Pergamon
39°7′N 27°11′A / 39.117°N 27.183°A Pergamon (gríska: Πέργαμος, í dag Bergama í Tyrklandi) var forngrísk borg í norðvestur Anatólíu, um 26 km frá Eyjahafi, við útnesinu norðan við ána Kaíkos (í dag Bakırçay), sem varð mikilvægt konungdæmi á helleníska tímanum undir stjórn Attalída 282-129 f.Kr..
Attalídar, niðjar Attalosar, föður Fíletærosar, sem komst til valda árið 282 f.Kr., voru meðal dyggustu bandamanna Rómverja af hellenísku konungdæmunum. Undir stjórn Attalosar I studdi Pergamon Róm gegn Filipposi V af Makedóníu í fyrsta og öðru makedóníska stríðinu og aftur undir stjórn Evmenesar II gegn Perseifi af Makedóníu í þriðja makedóníska stríðinu. Fyrir stuðning sinn gegn Selevkídum fengu Attalídar að launum öll fyrrum yfrráðasvæði Selevkída í Litlu Asíu.
Attalídar ríktu af skynsemi og örlæti. Mörg skjöl eru varðveitt sem sýna hvernig Attalídar studdu við vöxt bæja með því að senda hæfa |handverksmenn og með skattaívilnun. Þeir leyfðu grísku borgunum á yfirráðasvæði sínu að halda sjálfstæði sínu í orði kveðnu og sendu gjafir til menningarborga Grikklands, svo sem Delfí, Delos og Aþenu. Þeir unnu sigur á innrásarher kelta. Háborg Pergamonborgar var skipulögð eftir fyrirmynd háborgar Aþenu, Akrópólis-hæð. Altarið mikla frá Pergamon er nú varðveitt á Pergamon safninu í Berlín.
Í Pergamon var næstbesta bókasafn fornaldar, á eftir bókasafninu í Alexandríu. Þegar Ptólemajar hætti að flytja út papyrus, að hluta vegna samkeppni og að hluta vegna skorts, fundu Pergamonbúar upp nýja aðferð til að varðveita rit, á skinni sem nefndist pergaminus. Þetta var kálfskinn, forveri skinnhandrita miðalda og pappírs.
Þegar Attalos III lést án erfingja árið 133 f.Kr. arfleiddi hann Rómverja að öllu konungdæminu til þess að koma í veg fyrir að borgarastríð brytist út.
Skammt frá borginni var helgidómur Asklepíosar lækningaguðsins. Þangað kom fólk sem átti við heilsufarsvandamál að stríða og baðaði sig í vatni úr helgri lind. Sagt var að Asklepíos vitjaði sjúklinganna í draumi og segði þeim hvernig þeir skyldu vinna bug á meinsemdum sínum. Fornleifafræðingar hafa fundið fjölmargar gjafir frá gestum staðarins, svo sem litlar leirstyttur af líkamshlutum, sem vafalaust táknuðu það sem hafði læknast.
Á 1. öld e.Kr. var kirkjan í Pergamon ein af sjö kirkjum kristninnar sem eru ávarpaðar í Opinberunarbók Jóhannesar (Op. Jóh. 1:11).
Heimildir
breyta- Fyrirmynd greinarinnar var „Pergamon“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 19. maí 2006.
- Hansen, Esther V., The Attalids of Pergamon. (Ithaca, New York: Cornell University Press, 1971). ISBN 0-8014-0615-3.
Tenglar
breyta- Encyclopaedia of Turkey „Ancient Pergamum“ Geymt 22 febrúar 2006 í Wayback Machine
- Rosa Valderrama, „Pergamum“: sögulegt yfirlit
- Listmunir frá Pergamon Geymt 15 júní 2006 í Wayback Machine
- Myndasyrpa af gömlu og nýju Pergammon, m.a. af safninu
- Myndir frá Pergamon[óvirkur tengill]