Ricardískur sósíalismi

Ríkardískir sósíalistar voru hópur breskra hugsuða og hagfræðinga á fyrri hluta 19. aldar sem sameinuðu kenningar David Ricardo við sósíalísk sjónarmið. Þeir gagnrýndu kapítalískt hagkerfi út frá vinnugildiskenningu Ricardo og lögðu til margslungnar félagslegar umbætur sem þeir trúðu að myndi tryggja réttláta dreifingu auðs.[1]

Bakgrunnur  

breyta

Á fyrstu áratugum 19. aldar upplifði Bretland miklar samfélagslegar breytingar í kjölfar iðnbyltingarinnar. Vaxandi ójöfnuður og erfiðar aðstæður verkafólks leiddu til aukinnar gagnrýni á ríkjandi efnahagskerfi. Ríkardískir sósíalistar sóttu allir innblástur í kenningar David Ricardo, sérstaklega vinnugildiskenningu hans, sem segir að verðmæti vöru ráðist nær eingöngu af vinnunni sem fer í framleiðslu hennar, en hver þeirra um sig hafði sína eigin skoðun á hvernig best sé að passa upp á réttláta dreifingu tekna.[2]

Kenningar og hugmyndir

breyta

Ríkardískir sósíalistar byggðu á vinnugildiskenningu Ricardo til að sýna fram á að verðmæti vöru væri skapað af vinnu verkamanna, ekki vegna fjármagns eða lands. Þeir héldu því fram að hagnaður og renta væru óverðskuldaðar tekjur sem væru teknar frá verkamönnum, og lagt á þá í formi verðlags, leiðandi til ójafnrar skiptingu auðs.[1]

Vinnugildiskenningin var þannig notuð til að réttlæta þá skoðun að arður, sem fjármagnseigendur taka til sín, sé óverðskuldaður og tilheyri í raun verkamönnunum sjálfum. Þessi nálgun veitti ríkardískum sósíalistum vopn gegn kapítalisma sem byggði á gróðasókn fjármagns fremur en á sanngirni í verðmætasköpun.[3]

Þeir gagnrýndu einkaeign á framleiðslutækjum og sögðu hana leiða til arðráns og ójöfnuðar. Lausnir þeirra fólust meðal annars í stofnun samvinnufélaga, þar sem verkamenn myndu eiga saman framleiðsluþættina, og stjórna framleiðslu sjálfir til að tryggja sanngjarna dreifingu auðs.[4]

Þessi hugmynd um samvinnufélög var ekki aðeins leið til að tryggja réttláta tekjuskiptingu heldur einnig til að valdefla verkafólk og bæta þeirra aðstæður. Með því að hafa beina stjórn á framleiðslu væri minni hætta á ójafnri skiptingu tekna þar sem rentan sem áður hafði farið til fjármagnseigenda yrði í staðinn hluti af tekjum verkamanna.[4]

Ríkardískir sósíalistar lögðu þannig grundvöllinn að mörgum meginhugmyndum sósíalískra stefna, sérstaklega hvað varðar samvinnu og jafnræði innan hagkerfisins. Þeirra áheyrsur á sanngirni í verðmætasköpun hafa haft mikil áhrif á hugmyndir um framleiðslusamvinnu og pólitíska baráttu fyrir réttlæti í efnahagslífi, sem síðar varð mikilvægur þáttur í verkalýðsbaráttu víða um Evrópu. [5]

Ríkardísku sósíalistarnir áttu margt sameiginlegt með Marx og hans hugsanahætti, og hafði Marx þetta að segja um þá sem hóp: “But these Socialist and Communist writings contain also a critical element. They attack every principle of existing society. Hence, they are full of the most valuable materials for the enlightenment of the working class.”[6]

Helstu fulltrúar

breyta

Thomas Hodgskin

breyta

Thomas Hodgskin (1787–1869) fæddist í Chatham á Englandi og gekk ungur til liðs við sjóherinn. Eftir að hafa yfirgefið herinn árið 1812 varð hann þekktur sem blaðamaður og rithöfundur. Í ritum sínum, þar á meðal ''Popular Political Economy'' (1827), gagnrýndi hann kapítalísk kerfi fyrir að leyfa eigendum fjármagns að hagnast á kostnað verkamanna. Hann gerði greinarmun á náttúrulegu verði sem hann skilgreindi sem raunvirði orkunnar og tímans sem fór í framleiðsluna, og samfélagslegu verði, sem er það verð sem varan sé seld á, þar innifalin öll renta og hagnaður. Honum fannst skýrt mál að söluverð ætti að vera í takt við náttúrulegt verð og að verkamennirnir ættu að fá allan, eða svo gott sem allan peninginn í sínar hendur fyrir vinnuna.[7]

Marx lýsti mikilli virðingu fyrir hugmyndum Hodgskin og taldi þær jafnvel snjallari og sannari en margra annarra gagnrýnenda kapítalismans. Marx samræmdi sig sérstaklega með þeirri skoðun Hodgskins að framleiðsla aukist samhliða fólksfjölgun og verkaskiptingu, og að eftir að verkaskipting hefur átt sér stað á vinnustað sé ógerlegt að ákvarða framlag hvers starfsmanns til framleiðslunnar. Þess vegna taldi Marx að öll verðmæti ættu að vera í sameign. Hann samþykkti einnig þá skoðun Hodgskin að í kapítalísku kerfi fari verðmæti fyrst til kapítalistans en ekki til landeigandans, sem var annars algengur milliliður á þeim tíma.[8]

Þrátt fyrir þessa samstöðu var Marx ósammála Hodgskin um réttmæti þess að kapítalistinn ætti rétt á einhverjum launum. Hodgskin taldi að kapítalistinn mætti hljóta laun, þó þau væru jafn lág og laun starfsmanna. Marx á hinn bóginn hélt því fram að kapítalistinn ætti ekki skilið nein laun, þar sem hann lagði ekkert af mörkum til raunverulegrar framleiðslu.[8]

John Francis Bray

breyta

John Francis Bray (1809–1897) fæddist í Washington, D.C., en fluttist til Englands í æsku. Hann starfaði sem prentari í Leeds og tók virkan þátt í verkalýðshreyfingunni. Í bók sinni ''Labour's Wrongs and Labour's Remedy'' (1839) setti hann fram hugmyndir um samvinnufélög og lýðræðislegt hagkerfi þar sem verkamenn stjórnuðu framleiðslunni og nutu ávaxta vinnu sinnar. Hjá honum var sameign lykilatriði, því þá væri minni hvati og geta hjá kapítalistum og landeigendum til að skapa rentu og hagnað.[9]

Marx hélt því fram að Bray hefði skrifað margt betur en Proudhon, en að uppástungur hans skorti dýpt, og voru því “bersýnilegt bull”.[10]

Piercy Ravenstone

breyta

Piercy Ravenstone var breskur hagfræðingur og einn af fyrstu talsmönnum kenningarinnar um umframvirði, eins og E. R. A. Seligman lýsir honum í verki sínu frá 1903, On Some Neglected British Economists. Seligman kallaði Ravenstone „fyrsta fulltrúa umframvirðiskenningarinnar“ (Seligman, 1903).[11]

Ravenstone var sérstakur á meðal ríkardískra sósíalista þótt hann, líkt og aðrir úr þeim hópi, trúði því að verkamenn ættu að njóta að fullu verðmæta eigin vinnu. Hins vegar hafði hann aðrar ástæður fyrir þessari trú en margir samtíðarmenn hans. Flestir ríkardískir sósíalistar byggðu trú sína á nytjastefnu með það sem helsta markmið að auka hamingju sem flestra, en Ravenstone leit á þetta sem siðferðilega skyldu. Hann taldi að fólk hefði náttúrulegan rétt til eigin vinnu, á meðan réttur til að hagnast á eignum væri tilbúinn réttur, skapaður af þeim sem meira eiga.[12]

Ravenstone hafði einnig áhrif á Karl Marx með hugmyndum sínum bæði bein áhrif og óbein áhrif í gegnum hina ríkardísku sósíalistanna. Marx samsvaraði sig með sjónarmiði Ravenstone um að ef vinnuafl skapaði eingöngu nóg til að framfleyta sér, þá væru hvergi til eignir í heiminum. Hann tók einnig undir þá skoðun að til þess að fjármagn gæti þjónað samfélaginu yrði fyrst að vera til staðar þróuð verkaskipting (Miles, bls. 6–7, 23).[13][10]

William Thompson

breyta

William Thompson (1775–1833) var írskur landeigandi, hagfræðingur og umbótasinni, þekktur fyrir að boða sósíalisma og samvinnu í framleiðslu ásamt því að styðja réttindi kvenna. Hann fæddist í auðugri fjölskyldu í Cork á Írlandi en gagnrýndi síðar þá óréttlátu dreifingu auðs sem fylgdi kapítalismanum og kallaði sig „meðlim hinnar iðjulausu stétta.“ [14]

Thompson var undir áhrifum nytjastefnu Jeremy Bentham og barðist fyrir "sem mestri hamingju fyrir sem flesta." Hann lagði til umbætur í menntamálum í Cork, með áherslu á hagnýta og jafna menntun. Eftir að hafa kynnst Robert Owen þróaði hann hugmyndir sínar um samvinnufélög.[14] Árið 1824 gaf Thompson út An Inquiry into the Principles of the Distribution of Wealth þar sem hann gagnrýndi kapítalisma fyrir að skapa ójöfnuð og lagði til samvinnufélög þar sem verkamenn myndu eiga og stjórna framleiðslu til að tryggja réttláta skiptingu auðs . Hann vildi þó ekki að kapítalistar fengu ekkert í hendurnar fyrir að eiga og stjórna fjármagninu, heldur vildi hann tilhluta þeim þann hluta hagnaðarins sem nam afskriftum fjármagnsstofnsins, og laun á við bestu starfsmennina (Miles, bls. 25).[15]

Áhrif og arfleifð

breyta

Þrátt fyrir að ríkardísku sósíalistarnir hafi ekki náð gríðarlegum pólitískum áhrifum á sínum tíma, hafa hugmyndir þeirra haft mikil áhrif á síðari hugsuði. Karl Marx og Friedrich Engels tóku upp vinnugildiskenninguna og þróuðu hana í sinni gagnrýni á kapítalískt hagkerfi. Ríkardísku sósíalistarnir lögðu þannig grunn að hagfræðilegri gagnrýni á kapítalisma sem byggði á rökfræði fremur en siðferðilegum álitamálum.[16]

Margir telja líklegt að hluti ástæðurnar fyrir því að ríkardísk hagfræði hafi ekki náð miklum vinsældum meðal almennings síns tíma sé vegna neikvæðninnar sem ríkardísku sósíalistarnir héldu fram. Þeir bentu á hina sorglegu hluta klassískrar hagfræði, og á að lítið yrði hægt að betrumbæta þá innan kapítalismans. Hægt er að gera ráð fyrir að þessi neikvæðni hafi einnig haft slæm áhrif á vinsældir ríkardísku sósíalistanna og þeirra speki.[17]

Þrátt fyrir það hafa hugmyndir ríkardísku sósíalistanna um samvinnu og sanngjarna skiptingu auðs haft varanleg áhrif á verkalýðshreyfingar og þróun sósíalískra hugmynda um efnahagslíf.

  1. 1,0 1,1 Alessandro Roncaglia (2005). The Wealth of Ideas; A History of Economic Thought. Cambridge Universiy Press. bls. 208. ISBN 978-0-511-11348-2.
  2. Warren J. Samuels; Jeff E. Biddle; John B. Davis (2003). A Companion to the History of Economic Thought. Blackwell Publishing. bls. 184-185.
  3. Warren J. Samuels; Jeff E. Biddle; John B. Davis (2003). A Companion to the History of Economic Thought. Blackwell Publishing Ltd. bls. 184. ISBN 0-631-22573-0.
  4. 4,0 4,1 Alessandro Roncaglia (2005). The Wealth of Ideas; A History of Economic Thought. Cambridge University Press. bls. 221-224.
  5. E. K. Hunt (1980). The Relation of the Ricardian Socialists to Ricardo and Marx. Science & Society, Vol. 44, No. 2. bls. 177-179.
  6. John Jeffries Miles (1970). Piercy Ravenstone: A Study in Nineteenth Century Radical Economics. Graduate Faculty of the Virginia Polytechnic Institute and State University. bls. 21.
  7. Alessandro Roncaglia (2005). The Wealth of Ideas; A History of Economic thought. Cambridge University Press. bls. 223-224. ISBN 978-0-511-11348-2.
  8. 8,0 8,1 John Jeffries Miles (1970). Piercy Ravenstone: A Study in Nineteenth Century Radical Economics. Graduate Faculty of the Virginia Polytechnic Institute and State University. bls. 22.
  9. Alessandro Roncaglia (2005). The Wealth of Ideas; A History of Economic Thought. Cambridge University Press. bls. 224. ISBN 978-0-511-11348-2.
  10. 10,0 10,1 John Jeffries Miles (1970). Piercy Ravenstone: A Study in Nineteenth Century Radical Economics. Graduate Faculty of theVirginia Polytechnic Institute and State University. bls. 23.
  11. Edwin R. A. Seligman (1903). On Some Neglected British Economists. The Economic Journal, Vol. 13, No. 51. bls. 335-363.
  12. John Jeffries Miles (1970). Piercy Ravenstone: A Study in Nineteenth Century Radical Economics. Graduate Faculty of theVirginia Polytechnic Institute and State University. bls. 16.
  13. John Jeffries Miles (1970). Piercy Ravenstone:A Study in Nineteenth Century Radical Economics. Graduate Faculty of the Virginia Polytechnic Institute and State University. bls. 6-7.
  14. 14,0 14,1 Caroline Gomes (desember 2019). „William Thompson, a Pioneer of European Socialism“. booksandideas.net.
  15. John Jeffries Miles (1970). Piercy Ravenstone: A Study in Nineteenth Century Radical Economics. Graduate Faculty of the Virginia Polytechnic Institute and State University. bls. 25.
  16. Alessandro Roncaglia (2005). The Wealth of Ideas; A History of Economic Thought. Cambridge University Press. bls. 244. ISBN 978-0-511-11348-2.
  17. John Jeffries Miles (1970). Piercy Ravenstone: A Study in Nineteenth Century Radical Economics. Graduate Faculty of the Virginia Polytechnic Institute and State University. bls. 20.