Ragnar Jónasson

íslenskur rithöfundur og lögfræðingur

Ragnar Jónasson (f. 20. júlí 1976) er íslenskur lögfræðingur og rithöfundur. Hann hefur skrifað bækur sem hafa verið gefnar út í 40 löndum á 27 tungumálum og selst í tæplega tveimur milljónum eintaka á heimsvísu. Árið 2020 var bók hans Mistur valin glæpasaga ársins í Bretlandi.[1] Í september árið 2020 tilkynnti bandaríska sjónvarpsstöðin CBS að hún ætlaði að framleiða glæpaþætti byggða á bók Ragnars, Dimmu.[2]

Ragnar fæddist í Reykjavík en ólst upp í Kópavogi og Grafarvogi. Foreldrar hans eru Katrín Guðjónsdóttir fyrrverandi læknaritari hjá embætti landlæknis og Jónas Ragnarsson ritstjóri hjá Krabbameinsfélaginu. Eiginkona Ragnars er María Margrét Jóhannesdóttir og eiga þau tvær dætur.[3]

Ragnar lauk stúdentsprófi frá Verzlunarskóla Íslands og útskrifaðist sem lögfræðingur frá Háskóla Íslands. Hann starfaði m.a. sem fréttamaður á Ríkissjónvarpinu samhliða námi. Hann starfaði sem forstöðumaður skrifstofu slitastjórar Kaupþings og forstöðumaður lögfræðiráðgjafar Nýja Kaupþings. Frá 2015-2019 var hann yfirlögfræðingur sjóðstýringafyrirtækisins Gamma en árið 2019 hóf hann störf á fjárfestingabankasviði Arion banka. Ragnar hefur einnig kennt höfundarétt við lagadeild Háskólans í Reykjavík.[4][5]

Fyrsta glæpasaga Ragnars Fölsk nóta kom út árið 2009 en áður hafði hann þýtt fjölda bóka eftir Agatha Christie.

Ragnar hefur ásamt Yrsu Sigurðardóttur glæpasagnahöfundi staðið fyrir fyrstu íslensku glæpasagnahátíðinni Iceland Noir sem fyrst var haldin árið 2013.

Bækur eftir Ragnar

breyta
  • Fölsk nóta (2009)
  • Snjóblinda (2010)
  • Myrknætti (2011)
  • Rof (2012)
  • Andköf (2013)
  • Náttblinda (2014)
  • Dimma (2015)
  • Drungi (2016)
  • Mistur (2017)
  • Þorpið (2018)
  • Hvítidauði (2019)
  • Vetrarmein (2020)
  • Úti (2021)

Tilvísanir

breyta
  1. Frettabladid.is, „Bók Ragnars glæpasaga ársins í Bretlandi“ (skoðað 8. janúar 2021)
  2. Frettabladid.is, „CBS hyggst gera glæpaþætti eftir bók Ragnars“ (skoðað 8. janúr 2021)
  3. Visir.is, „Skrifar þegar börnin eru sofnuð“ (skoðað 8. janúar 2021)
  4. Vb.is, „Ragnar Jónasson fer til Arion banka“ (skoðað 8. janúar 2021)
  5. Bokmenntaborgin.is, „Ragnar Jónasson“ (skoðað 8. janúar 2021)