Olíuhámark

(Endurbeint frá Olíutindur)

Olíuhámark (e. Peak oil) er hugtak sem Bandaríkjamaðurinn M. King Hubbert notaði fyrst árið 1956 um þann möguleika að olíuframleiðsla myndi á einhverjum tímapunkti ná hámarki og að ekki yrði þá hægt að auka framleiðsluna með nokkru móti. Olíuhámarkið er því mesta möguleg framleiðsla á þessari óendurnýjanlegu auðlind. Eftir að hámarkinu er náð stendur framleiðslan í stað fyrst um sinn, en eftir það dregst hún saman þar til að olíulindir heimsins tæmast.[1] Hubbert spáði réttilega fyrir um það að olíuframleiðsla Bandaríkjanna myndi ná hámarki á árunum 1965-1970 og árið 1974 lagði hann fram þá kenningu að olíuhámarki fyrir heimsbyggðina yrði náð árið 1995.[2]

Olíuframleiðsla Bandaríkjanna ásamt mati Hubberts
Olíuframleiðsla Noregs ásamt ferli Hubberts

Kenning Hubberts gerir samt sem áður ekki ráð fyrir því að hráolía heimsins klárist á örskömmum tíma og hrindi af stað orkukreppu. Sú framleiðsluminnkun sem kenningin segir til um mun eiga sér stað á lengri tíma og því ólíklegt að olía verði nokkurntímann jafn ódýr og hún var til að mynda á 9. áratug 20. aldar. Líklegra er að olíverð haldist nokkuð hátt og fari hækkandi eftir því sem framleiðsla minnkar, enda einfalt dæmi um framboð og eftirspurn. Í upphaflegri kenningu Hubberts gleymdist að gera ráð fyrir framförum í framleiðsluaðferðum og eins uppgötvun nýrra olíulinda sem gæti hafa skekkt niðurstöður hans, auk þess sem aðeins var horft til hefðbundinna olíulinda. Tækni í olíuvinnslu hefur tekið miklum framförum frá árinu 1956 og á 21. öldinni er hægt að vinna olíu sem áður var talin ónýtanleg.[1]

Margir hafa reynt að segja til um það hvenær hámarkinu verði náð og hverjar afleiðingarnar muni verða. Bjartsýnustu spár segja að það magn olíu sem dælt verði upp muni ekki byrja að minnka fyrr en á fjórða áratugi 21. aldar. Einnig hefur er bent á að Hubbert hafi ekki getað spáð fyrir um uppgötvanir nýrra olíulinda eins og þeirra sem fundist hafa í Alaska og í Mexíkóflóa.[3] Svartsýnni spámenn segja hins vegar að hámarkinu hafi þegar verið náð og niðursveiflan sé hafin.[4]

Þótt vísindamenn greini á um hvenær hámarkinu verði náð eru eru ákveðin áhyggjuefni sem verður að skoða þegar horft er til framtíðar. Þegar kemur að olíuleit og vinnslu er staðan sú að fyrir hverjar 3-4 tunnur sem framleiddar eru af olíu finnst einungis 1 tunna í formi nýrra olíulinda. Ef engin breyting verður þar á má ætla að það gangi sífellt hraðar á þær birgðir og olíulindir sem fyrir eru í kjölfar aukinnar eftirspurnar. Einnig má nefna að pólitískur óstöðugleiki í helstu olíuríkjum heims eykur hættuna á því að framleiðsla minnki verulega vegna hverskyns átaka og að talið er að nú þegar sé búið að nýta rúmlega þeirrar olíu sem jarðlögin hafa að geyma.[5]

Framboð og eftirspurn olíu

breyta

Upphaflega byggði Hubbert spár sínar um hámarksframleiðslu á framleiðsluaðferðir hráolíu sem þá voru stundaðar. Árið 1962 tók hann inn í greiningar sínar mögulegar framfarir í rannsóknum og framleiðslu. Þó var framleiðsla á leirsteins- og sandolíu ávallt undanskildar. Framboð á olíu hefur hækkað statt og stöðugt undanfarna áratugi. Samkvæmt Alþjóðlegu orkustofnuninni náði heimsframboð olíu sögulegu hámarki, 90.0 mb/dag, í nóvember 2011. En þrátt fyrir hina stöðugu aukningu á framboði, þá hefur eftirspurnin eftir olíu vaxið talsvert umfram það.[6]

Olíubirgðir

breyta

Miklar deilur hafa risið innan olíusamfélagsins um olíubirgðir heimsins. En núverandi útreikningar innihalda olíulindir sem ómögulegt er að vinna miðað við núverandi getu. Stór hluti útreikninga um birgðir er því í rauninni eingöngu olíuauðlindir en ekki birgðir.[7] Margir vísindamenn telja því að vinnsluhámarkið sé mun nær okkur en viðurkenndar spár greina frá. Energy Watch Group (EWG) fullyrti að raunbirgðir á olíu hafi náð hámarki árið 1980, þegar framleiðsla fór fyrst fram úr uppgötvun nýrra olíulinda. Þar sem aukning á birgðum væri þá blekking ein og dró þá ályktun að vinnsluhámarkið væri okkur þegar að baki.[8]

Aðrar aðferðir við olíuvinnslu

breyta

Leita þarf leiða til að draga úr ásókn í olíulindir heimsins til að seinka eða koma í veg fyrir að olíuhámarkið verði að veruleika. Ásamt því að draga úr olíunotkun í heiminum þá er hydraulic fracturing eða notkun vökva til að brjóta jarðlög og losa þannig um jarðefnaeldsneyti, ákjósanleg leið til þess. Þessi aðferð var fyrst notuð árið 1947 en hefur þróast töluvert með árunum. Vökva er sprautað með háþrýstingi í jarðlögin og myndast með því rásir og kolvatnsefnin (hydrocarbons) þrýstast út. Þessi aðferð hefur verið nýtt í auknum mæli á síðustu misserum. Árið 2010 var áætlað að 60% af öllum nýjum olíu og gaslindum heimsins væru nýttar með þessum hætti. Í Bandaríkjunum er þessi iðnaður hlutfallslega stærstur innan olíugeirans.[9]

Önnur aðferð sem notuð er við olíuvinnslu er vinnsla á svokölluðum olíusandi, sem einnig er kallaður tjörusandur. Olíusandur er blanda af leir, sandi, vatni og jarðbiki, sem er svört og seigfljótandi olía. Þar sem þessi blanda er ekki hráolía sem slík þarf að meðhöndla og vinna olíusandinn eftir kúnstarinnar reglum. Sandinum er mokað upp og hann fluttur í sérstakar vinnslustöðvar til hreinsunar. Til að aðskilja olíuna frá leir, sandi og biki er notað heitt vatn til að breyta sandinum í grugglausn. Hrært er í grugglausninni til að losa olíuna úr blöndunni til frekari vinnslu. Úr þessu fæst hráolía sem er svo hægt að vinna enn frekar. Eftir sitja leir og sandur, en þessi jarðvegsefni eru flutt aftur á svæðið þar sem olíusandurinn var tekinn í upphafi.[10]

Tilvísanir

breyta
  1. 1,0 1,1 Christopher O'Leary: „Peak oil theory“. 10. júní 2013, [skoðað 25. mars 2015].
  2. „Oil the dwindling treasure“. Sótt 2. júlí 2008.
  3. „CERA says peak oil theory is faulty“. Sótt 2. júlí 2008.
  4. „Oil Production, Oil Price“. Sótt 2. júlí 2008.
  5. Michael Lynch: „Peak Oil Is a Waste of Energy“. New York Times, 24. ágúst 2009, [skoðað 26. mars 2015].
  6. „World Oil Demand“. International Energy Agency, 13. mars 2015, [skoðað 25-03-2015].
  7. Dave Cohen: „The Perfect Storm“. Association for the Study of Peak Oil and Gas - Energy Bulletin, 31. október 2007, [skoðað 25. mars 2015].
  8. Dr. Werner Zittel; Jörg Schindler: „Crude Oil: The Supply Outlook“. 2007, [skoðað 25. mars 2015].
  9. George E. King: „Hydraulic Fracturing 101“. Society of Petroleum Engineers, 2012, [skoðað 25. mars 2015].
  10. „About Tar Sands“. The Oil Shale and Tar Sands Programmatic Environmental Impact Statement. [skoðað 25. mars 2015].