Sæmundaredda
Konungsbók eddukvæða - GKS 2365 4to (Codex Regius), sem einnig þekkist undir nafninu Sæmundaredda, er eitt af krúnudjásnum íslenskra skinnhandrita. Það er talið hafa verið ritað einhvern tímann á bilinu 1270-1280. Konungsbók eddukvæða hefur að geyma eldfornan kveðskap sem venja er að skipta í tvo flokka, goðakvæði og hetjukvæði. Hvað „edda“ þýðir er óvíst, en það tengist skáldskaparfræði (sjá Snorra-Edda). Brynjólfur Sveinsson gaf Friðriki 3. Danakonungi handritið árið 1643 og var það geymt á Konunglega bókasafninu í Kaupmannahöfn. Konungsbókin var afhent Íslendingum 21. apríl 1971 ásamt Flateyjarbók og er nú geymd á Stofnun Árna Magnússonar.
Ýmis heiti handritsins
breytaHandritið ber ýmis heiti, auk Konungsbókar eddukvæða má nefna; Ljóðaedda, Edda Sæmundar fróða og Sæmundaredda. Ritið var áður fyrr kennt við Sæmund fróða í Odda en menn töldu fyrst að hann hefði tekið það saman. Latneska heitið Codex Regius er gjarnan notað yfir handritið í erlendum málum, það heitir svo af því að Brynjólfur biskup Sveinsson gaf Friðriki Danakonungi III það til eignar. Konungur var mikill bókamaður og stofnaði Kongungsbókhlöðuna í Kaupmannahöfn, þar sem Konungsbók var varðveitt uns henni var skilað til Íslendinga árið 1971. Codex þýðir bók og regius er leitt af orðinu rex sem þýðir konungur. Því hefur bókin verið nefnd Konungsbók á íslensku.
Eddukvæði
breytaEddukvæðum er skipt í tvo flokka, goðakvæði og hetjukvæði. Fornyrðislag og ljóðaháttur eru einkennandi braghættir. Ekki eru öll eddukvæði varðveitt í Sæmundareddu. Þó ritið sé á íslensku er það flestum torskiljanlegt nú á dögum, Snorra-Edda hefur gagnast mikið við að skilja kvæðin.
Goðakvæði
breytaGoðakvæði eru flest eða 40 talsins. Þau segja af norrænu goðunum eins og nafnið gefur til kynna. Þar eru talin helstu goðmögn, jötnar og skepnur. Einnig er greint frá hugmyndum manna um upphaf heimsins, framgöngu hans og endalok. Kvæðin eru þó ekki öll alvarlegs eðlis, sum eru full af gríni og glensi, eins og Þrymskviða. Til goðakvæða heyra þekktustu fornkvæði Íslendinga, Hávamál og Völuspá.
Hetjukvæði
breytaNæst flest eru hetjukvæðin, þau eru sögur frá tímum þjóðflutninganna miklu. Um er að ræða harmsögur af grimmilegum örlögum hetja sem eru flestar af miklum ættum. Ein af þessum hetjum er Sigurður Fáfnisbani.