Péturskirkjan í München
Péturskirkjan í München (St. Peter eða bara Alter Peter) er elsta kirkja borgarinnar München í Þýskalandi. Hún stendur steinsnar frá Maríutorginu í hjarta borgarinnar.
Saga Péturskirkjunnar
breytaÁ 11. öld var búið að reisa litla kirkju á reitnum, en það er nokkuð fyrir stofnun borgarinnar. Kirkjan var stækkuð til muna og vígð 1190. En seint á 13. öld var hún rifin og núverandi kirkja reist. Hún var vígð 1294 og helguð Pétri postula. 1327 varð stórbruni í miðborg München og brann þá kirkjan að hluta. Kórinn eyðilagðist og turnarnir brunnu út. En það tókst að bjarga skipinu. Nýr kór var vígður 1368 en ekki var gert við turnana fyrr en 1386. Þeir voru þá sameinaðir í einn turn, sem gaf kirkjunni sérkennilegt útlit. Á miðjum turninum var opnaður útsýnispallur. 1607 sló eldingu niður í turninn og skemmdist hann við það. Hann fékk þá sitt núverandi þak. Skömmu seinna var kórinn rifinn til að stækka kirkjuna enn frekar. Á 18. öld var kirkjan gerð upp að innan og fékk þá sinn núverandi rókókóstíl. Í loftárásum heimstyrjaldarinnar siðari stórskemmdist kirkjan og brann út. Stóðu þá aðeins turnarnir uppi og ytri múrveggir kirkjuskipsins. Til stóð að rífa kirkjuna, en á síðustu stundu var ákveðið að endurreisa hana. Ytri umgjörðin var tilbúin 1954, en ekki var lokið við innviði fyrr en árið 2000. Í kirkjunni eru líkamsleifar heilagrar Múndítíu geymdar til sýnis. Í múrveggnum í kórnum situr austurrísk fallbyssukúla, en Austurríkismenn skutu á München meðan Frakkar voru þar á Napoleonstímanum.
Turninn
breytaTurn Péturskirkjunnar er 91 metra hár og er með hæstu kirkjum München. Í 56 metra hæð er útsýnispallur, þaðan sem gott útsýni er yfir borgina, allt til Alpafjalla. Þar sem engin lyfta er í kirkjunni, verður að ganga upp 306 þrep og fara upp fyrir klukknahúsið. Útsýnispallurinn er opin almenningi.
Listaverk og innviði
breyta-
Péturskirkjan er afar fögur að innan. Loftið er þakið freskum.
-
Háaltarið er einkar glæsilegt
-
Jarðneskar leifar heilagrar Múndítíu
-
Heilög Walburga er heiðruð í kirkjunni
Heimildir
breyta- Fyrirmynd greinarinnar var „St. Peter (München)“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt janúar 2010.