Sun Yat-sen
- Þetta er kínverskt nafn: kenni- eða fjölskyldunafnið er Sun, eiginnafnið er Yat-sen.
Sun Yat-sen (12. nóvember 1866 – 12. mars 1925) var kínverskur læknir, byltingarmaður og stjórnmálaleiðtogi. Hann er gjarnan álitinn einn af stofnfeðrum kínverska lýðveldisins og er í dag virtur bæði í Lýðveldinu Kína á Taívan, þar sem hann er kallaður „faðir þjóðarinnar“, og í Alþýðulýðveldinu Kína, þar sem hann er talinn „forveri lýðræðisbyltingarinnar“. Sun lék lykilhlutverk í því að steypa Tjingveldinu af stóli í Xinhai-byltingunni árið 1911. Eftir byltinguna var hann útnefndur bráðabirgðaforseti Lýðveldisins Kína við stofnun þess árið 1912. Síðar stofnaði hann og gerðist fyrsti leiðtogi Þjóðernisflokks Kína.[1] Sun varð sameiningartákn í Kína eftir keisaratímann og er einn fárra kínverskra stjórnmálamanna sem eru enn dáðir beggja megin við Taívansund.
Sun Yat-sen | |
---|---|
孫中山 | |
Bráðabirgðaforseti Lýðveldisins Kína | |
Í embætti 1. janúar 1912 – 10. mars 1912 | |
Varaforseti | Li Yuanhong |
Forveri | Embætti stofnað |
Eftirmaður | Yuan Shikai |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 12. nóvember 1866 Cuiheng, Zhongshan, Tjingveldinu |
Látinn | 12. mars 1925 (58 ára) Beijing, Lýðveldinu Kína |
Stjórnmálaflokkur | Kuomintang |
Maki | Lu Muzhen (1885–1915); Kaoru Otsuki (1903–1906); Soong Ching-ling (1915–1925) |
Börn | Sun Fo, Sun Yan, Sun Wan, Fumiko Miyagawa |
Starf | Læknir, stjórnmálamaður |
Undirskrift |
Þótt Sun sé í dag talinn einn ástsælasti leiðtogi Kínverja einkenndist stjórnmálaferill hans af stöðugri baráttu og fjölmörgum útlegðum. Eftir að byltingin heppnaðist sagði Sun fljótt af sér sem forseti vegna þrýstings frá herforingjastéttinni. Hann leiddi síðar byltingarstjórnir sem börðust gegn stríðsherrum sem höfðu lagt undir sig mikinn hluta Kína. Sun entist ekki aldur til að sjá flokk sinn sameina Kína undir einni stjórn á ný í norðurleiðangrinum sem Chiang Kai-shek leiddi. Flokkur Suns, sem hafði á hans dögum verið í bandalagi við kínverska kommúnista, klofnaði í tvennt eftir dauða hans.
Meginarfleifð Suns til kínverskra stjórnmála felst í stjórnmálastefnunni sem hann þróaði og kallaði „þrjú lögmál fólksins“: Þjóðernishyggju (þ.e.a.s. sjálfstæði frá yfirráðum heimsvaldssinna), lýðræði[2] og afkomu fólks (verslunarfrelsi og nútímaskattkerfi[3]).[4][5]
Tilvísanir
breyta- ↑ Derek Benjamin Heater. [1987] (1987). Our world this century. Oxford University Press.
- ↑ „Three Principles of the People“. Encyclopedia Britannica. Sótt 9. október 2017.
- ↑ Trescott, Paul B. (2007). Jingji Xue: The History of the Introduction of Western Economic Ideas Into China, 1850–1950. Chinese University Press. bls. 46–48. „'The teachings of your single-taxer, Henry George, will be the basis of our program of reform.'“
- ↑ Schoppa, Keith R. [2000] (2000). The Columbia guide to modern Chinese history. Columbia Pniversity Press. p 282.
- ↑ Trescott, Paul B. (1886). Protection or Free Trade: An examination of the tariff question, with especial regard to the interests of labor.
Fyrirrennari: Puyi (sem keisari Kína) |
|
Eftirmaður: Yuan Shikai |