Pedro 1. Brasilíukeisari

(Endurbeint frá Pedro 1.)

Dom Pedro 1. (12. október 1798 – 24. september 1834), kallaður „frelsarinn“, var stofnandi og fyrsti keisari brasilíska keisaradæmisins. Sem Pedro 4. var hann einnig konungur Portúgals í stuttan tíma en þar var hann einnig kallaður „frelsarinn“ og „dátakonungurinn“. Bæði viðurnefnin hlaut hann vegna stríðs síns gegn bróður sínum, Miguel 1. Portúgalskonungi. Pedro fæddist í Lissabon og var fjórða barn Jóhanns 6. Portúgalskonungs og drottningar hans, Karlottu, og þar með meðlimur Bragança-ættar. Þegar Frakkar réðust inn í Portúgal árið 1807 flúði Pedro ásamt fjölskyldu sinni til stærstu og ríkustu nýlendu Portúgals, Brasilíu.

Skjaldarmerki Bragança-ætt Keisari Brasilíu, Konungur Portúgals
Bragança-ætt
Pedro 1. Brasilíukeisari
Pedro 1.
Ríkisár 12. október 18227. apríl 1831 (í Brasilíu); 10. mars 1826 – 2. maí 1826 (í Portúgal)
SkírnarnafnPedro de Alcântara Francisco António João Carlos Xavier de Paula Miguel Rafael Joaquim José Gonzaga Pascoal Cipriano Serafim
Fæddur12. október 1798
 Lissabon, Portúgal
Dáinn24. september 1834 (35 ára)
 Lissabon, Portúgal
GröfSjálfstæðisminnismerki Brasilíu, São Paulo
Undirskrift
Konungsfjölskyldan
Faðir Jóhann 6. Portúgalskonungur
Móðir Karlotta Joaquina af Spáni
KeisaraynjaMaría Leópoldína af Austurríki (g. 1843; d. 1889)
BörnMaría, Miguel, Jóhann Karl, Januária, Paula, Francisca, Pedro, Maria Amélia

Árið 1820 braust út bylting í Lissabon og faðir Pedros neyddist því til að snúa heim til Portúgals í apríl næsta ár.[1] Á meðan var Pedro gerður að ríkisstjóra í Brasilíu og þurfti að kljást við byltingarsinna og óhlýðna portúgalska hermenn. Þegar portúgalska ríkisstjórnin gerði sig líklega til þess að svipta Brasilíu pólitísku sjálfstæði sem nýlendan hafði notið frá árinu 1808 óx óánægja meðal Brasilíumanna með samband ríkjanna. Pedro stóð með Brasilíumönnum og lýsti yfir sjálfstæði ríkisins frá Portúgal þann 7. september 1822.[2][3] Þann 12. október var hann krýndur keisari Brasilíu og í mars 1824 hafði hann sigrað alla heri sem enn voru tryggir portúgölsku stjórninni. Fáeinum mánuðum síðar sigraði Pedro Miðbaugssambandið (Confederação do Equador) svokallaða, uppreisn aðskilnaðarsinna í norðausturhluta Brasilíu.

Önnur uppreisn aðskilnaðarsinna braust út í suðurfylkinu Cisplatinu snemma árs 1825 og brasilíska keisaradæmið háði stríð til að koma í veg fyrir að hin nærliggjandi sameinuðu fylki Río de la Plata innlimuðu fylkið. Í mars árið 1826 varð Pedro konungur Portúgals í stuttan tíma en sagði síðan af sér og eftirlét elstu dóttur sinni, Maríu, portúgölsku krúnuna. Staða Pedros versnaði árið 1828 þegar stríðið í suðurhluta Brasilíu endaði með því að ríkið glataði Cisplatinu. Sama ár steypti yngri bróðir Pedros, Miguel, Maríu af stóli í Portúgal og lýsti sig Miguel 1. Portúgalskonung. Á sama tíma beið orðspor keisarans hnekki vegna ástarsambands hans við hirðkonu sína. Einnig komu ágreiningsmál upp á brasilíska þinginu varðandi það hvort keisarinn eða löggjafarþingið ætti að skipa ríkisstjórnina. Pedro sá sér ekki fært að huga að vandamálunum bæði í Brasilíu og Portúgal og því sagði hann af sér sem keisari Brasilíu þann 7. apríl 1831 og eftirlét krúnuna syni sínum, Pedro 2., og sigldi síðan til Evrópu.

Pedro gerði innrás í Portúgal ásamt her sínum í júlí árið 1832. Í fyrstu virtist Pedro standa frammi fyrir borgarastyrjöld en átökin flæktust brátt inn í baráttu á öllum Íberíuskaga milli frjálslyndismanna og stuðningsmanna óskoraðs einveldis. Pedro dó úr berklum þann 24. september árið 1834, aðeins fáeinum mánuðum eftir að hann hafði unnið sigur ásamt frjálslyndismönnunum. Bæði á ævi hans og á seinni tímum hefur honum verið hrósað fyrir að breiða út frjálslyndishugmyndir sem gerðu Brasilíu og Portúgal kleift að brjótast undan einveldisstjórnum.

Tilvísanir

breyta
  1. Cronologia Período Joanino Geymt 12 janúar 2012 í Wayback Machine. Fundação Biblioteca Nacional, 2010. In Portugal.
  2. Barman, Roderick J. (1988). Brazil: The Forging of a Nation, 1798–1852. Stanford, California: Stanford University Press, bls. 96.
  3. Sousa, Otávio Tarquínio de (1972). A vida de D. Pedro I. 2. Rio de Janeiro: José Olímpio, bls. 31.