Rúrik
Rúrik eða Hrærekur (fornausturslavneska: Рюрикъ; Rjurikŭ) var höfðingi úr röðum norrænna væringja sem tók árið 862 við konungdómi í borginni Hólmgarði í Garðaríki. Rúrik var stofnandi Rúriksættarinnar, sem átti eftir að ráða yfir gerska Kænugarðsríkinu og ól síðar af sér fyrstu keisara rússneska keisaradæmisins.
Eina heimildin fyrir tilvist Rúriks er í annálnum Sögu liðinna ára. Fræðimenn hafa deilt mikið um mikilvægi Rúriks og um framlag norrænna manna við stofnun ríkja Rús-þjóðanna í Garðaríki. Þeir sem viðurkenna eða leggja áherslu á þátt norrænna manna eru kallaðir „normannistar“ en þeir sem hafna framlagi þeirra „and-normannistar.“[1]
Æviágrip
breytaÍ Sögu liðinna ára er greint frá því að slavneskar frumbyggjaþjóðir Garðaríkis hafi rekið norræna væringja á brott árið 862 og hætt að greiða þeim skatt. Án væringja hafi lögleysi hins vegar breiðst út og bardagar hafi brotist út milli slavneskra höfðingja Garðaríkis. Því hafi Slavar sammælst um að leita sér að konungi sem gæti ráðið yfir þeim og dæmt eftir réttum lögum.[2]
Samkvæmt sögunni leituðu Slavar (nánar tiltekið þjóðarbrotin Ilmenar og Krivitsjar[3]) á náðir væringja í Svíþjóð og biðluðu til leiðtoga svokallaðrar Rús-þjóðar. Við þá sögðu þeir: „Land okkar er mikið og auðugt en allt þar er í óreiðu. Komið og ríkið yfir okkur og stjórnið okkur.“ Þrír bræður voru síðan valdir til að setjast á valdastól í Garðaríki og höfðu þeir með sér allan Rús-þjóðflokkinn. Rúrik, sem var þeirra elstur, varð fursti í Hólmgarði. Annar, Sineús, kom sér fyrir við Hvítavatn og sá þriðji, Trúvor, í Ízborsk. Samkvæmt þessari frásögn er nafn Rús-ríkisins (sem samsvarar nafni Rússlands nútímans) dregið af norrænum þjóðflokki sem Rúrik og bræður hans höfðu með sér frá Svíþjóð.[2] Orðið Rús hafi síðar breyst í samheiti yfir austur-slavneskar þjóðir sem töluðu náskyld tungumál og greinast nú í ríkin Rússland, Úkraínu og Hvíta-Rússland.[4]
Rúrik var stofnandi valdaættar sem fór með völd í alls um 700 ár. Fyrst réð ættin í Hólmgarði, svo í Kænugarði og loks í Moskvu, þar sem hún gat af sér fyrstu rússnesku keisarana. Síðasti valdhafinn af Rúriksætt var keisarinn Fjodor 1., sem lést árið 1598.[5]
Túlkanir
breytaAlmennt er frásögnin af Rúrik og bræðrum hans ekki tekin bókstaflega meðal fræðimanna. Líklegt þykir að sú fullyrðing að Slavar hafi sjálfir boðið Rúrik að gerast konungur til að koma á lögum og reglu sé eftiráskýring sem hafi verið notuð til að réttlæta yfirráð erlendrar höfðingjastéttar í Garðaríki.[6]
Sagan af valdatöku Rúriks og bræðra hans hefur í seinni tíð þótt bera með sér rasískan undirtón þar sem með henni er gefið til kynna að Slavar hafi ekki verið færir um að stjórna sér sjálfir og hafi þarfnast forystu germanskra leiðtoga til að koma á röð og reglu. Skírskotun normannistakenningarinnar við rasisma varð sér í lagi áberandi í seinni heimsstyrjöldinni, en Adolf Hitler lét þau orð falla í aðdraganda innrásarinnar í Sovétríkin að yfirtaka Rúriks og bræðra hans hefði verið „dásamlegt dæmi um hæfileika germanskra þjóða til að stofna ríki fyrir óæðri kynþátt.“[7]
Margir, sér í lagi rússneskir þjóðernissinnar, hafa andmælt þeirri túlkun að norrænir menn hafi skipt sköpum við stofnun Rús-ríkjanna og hafa jafnframt dregið í efa að orðið „Rús“ eigi sér norrænan uppruna.[8] Í söguskýringum and-normannista er lögð áhersla á að stofnun Rús-ríkjanna hafi verið að frumkvæði heimamanna sjálfra og því hafnað að þjóðir Slava í austurvegi hafi ekki haft getu til að stjórnað sér sjálfar.[5] Almennt er talið að norræn höfðingjastétt hafi fljótt blandast slavneskum heimamönnum og að norræn áhrif hafi því farið þverrandi fram eftir árum.[4] Mikið magn norrænna fornleifa og norrænna nafna í rituðum heimildum gerir þó óumdeilt að norrænir menn höfðu talsverð ítök á upphafsárum Rús-ríkisins.[1]
Tilvísanir
breyta- ↑ 1,0 1,1 Þórir Jónsson Hraundal (2019). „Með Víkingum við Volgubakka: ferðabók Ibn Fadlan“ (PDF). Milli mála – Tímarit um erlend tungumál og menningu. Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum: 151–155.
- ↑ 2,0 2,1 Rússa sögur og Igorskviða. Þýðing eftir Árna Bergmann. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag. 2009. bls. 31. ISBN 978-9979-66-238-9.
- ↑ Illugi Jökulsson (23. janúar 2022). „Þegar Úkraína var mesta stórveldi Evrópu“. Stundin. Sótt 11. maí 2022.
- ↑ 4,0 4,1 Rússa sögur og Igorskviða. bls. 36.
- ↑ 5,0 5,1 Árni Bergmann (2004). Rússland og Rússar. Reykjavík: Mál og menning. bls. 13. ISBN 9979-3-2402-3.
- ↑ Rússa sögur og Igorskviða. bls. 38.
- ↑ Rússa sögur og Igorskviða. bls. 37.
- ↑ Rússland og Rússar. bls. 12.