Samtök Ameríkuríkja
Samtök Ameríkuríkja (enska: Organization of American States; spænska: Organización de los Estados Americanos; franska: Organisation des États Américains; portúgalska: Organização dos Estados Americanos; skammstafað: OAS eða OEA) eru alþjóðasamtök 35 Ameríkuríkja með höfuðstöðvar í Washingtonborg í Bandaríkjunum. Samtökin voru stofnuð árið 1948 upp úr tveimur eldri samtökum. Markmið samtakanna er að efla samvinnu og samstöðu meðal Ameríkuríkja og standa vörð um sjálfstæði þeirra og landamæri gagnvart utanaðkomandi ógn. Öll þau 35 Ameríkuríki sem eru sjálfstæð eru aðilar að samtökunum. Þó hefur Kúba ekki haft rétt til virkrar þátttöku í samtökunum síðan 1962 eftir að samtökin ályktuðu að frumkvæði Bandaríkjanna að marx-lenínismi samræmdist ekki markmiðum samtakanna og að aðildarríki með ríkisstjórn sem aðhyllist þá hugmyndafræði mættu ekki taka þátt í starfi samtakanna.