Parþía

(Endurbeint frá Parþar)

Parþía (persneska: اشکانیان, Ashkâniân) var menningarsamfélag sem átti upptök sín þar sem nú er norðvesturhluti Írans en sem á hátindi sínum náði yfir það svæði þar sem nú eru löndin Íran, Írak, Aserbaísjan, Armenía, Georgía, austurhluti Tyrklands, austurhluti Sýrlands, Túrkmenistan, Afganistan, Tadsíkistan, Pakistan, Kúveit, Persaflóaströnd Sádi-Arabíu, Barein og Sameinuðu arabísku furstadæmin.

Kort sem sýnir Parþíu um 60 f.Kr.

Stjórnendur Parþa voru Arsakídar sem sameinuðu og ríktu yfir Íranshásléttunni og tóku yfir eystri héruð Selevkídaveldisins í Litlu-Asíu. Þeir stjórnuðu Mesópótamíu með hléum frá því um 150 f.Kr. til 224 e.Kr. Parþar voru erkióvinir Rómverja í Asíu þar sem þeir stöðvuðu útbreiðslu Rómaveldis til austurs handan við Kappadókíu, aðallega vegna þess að þeir notuðu þungvopnað riddaralið sem var nýjung í hernaði.

Veldi Parþa stóð í fimm aldir, mun lengur en flest önnur heimsveldi Austurlanda nær. Upphaf þess má rekja til þess tíma er þeir sögðu skilið við Selevkídaveldið 238 f.Kr., þótt þeim tækist ekki að ná völdum í Íran fyrr en á valdatíma Míþrídatesar 1. Ríki Parþa leystist svo upp þegar persneskur uppreisnarkonungur, Adrasjír 1., stofnandi Sassanídaveldisins, náði Ktesifon á sitt vald árið 228 og gerði sóróismaríkistrú.