Samtök olíuútflutningsríkja (enska: Organisation of the Petroleum Exporting Countries eða OPEC) eru alþjóðleg samtök sem í eru olíuframleiðsluríkin Alsír, Angóla, Ekvador, Íran, Írak, Katar, Kúveit, Líbía, Nígería, Sameinuðu arabísku furstadæmin, Sádí-Arabía og Venesúela. Frá 1965 hafa höfuðstöðvar samtakanna verið í Vínarborg í Austurríki. Hafa þau oft á tíðum hagað sinni stefnu eins og einokunarhringur á markaði. Stofnun OPEC táknaði þáttaskil í opinberu yfiráði fullvalda ríkja á sínum náttúruauðlindum gagnvart yfirráðum einkafyrirtækja.[1]

Kort sem sýnir núverandi (grænn litur) og fyrrverandi (blár litur) aðildarríki OPEC

Markmið

breyta

Í upphafi var markmið samtakanna að losa sig undan einhliða ákvarðanatöku vestrænna olíufyrirtækja hvað varðar olíuverð. Aðildarríkin voru mörg hver mjög háð markaðsverði á olíu og því mikilvægt fyrir þau að sá markaður sé stöðugur. Því sóttu OPEC ríkin það hart að auka hlut hagnaðs á olíusölu frá þeirra ríkjum frá 50% upp í 80%. Því var náð fram í gegnum umbóta á stjórnsýslu- og skattalöggjöf landanna. Engar tilraunir voru þá gerðar til að hækka heimsmarkaðsverðið á olíu, eingöngu að ríkin fengu meira af hagnaðinum til sín.

Í upphafi áttunda áratugarins þá ákváðu leiðtogar OPEC að finna leiðir til að snúa við langri þróun á stiglækkandi olíuverði. Voru þá gerðar tilraunir til að hækka það og viðhalda því verði sem ríkin töldu viðunandi. Þá voru OPEC ríkin að mestu búin að tryggja sín upphaflegu markmið um hlutdeild af hagnaði og breyttust þá markmið samtakana í að viðhalda ákveðnum stöðugleika og valdi á olíumarkaðinum.

Þau markmið eiga enn við í þó að á ýmsu hefur gengið. Bæði innanhúsátök í samtökunum, þar sem aðilar greina á um framleiðslukvóta, og utanaðkomandi átök, þar sem bæði hernaðar- og pólitískar aðgerðir hafa reynt á samstöðu OPEC samtakanna. Ennfremur hafa ríkin reynt að finna nýjar lindir auk þess að nýta betur þær sem fyrir eru þar sem birgðastaða olíu hefur minnkað til muna undanfarin ár.[2]

Olíukrísan 1973

breyta
 
Verðsveiflur á olíu frá árinu 1970

Í október 1973 hófust stríðsátök á milli Ísraels annarsvegar og Egyptalands og Sýrlands hinsvegar. Átök þessi eru gjarnan nefnd, Jom kippúr-stríðið, en því lauk með sigri Ísraels með dyggum stuðningi Bandaríkjanna. OPEC-ríkin, sem höfðu stutt heri Araba í stríðinu, ákváðu að bregðast við inngripum Bandaríkjanna með því að stöðva alla verslun á olíu til þeirra. Þar sem Bandaríkin voru, á þeim tíma, langstærsti neytandi á olíu fjórfaldaðist verð á olíu á einungis fáeinum mánuðum.[3]

Aðgerð þessi leiddi til ákveðins uppnáms um heim allan, þó einkum í Bandaríkjunum. Innanlandsframleiðsla á olíu í Bandaríkjunum hafði náð ákveðnu hámarki nokkrum árum áður og voru þau því í auknari mæli háðari innflutningi, sem að mestu kom frá ríkjum OPEC samtakanna. Var þetta í fyrsta skiptið sem olía var notuð í beinum tilgangi til að skaða aðila í pólitískum tilgangi. Varð þá til hugtakið „olíuvopnið“.[4]

Afleiðingar þessara aðgerða urðu víðtækar en þó ekki líkt og OPEC ríkin höfðu gert ráð fyrir. Bandaríkin og bandamenn þeirra sem mest fundu fyrir olíuhækkuninni, tóku ekki í mál að gefa eftir í þessu átökum. Fram að þessu þá voru áhyggjur manna litlar hvað varðar stöðu olíunnar sem orkugjafa, þar sem olían var ódýr og birgðir miklar á heimsmarkaði. Nú þegar iðnaðarríkin fundu skyndilega fyrir svo mikilli hækkun á olíunni, fóru af stað ýmsar aðgerðir til að stemma stigu við ítök OPEC-ríkjanna á heimsmarkaði. Fyrirtæki fóru af stað í rannsóknir og þróun á öðrum orkugjöfum. Sólar-, vind- og vatnsaflsorka byrjaði að skjóta rótum og þróaðist hratt. Ennfremur jókst eftirspurn eftir gasi og kolum sem og sum ríki ákváðu að setja kjarnorkuframleiðslu í forgang.

Bílaframleiðendur fóru af stað að þróa hagkvæmari bíla sem náðu fljótt góðri markaðsstöðu á þeim markaði og byrjuðu bílaframleiðendur að verja meiri pening í rannsóknir á bifreiðar sem nota annan orkugjafa en bensín. Auk þessa þá sáu ýmiss lönd tækifæri í að nýta olíulindir í sinni lögsögu sem þangað til höfðu þóttar of dýrar í framleiðslu. Olíuvinnsla í Norðursjó hófst auk þess að ríki fóru að líta til olíulinda á griðarsvæðum, t.d. í Alaska og Kanada.[5]

Olíuvopnið hafði einnig áhrif á hið alþjóðlega pólitíska landslag. Staða Bandaríkjanna í kalda stríðinu hafði versnað, þar sem Arabaríki urðu skyndilega óhliðholl þeim. Japan, var það ríki sem mest var háð olíu frá OPEC, breytti skyndilega stöðu sinni gagnvart Ísrael og studdi Arabaþjóðir í auknari mæli til að þau myndu slaka á viðskiptabanninu.[6]

Að lokum náðust samningar á milli OPEC og þeirra vestrænuríkja um afléttingu bannsins í mars 1974. Bandaríkjamenn drógu til baka einhliða stuðning sinn við Ísrael og urðu leiðandi í gerð friðarsamninga á milli deiluaðila.

Aðgerðirnar höfðu varanlegar afleiðingar á heimsmarkaði þar sem valdahlutföll breyttust og talið að stöðugleiki væri ekki sá sem haldið hafði verið upphaflega. Efnahagskerfi fjölmargra landa staðnaði og skapaði kreppur sem stuðlaði að lakari lífsgæðum.

Þegar í ljós kom hversu öflugt olíuvopnið var í raun sáu OPEC ríkin sig í nýju og valdameira hlutverki í heiminum. Önnur ríki áttuðu sig einnig á mikilvægi ríkjanna og byrjuðu með skipulögðum hætti að bæta áhrif sín og ítök innan þeirra. Sú samkeppni leiddi að einhverju leiti til pólitískrar deilu á milli aðila OPEC samtakanna og samstaða þeirra minnkaði upp frá því.

Olíuofframboðið á níunda áratugnum

breyta

Í kjölfar olíukrísunnar, 1973, þá byrjuðu markaðir að jafna sig í kringum 1980. Efnahagskreppan hafði staðið í tæpan áratug, olíuverð hækkað stöðugt og mótvægisaðgerðir, bæði stjórnvalda og einkafyrirtækja, ekki farnar að segja til sín. Sköpuðust þá aðstæður þar sem eftirspurn eftir olíu minnkaði á meðan aukið framboð kom á markaðinn með tilkomu nýrra olíulinda, t.d. í Norðursjó. Árið 1986 hafði hlutfall olíuframleiðslu innan OPEC ríkjanna fallið úr 50% niður í 29%. Á sama tíma hafði olíuverð lækkað um 46%.[7]

Mikill ágreiningur var innan ríkjanna um hvernig ætti að bregðast við þessum breyttu aðstæðum. Í fyrstu reyndi Sádi-Arabía að koma á framleiðslukvóta til að minnka framleiðsluna og hækka verðið. Önnur ríki voru ósammála þeirri nálgun og ákvað þá Sádi-Arabía upp á sitt einsdæmi minnka framleiðslu sína um fjórðung. Sú aðgerð misheppnaðist og tók þá við tímabil þar sem þeir flæddu markaðinn af ódýrri olíu. Það leiddi til þess að ríki þar sem olíuframleiðslan var dýr, féllu á markaði auk þess að önnur OPEC-ríki þurftu að draga úr sinni framleiðslu.

Þetta var í fyrsta skipti þar sem ákveðið var að einstök ríki gátu ákveðið olíuframleiðslu innan samtakanna þó með góðum og gildum rökum. Þarna byrjuðu því samtökin að funda mun oftar þar sem staða einstakra landa var tekin fyrir í stað OPEC ríkjanna sem einnar heildar. Má segja að þá hafi OPEC samtökin byrjað að hegða sér eins og einokunarhringur eða haftasamtök í þeim hefðbundna skilningi.[8]

Núverandi horfur

breyta
 
Fáni OPEC samtakanna

Staða samtakanna er ennþá gífurlega sterk á markaðnum. Eftirspurn eftir olíu hefur aukist til muna á heimsmarkaði síðan á níunda áratugnum og þá að mestu vegna aukinnar þarfar Asíuríkja. Þrátt fyrir miklar tækniframfarir í átt að öðrum orkugjöfum, þá er olían enn langstærst á markaðinum. En olía er ekki endurnýjanleg auðlind og eru ríki innan OPEC farin að finna fyrir vandamálum í framleiðslu sinni. Þau vandamál varða ólíka stöðu ríkjanna hvað varða aðgengi að ódýrum olíulindum og ríkidæmi þegna þeirra. Ríki eins og Sádi-Arabía, Kúveit og Sameinuðu arabísku furstadæmin eru öll tiltölulega fámenn og hafa aðgang að ódýrum olíulindum í miklu magni. Hinsvegar eru ríki eins og Nígería, Indónesía og Venesúela fjölmenn og eru olíubirgðir þeirra minni auk þess að vinnsla þeirra dýrari. Þetta hefur skapað ákveðinn ágreining innan samtakanna þegar kemur að kvótasetningu á olíuframleiðslu þar sem ólík sjónarmið greinir á.[9]

Tilvísanir

breyta
  1. Yergin, Daniel (1991), The Prize: The Epic Quest for Oil, Money, and Power
  2. Smith, James L. (2009), Organization of hte Petroleum Exporting Countries (OPEC). Princeton Uni Press.
  3. Responding to Crisis. Envhist.wisc.edu. (2010)
  4. Paust, Jordan J. & Blaustein, Albert P. (1974). "The Arab Oil Weapon - A Threat to International Peace". The American Journal of International Law
  5. Responding to Crisis. Envhist.wisc.edu. (2010)
  6. Paust, Jordan J. & Blaustein, Albert P. (1974). "The Arab Oil Weapon - A Threat to International Peace". The American Journal of International Law
  7. Leonardo Maugeri (2006). The Age of Oil: The Mythology, History, and Future of the World's Most Controversial Resource
  8. Smith, James L. (2009), Organization of the Petroleum Exporting Countries (OPEC). Princeton Uni Press.
  9. Smith, James L. (2009), Organization of the Petroleum Exporting Countries (OPEC). Princeton Uni Press.

Tenglar

breyta