Pétur Pálsson (ábóti)

Pétur Pálsson (d. 1546) var íslenskur prestur og síðan ábóti í Munkaþverárklaustri frá 1532, þar sem hann tók við af Finnboga Einarssyni.

Pétur var orðinn prestur 1502 og var í þjónustu Gottskálks Nikulássonar biskups, sem meðal annars sendi hann sem fulltrúa sinn á fund erkibiskups í Niðarósi 1517. Hann var jafnframt Hólaráðsmaður og officialis. Þegar Gottskálk biskup dó í desember 1520 var Pétur settur til að hafa umráð yfir Hólastól þar til nýr biskup tæki við.

Hann var mikill andstæðingur Jóns Arasonar og er talið að hann hafi sjálfur viljað sækjast eftir biskupsembættinu. Hann var eini presturinn norðanlands sem ekki kaus Jón Arason til biskups 1521 og Ögmundur Skálholtsbiskup sendi hann utan til að reyna að vinna gegn því að erkibiskup vígði Jón. Seinna sendi Ögmundur, sem var mikill vinur Péturs, hann til Hóla til að lesa forboðsbréf yfir Jóni.

Pétur var orðinn prestur í Grímstungu í Vatnsdal fyrir 1526 og var prófastur í Húnavatnsprófastsdæmi 1522. Árið 1532 vígði Jón biskup hann ábóta í Munkaþverárklaustri, þrátt fyrir fyrri erjur þeirra, og gegndi hann ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Jón. Hann dó 1546 og setti Jón Tómas Eiríksson, stjúptengdason sinn, sem eftirmann hans.

Fylgikona Péturs var Ólöf Einarsdóttir. Hann átti sjö börn sem hann gerði arfgeng með ættleiðingarbréfi 1525. Einn sonur hans var Þórður tréfótur Pétursson, sem missti fótinn í stríði í Þýskalandi en smíðaði sér sjálfur tréfót og var fimur á honum að sögn. Afkomendur hans nefnast Tréfótsætt.

Heimildir Breyta

  • „Munkaþverár-klaustur. Tímarit hins íslenska bókmenntafélags, 8. árgangur 1887“.
  • „Munkaþverárklaustur. Sunnudagsblaðið, 10. apríl 1966“.