Roger Leloup
Roger Leloup (f. 17. nóvember 1933), er belgískur teiknari og myndasöguhöfundur, þekktastur fyrir að hafa skapað Yoko Tsuno.
Ferill
breytaRoger Leloup fæddist í Verviers í Belgíu árið 1933. Hann lærði teikningu, en hafði jafnframt frá unga aldri brennandi áhuga á flugvélum og járnbrautarlestum. Kynni hans af myndasögugerð hófust fyrir tilviljun, þegar nágranni hans, Jacques Martin sagðist vera á höttunum eftir teiknara til að lita myndasögur sínar um ævintýri rómverska unglingspiltsins Alexar. Leloup starfaði um árabil fyrir Martin sem kom honum í kynni við listamanninn Hergé, föður Tinnabókanna. Hergé fól Leloup að sjá um bakgrunnsteikningar í sumum bóka sinna, þar á meðal í Leynivopninu og Flugrás 714 til Sydney.
Meðan á þessari vinnu fyrir aðra listamenn stóð þróaði Leloup sína eigin sögupersónu, Yoko Tsuno. Áramótin 1969-70 sneri hann sér alfarið að ritun þessa nýja sagnaflokks, þar sem mikil áhersla var lögð á tækni og vísindaskáldskap. 29. bókin í myndasagnaflokknum um Yoko Tsuno kom út árið 2019, en einnig hefur Leloup samið tvær skáldsögur um þessa sögupersónu sína.