Pyrrhon

forngrískur heimspekingur
(Endurbeint frá Pyrrhón)

Pyrrhon (um 360270 f.Kr.) var forngrískur heimspekingur frá Elís. Hann er oft sagður hafa verið fyrsti efahyggjumaðurinn enda þótt fræðimenn séu nú flestir á einu máli um að Pyrrhon hafi ekki verið efahyggjumaður.[1] pyrrhonsk efahyggja er nefnd í höfuðið á honum.

Pyrrhon
Pyrrhon
Persónulegar upplýsingar
Fæddurum 360 f.Kr.
SvæðiVestræn heimspeki
TímabilFornaldarheimspeki
Helstu ritverkEngin
Helstu kenningarEngin
Helstu viðfangsefniÞekkingarfræði

Æviágrip

breyta

Pyrrhon var sonur Pleistarkosar. Díogenes Laertíos, sem ritaði ævisögu Pyrrhons, vitnar í Apollodóros og segir að Pyrrhon hafi fyrst verið málari og að málverk eftir hann væru varðveitt í Elís. Síðar tók hann að stunda heimspeki eftir að hann kynntist verkum Demókrítosar og rökfræði Megörumanna hjá Brýsoni, nemanda Stilpons.[2]

Pyrrhon og Anaxarkos ferðuðust til austurs með Alexander mikla og kynntust „nöktu spekingunum“ (gymnosofistai) á Indlandi og spekingum í Persíu. Pyrrhon virðist einkum hafa tekið upp einsetulíf frá austrænu spekingunum. Þegar hann sneri aftur til Elís bjó hann við kröpp kjör en var í miklum metum meðal borgarbúa og einnig hjá Aþeningum, sem veittu honum borgararéttindi í Aþenu.

Sögur hermdu að Pyrrhon væri svo skeytingarlaus um eigin hag vegna þess að hann tryði ekki að það sem hann skynjaði væri raunverulegt að fylgjendur hans ættu í fullu fangi með að hafa auga með honum, gæta þess að hann yrði ekki undir hestvögnum og gengi ekki fram af björgum.[3]

Pyrrhon skrifaði engar bækur en kenningar hans eru þekktar úr ritum nemanda hans, Tímons frá Flíos, sem eru varðveitt í brotum og tilvitnunum, og úr ævisögu hans sem Díogenes Laertíos ritaði. Meðal annarra nemenda Pyrrhons má nefna Násifanes frá Teos og Hekatajos frá Abderu

Heimspeki

breyta
 
Πύρρων

Pyrrhon segir að vitringur verði að byrja á að spyrja sig þriggja spurninga. Í fyrsta lagi hvað sé til og hvernig það er í eðli sínu. Í öðru lagi, hvernig við tengjumst þessum hlutum. Og í þriðja lagi, hvaða viðhorf ættum við að hafa til hlutanna. Við getum ekkert vitað um hvað sé til. Við getum einungis vitað hvernig okkur virðast hlutirnir vera.

Pyrrhon hélt því fram að heimurinn væri í eðli sínu óræður og ómælanlegur og af þeim sökum segðu skynfærin okkur hvorki sattósatt. Þess vegna væri ekki hægt að vita neitt. Og þess vegna, sagði Pyrrhon, verðum við að fresta dómi um hvort hlutirnir séu svona eða hinsegin og segja hvorki að þeir séu meira svona en hinsegin, eða bæði svona og hinsegin, eða hvorki svona né hinsegin. Með því að losa okkur við allar skoðanir okkar getum við lifað áhyggjulaus og öðlast sálarró (ataraxía).

Speki Pyrrhons byggir á kenningu um hvernig raunveruleikinn sé í eðli sínu, nefnilega óræður og ómælanlegur og ekki meira (ou mallon) svona en hinsegin. Kenningu af þessu tagi getur efahyggjumaður ekki leyft sér að hafa og samkvæmt skilgreiningu síðari tíma pyrrhonista væri hver sú kenning sem segði að þekking væri ómöguleg ekki efahyggja, heldur neikvæð kenning um þekkingu.[4]

Tilvísanir

breyta
  1. Sjá, Long (1986) 75-88, Long og Sedley (1987) 1. bindi 16-17, 2. bindi 5-7, Bett (1994a), (1994b) og (2000), Brunschwig (1999) og Svavar Hrafn Svavarsson (2002) og (2004).
  2. Ýmis smáatriði er varða ævi Pyrrhons eru vafasöm. Um þetta, sjá Bett (2000) 1.
  3. Díogenes Laertíos, IX.61.
  4. Sjá Sextos Empeirikos, Frumatriði Pyrrhonismans I.3. Sextos telur að akademísku efahyggjumennirnir hafi haft kenningar af þessu tagi. Upphaflega gerðu þeir það ekki, en akademíska efahyggjan mildaðist þónokkuð er fram liðu stundir.

Heimildir og frekari fróðleikur

breyta
  • Algra, K., Barnes, J., Mansfeld, J. og Schofield, M. (ritstj.), The Cambridge History of Hellenistic Philosophy (Cambridge: Cambridge University Press, 1999).
  • Bett, Richard, „Aristocles on Timon on Pyrrho: The Text, Its Logic and its Credibility“ Oxford Studies in Ancient Philosophy 12 (1994a), 137-181.
  • Bett, Richard, „What did Pyrrho Think about the Nature of the Divine and the Good?“ Phronesis 39 (1994b), 303-337.
  • Bett, Richard, Pyrrho, his antecedents, and his legacy (Oxford: Oxford University Press, 2000).
  • Brunschwig, Jacques, „Introduction: the beginnings of Hellenistic epistemology“ hjá Algra, Barnes, Mansfeld og Schofield (ritstj.), The Cambridge History of Hellenistic Philosophy (Cambridge: Cambridge University Press, 1999) 229-259.
  • Burnyeat, Myles (ritstj.), The Skeptical Tradition (Berkeley: University of California Press, 1983).
  • Hankinson, R.J., The Sceptics (London: Routledge, 1995).
  • Long, A.A., Hellenistic Philosophy: Stoics, Epicureans, Sceptics (University of California Press, 1986).
  • Long, A.A. og Sedley, David, The Hellenistic Philosophers (Cambridge: Cambridge University Press, 1987).
  • Svavar Hrafn Svavarsson, „Pyrrho’s dogmatic nature“, The Classical Quarterly 52 (2002), 248-56.
  • Svavar Hrafn Svavarsson, „Pyrrho’s undecidable nature“, Oxford Studies in Ancient Philosophy 27 (2004), 249-295.

Tengt efni

breyta

Tenglar

breyta
  • „Hvað er ataraxía?“. Vísindavefurinn.
  • Stanford Encyclopedia of Philosophy:Ancient Skepticism
  • Stanford Encyclopedia of Philosophy:Pyrrho
  • The Internet Encyclopedia of Philosophy:Aenesidemus
  • The Internet Encyclopedia of Philosophy:Ancient Greek Skepticism
  • The Internet Encyclopedia of Philosophy:Pyrrho