Söngvírinn
Söngvírinn (franska: Le Fil qui chante) eftir Morris (Maurice de Bevere) og René Goscinny er 46. bókin í bókaflokknum um Lukku Láka. Bókin kom út árið 1977, en sagan sem hún hefur að geyma birtist fyrst í fréttablaðinu Paris Match sama ár. Söngvírinn er síðasta Lukku Láka bókin sem Rene Goscinny samdi, en hann lést stuttu áður en bókin kom út.
Söguþráður
breytaBandaríkjaforseti vill ljúka við lagningu ritsímalínu milli austur- og vesturstrandar Bandaríkjanna, þ.e. frá Omaha í Nebraska í austri til Carson City í Nevada í vestri. Tveir vinnuflokkar eru fengnir til verksins, annar undir stjórn Togga Tóls sem skal leggja línuna frá vestri og hinn undir stjórn Malla Magnara frá austri. Síblautur forstjóri símafélagsins tilkynnir að sá flokkur sem fyrri verður til að leggja línuna til Salt Lake City í Utah muni hljóta 100.000 dollara verðlaun. Lukku Láki ræðst til starfa sem símritari hjá Togga Tól og hópurinn leggur af stað frá Carson City. Þeir vita hins vegar ekki að óheiðarlegur verkstjóri hjá Malla Magnara, Beggi Brallari, hefur ráðið svikara til að spilla fyrir verkefni Togga Tóls til þess að tryggja að Malli Magnari hreppi verðlaunin. Var þó verkefnið ærið krefjandi fyrir þar sem leggja þarf símalínuna yfir land indíána og ýmsa náttúrulega farartálma eins og stórfljót, fjallgarða og salteyðimörkina miklu.
Fróðleiksmolar
breyta- Söngvírinn fjallar um lagningu ritsímans milli austur- og vesturstrandar Bandaríkjanna sem lokið var við árið 1861. Bókin er ein af þeim "sögulegustu" í bókaflokknum og Lukku Láki hittir margar raunverulegar persónur í bókinni sem tengdust lagningu ritsímans: Abraham Lincoln (1809-1865) Bandaríkjaforseta (Línkollur í sögunni), mormónaleiðtogann Brigham Young (1801-1877) (Brigghamur Jungi í sögunni), Hiram Sibley (1807-1888) fyrsta forseta Western Union Telegraph Company (Síblautur símaforstjóri í sögunni), frumkvöðlana James Gamble og Edward Creighton (Toggi Tól og Malli Magnari í sögunni), Washakie (ca. 1810-1900) höfðingja Shoshone indíána (Vassakí í sögunni) og Stephen J. Field (1816-1899), forseta Hæstaréttar Kaliforníu (Stefán Fýldi í sögunni), sem sendi bandaríkjaforseta heillaóskir í tilefni verklokanna með símskeyti þann 24. október 1861.
- Söngvírinn var síðasta Lukku Láka bókin sem René Goscinny samdi, en hann lést sviplega úr hjartaáfalli stuttu áður en bókin kom út, einungis 51 árs að aldri.
- Póstvagnsekillinn í byrjun sögunnar er Hank Bully sem var í aðalhlutverki í eldri Lukku Láka bók, Póstvagninum.
- Beggi Brallari er skopstæling á bandaríska kvikmyndaleikaranum Brian Donlevy (1901-1972).
- Sagan birtist fyrst í fréttablaðinu Paris Match sem er til merkis um hversu vinsælar Lukku Láka sögurnar voru orðnar. Umrætt fréttablað var skopstælt sem æsifréttablað í Tinnabókinni Vandræði Vaílu Veinólínó og hét þar "París-Flass".
Íslensk útgáfa
breytaSöngvírinn var gefin út af Fjölva árið 1979 í íslenskri þýðingu Þorsteins Thorarensen. Þetta er 21. bókin í íslensku ritröðinni.