. www.mbl.is. Sótt 11. september 2019.
- ↑ „Synda yfir Ermarsundið til að vekja athygli á áhrifum plastmengunar á lífríki sjávar - Vísir“. visir.is. Sótt 10. september 2019.
- ↑ Magasín, H. (13. október 2019). „Viðtalið: Marglytturnar“. H Magasín (bandarísk enska). Sótt 12. ágúst 2020.
- ↑ RÚV (júlí 2019). „Sigrún Geirsdóttir synti Eyjasund fyrst kvenna“.
- ↑ Eyjafréttir (júlí 2019). „Útbúa á sérstakan Eyjasundsbikar“.
- ↑ „Eyjasundsbikarinn afhentur í fyrsta skipti“. sunnlenska.is. 4. desember 2019. Sótt 12. ágúst 2020.
- ↑ IMDB, Documentary (28. júní 2020), Þegiðu og syntu, ("Shut-up and swim"), sótt 28. júní 2020
- ↑ „Þegiðu og syntu“. www.linkedin.com. Sótt 3. desember 2020.
- ↑ „Vertu þú sjálfur, gerðu það sem þú vilt!“. www.vf.is. Sótt 30. nóvember 2020.
- ↑ „Sækýrnar heiðraðar“. www.mbl.is. Sótt 12. ágúst 2020.
- ↑ „Viðurkenningar eftir ÍM25“. www.sundsamband.is. Sótt 12. ágúst 2020.
- ↑ „Þau eru tilnefnd sem Maður ársins 2015 - Vísir“. visir.is. Sótt 29. júlí 2019.
- ↑ „Kosning: Maður ársins 2015“. RÚV (enska). 28. desember 2015. Sótt 29. júlí 2019.
- ↑ „Sigrún Mosfellingur ársins 2015“. www.mbl.is. Sótt 29. júlí 2019.
- ↑ „Íþróttamaður og íþróttakona Mosfellsbæjar 2015 – UMSK“. Sótt 11. mars 2020.
- ↑ „Channel Swimming & Piloting Federation - CS&PF Awards 2015“. Channel Swimming and Piloting Federation. Sótt 29. júlí 2019.
- ↑ „Sigrún verðlaunuð fyrir sundið yfir Ermarsund - Vísir“. visir.is. Sótt 29. júlí 2019.
- ↑ „Viðurkenningar vegna Drangeyjarsunds“. www.isi.is. Sótt 3. desember 2019.
- ↑ „Eyjasundsbikarinn afhentur í fyrsta skipti | sunnlenska.is“. 4. desember 2019. Sótt 4. desember 2019.
- ↑ „Sundþing 2023“. www.sundsamband.is. Sótt 29. apríl 2023.