Samtök frjálslyndra og vinstrimanna

Samtök frjálslyndra og vinstrimanna var jafnaðarmannflokkur sem klofnaði úr Alþýðubandalaginu árið 1969. Í alþingiskosningunum 1971 fékk flokkurinn 5 menn kjörna og árið 1974 2 menn kjörna.[1] Samtökin buðu síðast fram við alþingiskosningarnar 1978, en fengu engan mann kjörinn og voru þau lögð niður fljótlega eftir það.

Það var einkum Hannibal Valdimarsson (sem var formaður Alþýðubandalagsins 1956-1968) sem stóð fyrir stofnun hins nýja flokks ásamt Birni Jónssyni. Voru þeir algjörlega mótfallnir því að Alþýðubandalagið yrði gert að formlegum flokki, undir merkjum sósíalisma, í stað kosningabandalags eins og verið hafði. Samtökin voru stofnuð haustið 1969 og voru Hannibal Valdimarsson og Bjarni Guðnason kjörnir formaður og varaformaður.

Kjörnir þingmenn Samtaka frjálslyndra og vinstri manna í kosningunum 1971, voru Hannibal Valdimarsson, Björn Jónsson, Magnús Torfi Ólafsson, Bjarni Guðnason og Karvel Pálmason. Samtökin voru aðili að ríkisstjórn Ólafs Jóhannessonar árið 1971-1974, ásamt Framsóknarflokki og Alþýðubandalagi. Ráðherrar Samtakanna voru Hannibal Valdimarsson (1971-1973), Björn Jónsson (1973-1974) og Magnús Torfi Ólafsson (1971-1974).

Bjarni Guðnason hætti stuðningi við ríkisstjórnina árið 1973 og í maí 1974 sagði Björn Jónsson sig úr ríkisstjórninni og hætti stuðningi við hana ásamt Hannibal Valdimarssyni og Karveli Pálmasyni.

Kjörnir þingmenn Samtaka frjálslyndra og vinstri manna í kosningunum 1974, voru Magnús Torfi Ólafsson, sem þá var orðinn formaður flokksins og Karvel Pálmason og voru varamenn þeirra þeir Ólafur Ragnar Grímsson og Jón Baldvin Hannibansson.

Varaþingmenn Samtakanna kjörtímabilið 1974-1978, voru Ólafur Ragnar Grímsson og Jón Baldvin Hannibalsson eins og fyrr sagði. 1974 til 1976 var Ólafur Ragnar Grímsson formaður framkvæmdastjórnar Samtaka frjálslyndra og vinstrimanna, sem þá voru í reynd nánast liðin undir lok. Hann bauð sig fram í Austurlandskjördæmi á vegum samtakanna í Alþingiskosningunum 1974 en náði ekki kjöri, en kom tvisvar inn á Alþingi sem varaþingmaður, 1974 og 1975. Jón Baldvin Hannibalsson kom einu sinni inn á Alþingi sem varaþingmaður fyrir Samtökin árið 1975

Tilvísanir

breyta
  1. „Hagstofan“.
   Þessi stjórnmálagrein sem tengist Íslandi er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.