Paprika
Paprika er heiti á ýmsum yrkjum jurtarinnar Capsicum annuum. Ólíkir yrki bera mismunandi aldin en algengustu litirnir eru gulur, rauður og appelsínugulur þótt mörg önnur litbrigði séu til. Óþroskaðar paprikur eru grænar að lit og eru þær oft borðaðar líka en fullþroskaðar paprikur eru þó mun sætari og flestum þykja þær bragðbetri. Flestar eru hnöttóttar eða svolítð aflangar en einnig eru til langar og oddmjóar paprikur.
Paprikan er upprunnin í Mexíkó, Mið-Ameríku og norðanverðri Suður-Ameríku. Fræ einhverra Capsicum-yrkja bárust til Spánar þegar árið 1493 með Kólumbusi og þaðan bárust paprika og chillipipar víða um heim mjög fljótt. Paprika er ræktuð mjög víða, utanhúss og á norðurslóðum í gróðurhúsum.
Þótt paprikan sé náskyld chillipipar er hún eina jurtin af Capsicum-ættinni sem ekki inniheldur capsaicin, sem er sterka efnið í chillipipar og öðrum skyldum jurtum. Í rauninni er paprika ávöxtur en hún er þó yfirleitt notuð eins og grænmeti og flestir líta á hana sem grænmeti en ekki ávöxt. Paprikur eru auðugar að C-vítamíni og fleiri hollefnum.
Heitið paprika er komið úr ungversku en þýðir upprunalega pipar, eins og raunar nafn jurtarinnar á flestum evrópskum tungumálum. Það á sér rætur í misskilingi sem varð til strax þegar Kólumbus kom með fræ jurtarinnar til Evrópu; hann kallaði hana pimentón, sem þýðir pipar á spænsku. Hann hafði verið gerður út til að leita að leiðinni til Indlands, ekki síst til að nálgast pipar, en kom aftur með annað sterkt krydd.