Páll Sölvason (d. 1185) var prestur og goðorðsmaður í Reykholti í Borgarfirði á 12. öld og er þekktastur fyrir Deildartungumál, harðar deilur sem hann átti í við Hvamm-Sturlu.

Páll var óskilgetinn sonur Sölva Magnússonar, goðorðsmanns í Reykholti (d. 1129) og var auðugur og virtur. Deildartungumál stóðu um erfðir á eignum hjónanna Þórlaugar dóttur Páls og manns hennar, Þóris auðga Þorsteinssonar prests í Deildartungu. Þau höfðu eignast nokkur börn saman sem dóu öll og hét Þórlaug þá suðurgöngu. Þórir var tregur til en lét þó til leiðast en þau dóu bæði í ferðinni og einnig barn sem þau eignuðust í Noregi og skildu eftir þar. Páll taldi sig eiga allan arf eftir þau þar sem Þórir hefði andast fyrstur, sonur hans erft hann og síðan hefði hann dáið á undan Þórlaugu þannig að hún hefði átt allar eignirnar þegar hún dó. Sturla var á öðru máli og gætti þar hagsmuna Böðvars Þórissonar tengdaföður síns, sem einnig kallaði til arfs því að hann var skyldur Þóri.

Í þessari deilu gerðist það að Þorbjörg kona Páls, sem Sturlunga segir að hafi verið „grimmúðug í skapi“, óð að Sturlu með hníf og reyndi að stinga úr honum annað augað og kvaðst ætla að gera hann líkan þeim sem hann vildi líkastur vera, en það var Óðinn (sem var eineygður). Lagið geigaði og kom í kinnina. Páll prestur vildi þegar sættast og bæta fyrir frumhlaup konu sinnar en Sturla gerði lítið úr áverkanum og féllst Páll á að gefa eftir í erfðamálinu og láta Böðvar fá þriðjung eignanna en gefa Sturlu sjálfdæmi í hnífsstungumálinu. Þegar það var fengið kom annað hljóð í strokkinn hjá Sturlu og hann krafðist þess að fá tvö hundruð hundraða, sem var mikið fé. Undir þetta vildi Páll ekki gangast og leitaði til Jóns Loftssonar um liðsinni.

Á Alþingi varð úr að Jón var fenginn til að gera sætt á milli þeirra og úrskurðaði hann að Páll skyldi aðeins gjalda Sturlu þrjátíu hundruð en til að Sturlu yrði ekki minnkun af því að þurfa að láta í minni pokann bauð Jón honum að fóstra Snorra son hans og urðu því Deildartungumál til þess að Snorri Sturluson ólst upp í Odda.

Þorbjörg (d. 1181) kona Páls var Bjarnardóttir. Ætt hennar er óþekkt en hún var systir Auð-Helgu, konu Brands Sæmundssonar biskups. Börn þeirra auk Þórlaugar voru Arndís kona Guðmundar dýra, Brandur Pálsson prestur og Magnús Pálsson prestur og goðorðsmaður á Helgafelli og í Reykholti 1185-1206.

Páll Sölvason var einn af þremur mönnum, sem komu til álita í biskupskjöri árið 1174. Valið féll á Þorlák Þórhallsson ábóta.

Heimildir

breyta
  • „Er skillitlir menn drepa niður höfðingja. Þjóðviljinn, 24. des. 1949“.