Sendisveinn
Sendisveinn var starf við flutning á vöru eða pósti og skjölum í fyrirtækjum sem sendu vörur til viðskiptavina eða þurftu fólk til annarra viðvika. Sendisveinar unnu meðal annars hjá matvöruverslunum, bakaríum og þvottahúsum. Sendisveinar voru oft drengir eða ungir karlmenn og oft var sendisveinastarf fyrsta starf þeirra á vinnumarkaði eða meðfram skóla. Sendisveinar ferðuðust gjarnan um á reiðhjólum sem voru útbúin til að flytja varning. Sendisveinastarfið með hinu hefðbundna sendisveinareiðhjóli hvarf með breyttum þjónustu- og atvinnuháttum og aukinni bifreiðaeign. Síðustu ár hefur þó ýmiss konar heimsending færst í vöxt og ný störf skapast við sendingar.
Sendisveinar á Íslandi
breytaSkömmu eftir fyrri heimsstyrjöldina fara sendisveinar á sendisveinahjólum að sjást á götum Reykjavíkur. Stærsti vinnuveitandi sendisveina var Mjólkursamsalan. Sendisveinahjólin voru í eigu fyrirtækja og voru yfirleitt svört og með litlu framhjóli og stórum bögglabera að framan og hjólin voru merkt með auglýsingu fyrir fyrirtækið sem átti hjólið. Mjólkursamsalan lét smíða sérstök þríhjól með stórum kassa og tveimur hjólum að framan. Sendisveinar stofnuðu félög til að gæta hagsmuna sinna. Sendisveinafélagið Merkúr var stofnað árið 1913. Árið 1933 var stofnað annað félag Sendisveinafélag Reykjavíkur (SFR) en stjórnmálaátök urðu til þess að félögin urðu tvö og gaf Merkúr út fréttablaðið Elding og SFR út fréttablaðið Blossi. Einnig varð til Samfylkingarlið sendisveina sem klofningshópur út úr SFR og gaf sá hópur út fréttablaðið Leiftur. Sendisveinafélögin lögðust af kringum og fyrir 1940.[1]