Romain Rolland
Romain Rolland (29. janúar 1866 – 30. desember 1944) var franskur rithöfundur, leikskáld og listsagnfræðingur sem hlaut Nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 1915.
Ævi og störf
breytaRomain Rolland var fæddur inn í stönduga sveitafjölskyldu sem gerði honum kleift að mennta sig án mikilla áhyggja af fjárhagnum. Hann hóf heimspekinám en útskrifaðist úr sagnfræði í háskóla áður en hann hélt til Rómarborgar að drekka í sig listir og menningu. Eftir komuna aftur til Frakklands lauk hann við doktorsritgerð á sviði tónlistarsögu og varð síðar fyrsti kennarinn á því sviði við Sorbonne-háskóla.
Í fræðiskrifum sínum og leikverkum kallaði Rolland eftir því að leikhúsið yrði "fært aftur til fólksins" með nýrri og lýðræðislegri nálgunum í framsetningu og efnisvali. Friðarstefnan var áberandi stef í verkum Rolland og var hann einn fárra franskra rithöfunda sem stigu með afgerandi hætti fram sem friðarsinnar í aðdraganda fyrri heimsstyrjaldarinnar, sem hann varði í sjálfskipaðri útlegð í Sviss. Sú ákvörðun átti vafalítið stóran þátt í að Rolland hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels árið 1915.
Kunnasta verk Rolland var sagnabálkurinn um Jóhann Kristófer (franska: Jean-Christophe) sem kom út í tíu bindum á árunum 1904-12. Hún lýsir ferli þýsks tónlistarmanns af belgískum ættum frá vöggu til grafar. Í sögunni lýsir höfundurinn rækilega viðhorfum sínum til listar og listsköpunar. Verkið kom út í íslenskri þýðingu Þórarins Björnssonar og Sigfúsar Daðasonar.
Árið 1923 hófst náinn vinskapur Rolland og austurríska sálfræðingsins Sigmund Freud. Þeir skiptust reglulega á bréfum meðan báðir lifðu og höfðu hugmyndir Rolland talsverð áhrif á kenningar hins síðarnefnda.
Annar náinn vinur Rolland var rithöfundurinn Stefan Zweig sem dáði Frakkann mjög og fór fögrum orðum um hann í bók sinni Veröld sem var.
Romain Rolland gerðist á efri árum mikill aðdáandi Sovétstjórnarinnar og var alla tíð gagnrýnislaus á stjórnarfar Stalíns. Hann lést í árslok 1944.
Tenglar
breyta- Natan Ausubel (1. maí 1945). „Romain Rolland - að leiðarlokum“. Tímarit Máls og menningar. bls. 76–81.