Phillipskúrfan

(Endurbeint frá Phillips kúrfan)

Phillipskúrfan er hagfræðilíkan sem lýsir sambandinu milli breytinga á atvinnuleysistigi og launahækkunum. Líkanið er nefnt eftir Alban William Housego Phillips (1914-1975) sem var ný-sjálenskur hagfræðingur.

Árið 1958 birti Phillips ritið The Relationship between Unemployment and the Rate of Change of Money Wages In the United Kingdom, 1861 – 1957.[1] Þar rannsakaði hann hagtölur Bretlands yfir hundrað ára tímabil og uppgötvaði að það væri neikvæð fylgni milli atvinnuleysis og launaverðbólgu (e. wage inflation).[2]

Hin upprunalega Phillipskúrfa. Lýsir neikvæðu sambandi launaverðbólgu og atvinnuleysis

Þessi neikvæða fylgni lýsir sér þannig að þegar efnahagsumsvif aukast í samfélaginu, þá minnkar atvinnuleysi. Þegar atvinnuleysi minnkar, minnkar framboð af vinnuafli fyrir hvert fyrirtæki. Það þrýstir meðallaunum upp, þ.e.a.s vinnuveitendur þurfa bæði að bjóða hærri laun til þess að ráða nýtt starfsfólk, og greiða hærri laun til þess að halda í starfsfólk. Sagan snýst við þegar að atvinnuleysi eykst, þá lækka meðallaunin.[3] Phillipskúrfan sýndi fram á tilvist fórnarskipta fyrir peninga- og fjármálastefnunefndir ríkja heims. Ef þau vildu minnka atvinnuleysi, þá kostaði það aukna verðbólgu og öfugt.[4]

Stuðningsmenn Phillipskúrfunnar

breyta

Phillipskúrfan er þjóðhagfræðilíkan. Richard Lipsey styrkti grunnforsendur hennar með því að tengja hana rekstrarhagfræðinni með því að skoða hvernig hegðun fyrirtækja og einstaklinga hafa áhrif á sambandið milli atvinnuleysis og verðbólgu. Paul Samuelson og Robert Solow greindu fórnarskiptin sem myndast milli atvinnuleysis og verðbólgu. Verk þeirra um Phillipskúrfuna urðu mjög áhrifamikil og festu hana í sessi í peninga- og fjármálastefnu ríkja heims.[2]

Forgöngumenn Phillipskúrfunnar

breyta

Phillips var ekki sá fyrsti til að bera kennsl á sambandið milli atvinnuleysis og verðbólgu. John Law (1671-1729) skrifaði um sambandið milli atvinnuleysis og verðbreytinga. Hann taldi samt sem áður að atvinnuleysi ykist við verðlækkanir en ekki verðhækkanir eins og koma myndi fram seinna. Skoski heimspekingurinn og hagfræðingurinn David Hume (1711-1776) skrifaði um áhrif sem tímabundin frávik atvinnnuleysis frá náttúrulegu stigi hefur á verðbreytingar árið 1752.[5] Bandaríski hagfræðingurinn Irving Fisher (1867 – 1947) hafði áður rannsakað hvernig breyting í peningamagni hefur áhrif á verðlag og atvinnuleysi. Niðurstöður hans líkjast nýjustu uppfærslum Phillipskúrfunnar, þótt þær voru birtar mörgum áratugum áður en hin upprunalega Phillipskúrfa var sett fram.[2]

Nýtt form Phillipskúrfunnar undir moneterískum áhrifum

breyta

Undir lok 7. áratugsins þá jókst verðbólga og atvinnuleysi mikið á sama tíma. Það stóð í stúf við Phillipskúrfuna sem sagði að það væri neikvæð fylgni þar á milli. Milton Friedman og Edmund Phelps, báðir úr skóla Monetarismans, tókst að setja Phillipskúrfuna upp á nýtt form þar sem tekið er tillit til breytinga á milli skemmri og lengri tíma.[4]

Kenning Phelps er sú að þegar efnahagsumsvif aukast þá eykst verðbólga og atvinnuleysi minnkar. Þau áhrif eigi hins vegar aðeins við til skemmri tíma. Til lengri tíma gæti hið opinbera ekki haft áhrif á atvinnustig, hvorki með fjármála- né peningastefnu. Því er Phillipskúrfan til lengri tíma lóðrétt við náttúrulegt atvinnuleysisstig.[2]

 
Phillipskúrfan undir Moneterískum áhrifum. Tvær Phillipskúrfur, ein til skamms tíma og ein til lengri.

Samkvæmt Friedman, var náttúrulega atvinnuleysisstigið markaðsafl sem hið opinbera gæti ekki breytt. Til lengri tíma litið væru fórnarskiptin milli verðbólgu og atvinnuleysis því ekki til.[6] Þessi nálgun til lengri tíma stemmir við kenningar klassísku hagfræðinnar þar sem verðlag og laun myndu ávallt aðlagast fullkomlega að öllum markaðsaðstæðum.[4]

Verðbólgan og atvinnuleysið héldu áfram að vaxa samstíga út allan 8. áratuginn í svokallaðri stöðnunarverðbólgu (e. stagflation). Stöðnunarverðbólga á sér stað þegar hagkerfið býr við stöðnun hagvaxtar, mikið atvinnuleysi og háa verðbólgu.[7] Hún var til komin vegna olíukrísu áttunda áratugsins. Þessi þróun benti til þess að sambandið milli atvinnuleysis og verðbólgu hafði rofnað.[8] Það styrkti kenningu Phelps og Friedman og var því nýja líkan Phillipskúrfunnar tekið upp í stað hins gamla.[4]

Lýsing á moneteríska líkaninu
breyta

Á myndinni hér til hliðar er sett fram lítið dæmi á nýja uppfærða líkaninu. Hagkerfið byrjar í punkti A við náttúrulegt atvinnuleysisstig,  , og verðbólgustig sem við köllum  . Síðan með aukningu í efnahagsumsvifum dregst atvinnuleysi saman og hagkerfið færist upp til vinstri meðfram Phillipskúrfunni til skemmri tíma að punkti B, þar sem atvinnuleysi er fyrir neðan náttúrulegt atvinnuleysisstig og verðbólga búin að hækka upp í  . Eftir að verðbólguhækkunina þá munu verðbólguvæntingar hækka sem hliðrar fallinu upp. Ástæðan fyrir því er sú að þegar fólk væntir þess að verðbólga sé há, þá vill það ekki að kaupmáttur launa þeirra minnki og því myndast þrýstingur á hækkun meðallauna. Þegar meðallaun hækka, þá eykst atvinnuleysi þangað til við erum aftur komin á náttúrulegt atvinnuleysisstig. Til lengri tíma erum við því alltaf á náttúrulegu atvinnuleysisstigi.[3]

Nýtt form Phillipskúrfunnar undir ný-keynesískum áhrifum

breyta
 
Ný-keynesíska Phillipskúrfan. Lýsir jákvæðu sambandi framleiðslu og verðbólgu

Í fyrri útfærslum Phillipskúrfunnar var horft á breytingu í efnahagsumsvifum út frá linsum atvinnuleysis. Hagfræðingar ný-keynesíska skólans skoðuðu hvort betur væri hægt að lýsa verðbólgu með tilliti til framleiðslu hagkerfisins.[4] Réttara sagt með muninum á raunverulegri framleiðslu og náttúrulegs framleiðslustigs hagkerfisins. Þessi munur er kallaður framleiðsluspenna eða framleiðsluslaki eftir hvort framleiðslan sé meiri eða minni en náttúrulega stigið.[3]

Út frá þessum pælingum fæddist ný-keynesísk Phillipskúrfa. Hún var ekki búin til af einum hagfræðingi heldur er hún afrek margra hagfræðinga 8. áratugsins sem rannsökuðu Phillipskúrfuna og ný-keynesísk þjóðhagfræðilíkön. Hér er Phillipskúrfan upphallandi, með jákvæðri fylgni milli verðbólgu og framleiðslustigs. Í þessu líkani myndast ný fórnarskipti. Ef hið opinbera vill auka framleiðslu og hagvöxt, þá myndar það meiri verðbólgu og öfug. Þessi fórnarskipti eiga þó aðeins við í skamma tímanum þar sem til lengri tíma mun framleiðsla ávalt vera á náttúrulegu framleiðslustigi.[4]

Stærðfræðileg útfærsla

breyta

Fall Phillips kúrfunnar má rita sem:

 

þar sem   táknar verðbólgu,   táknar verðbólguvæntingar,   er næmnisstuðull,   táknar frávik framleiðslu frá náttúrulegu framleiðslustigi (e. output gap) og   táknar ýmsa kostnaðarskelli (e. cost-push shocks) sem geta haft áhrif á verðbólgu. Dæmi um kostnaðarskelli sem hafa áhrif á verðbólgu er olíukrísan á 8. áratugnun og COVID19 heimsfaraldurinn.

Ef frávik framleiðslu frá náttúrulegu framleiðslustigi breytist ( ), þá færumst við meðfram Phillips kúrfunni annað hvort upp til hægri eða niður til vinstri. Nýja staðsetning okkar á ferlinum sýnir jákvæða sambandið milli framleiðslu og verðbólgu. Sem dæmi ef framleiðsla minnkar úr náttúrulegu framleiðslustigi í framleiðsluslaka, þá færumst við niður til vinstri meðfram ferlinum þar sem nýja staðsetning okkar sýnir lægri verðbólgu.

Ef verðbólguvæntingar ( ) breytast eða hagkerfið verður fyrir kostnaðarskelli ( ), þá myndi Phillips kúrfan hliðrast upp eða niður og hafa þar af leiðandi áhrif á verðbólgustig. Hér eru áhrifin á verðbólgu óháð framleiðslustigi.[3]

Notkun í dag

breyta

Af öllum útfærslum Phillipskúrfunnar þá er ný-keynesíska Phillipskúrfan mest notuð í dag í peninga- og fjármálastefnum ríkja heims.[3]

Tilvísanir

breyta
  1. „Phillips curve | Definition, Graph, & Facts | Britannica Money“. www.britannica.com (enska). Sótt 6. nóvember 2023.
  2. 2,0 2,1 2,2 2,3 SAMUELS, WARREN J.; BIDDLE, JEFF E.; DAVIS, JOHN B., ritstjórar (2003), „A Companion to the History of Economic Thought“, A Companion to the History of Economic Thought, Blackwell Publishing Ltd, bls. 507–522, doi:10.1111/b.9780631225737.2003.00035.x
  3. 3,0 3,1 3,2 3,3 3,4 Nills Gottfries; Uppsala University, Sweden (2013). Macro Economics. Palgrave Macmillan. ISBN 978-0-230-27597-3.
  4. 4,0 4,1 4,2 4,3 4,4 4,5 Gergö Motyovszki (2013). „The Evolution of Phillips Curve Concepts and Their Implications for Economic Policy“ (PDF). Central European University.
  5. Thomas M. Humphrey (1985). "The Early History of the Phillips Curve" (PDF). Economic Review. Federal Reserve Bank of Richmond. bls. 18.
  6. Sandelin, Bo; Trautwein, Hans-Michael (7. júlí 2023). A Short History of Economic Thought. London: Routledge. doi:10.4324/9781003402763. ISBN 978-1-003-40276-3.
  7. „The Phillips Curve Economic Theory Explained“. Investopedia (enska). Sótt 6. nóvember 2023.
  8. Pettinger, Tejvan (15. júní 2023). „Phillips Curve“. Economics Help (bresk enska). Sótt 6. nóvember 2023.