Notandi:Tjörvi Schiöth/sandkassi

Lúðvík Kristjánsson (2. september 1911 – 1. febrúar 2000)[1] var fræðimaður og rithöfundur, sem er þekktastur fyrir að hafa skrifað ritið Íslenskir sjávarhættir sem kom út í fimm bindum á árunum 1980-86.

Æviferill breyta

Lúðvík var fæddur og uppalinn í Stykkishólmi, foreldrar hans voru hjónin Kristján Árnason sjómaður og Súsanna Einarsdóttir. Lúðvík stundaði sjó á unglingsárunum, en hélt síðan til náms suður í Hafnarfirði, lauk gagnfræðaprófi við Flensborg 1929 og síðan kennaraprófi við Kennaraskóla Íslands 1932. Hann sat námskeið í íslenskum fræðum við Háskóla Íslands á árunum 1932-1934, þar sem hann naut meðal annars leiðsagnar Sigurðar Nordal prófessors. Lúðvík starfaði sem kennari við Miðbæjarbarnaskólann í Reykjavík 1934-1944. Árið 1937 gerðist hann einnig ritstjóri Ægis, tímarits Fiskifélags Íslands, og var jafnramt kennari á vélstjóranámskeiðum félagsins til ársins 1954.[2] Hann var einnig ritsjóri Fálkans 1939 og Sjómannadagblaðsins 1941 og 1943.[1]

Þann 30. október 1936 kvæntist Lúðvík eiginkonu sinni, Helgu Jónsdóttur Proppé.[3]

Eftir 1954 snéri Lúðvík sér alfarið að rannsóknum og ritstörfum, og skrifaði á sínum ferli margar bækur, ritgerðir og greinar í tímaritum, sem og blaðagreinar. Hann hafði áður rannsakað örnefni á Snæfellsnesi.[4] Frá 1964 helgaði Lúðvík sig alfarið rannsóknum á íslenskum sjávarháttum, en kona hans Helga aðstoðaði hann við verkið.[1] Það átti eftir að verða hans "magnum opus", eða helsta ritverk. Íslenskir sjávarhættir kom út í fimm bindum á árunum 1980-86.

Lúðvík segir sjálfur frá, að þegar hann var úti á sjó á sínum unglingsárum, hafi hann kynnst eldri sjómönnum sem gerðu honum grein fyrir því "hversu nauðsynlegt væri að bjarga frá gleymsku lýsingu á lífi og háttum þeirra fiskimanna, sem sótt hefðu sjó á árabátum, ferðast milli landsfjórðunga og búið í verbúðum."[5] Rannsóknir hans beindust því að sjávarháttum fyrr á öldum, þegar haldið var til sjós á árabátum, og einnig gerði Lúðvík víðtækar rannsóknir á verstöðvum Íslands. Í Íslenskum sjávarháttum er að finna verstöðvatal fyrir allt landið, sem sagnfræðingurinn Gunnar Karlsson hefur kallað "ómetanlegt."[6]

Árið 1981 var Lúðvík gerður heiðursdoktor við Háskóla Íslands, en sama ár gaf Sögufélagið út ritið Vestræna, sem er samansafn af ritgerðum hans.[1]

Lúðvík varð bráðkvaddur þann 1. febrúar 2000.

Í könnun Kiljunnar á RÚV 2014, á vali á "íslenskum öndvegisbókmenntum", lenti ritið Íslenskir sjávarhættir eftir Lúðvík Kristjánsson í 117. sæti.[7]

Ritskrá Lúðvíks Kristjánssonar breyta

Bækur breyta

  • 1948 – Við fjörð og vík: Endurminningar Knud Zimsen, I. Reykjavík: Helgafell.
  • 1951 – Bíldudalsminning Ásthildar og Péturs J. Thorsteinsson. Reykjavík: Ísafold.
  • 1952 – Úr bæ í borg: Endurminningar Knud Zimsen II. Reykjavík: Helgafell.
  • 1953 – Vestlendingar I. Reykjavík: Heimskringla.
  • 1955 – Vestlendingar II, fyrri hluti. Reykjavík: Heimskringla.
  • 1960 – Vestlendingar II, seinni hluti. Reykjavík: Heimskringla.
  • 1961 – Á slóðum Jóns Sigurðssonar. Skuggsjá.
  • 1962-63 – Úr heimaborg í Grjótaþorp. Ævisaga Þorláks Ó. Johnson I-II. Skuggjsá.
  • 1980-86 – Íslenskir sjávarhættir I-V. Reykjavík: Menningarsjóður.
  • 1981 – Vestræna: Ritgerðir gefnar út í tilefni sjötugsafmælis höfundar. Reykjavík: Sögufélag.
  • 1991 – Jón Sigurðsson og Geirungar: neistar úr sögu þjóðhátíðaráratugar. Reykjavík: Menningarsjóður.

Bókarkaflar breyta

  • 1974 – "Tange og tare: Island." Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder, XVIII.

Fræðigreinar breyta

  • 1967 – "Hafgerðingar." Árbók Hins íslenzka fornleifafélags, 1967: bls. 59-70.
  • 1964 – "Grænlenzki landnemaflotinn og breiðfirzki báturinn." Árbók hins íslenska fornleifafélags, 1964, bls. 20-68.
  • 1971 – "Úr heimildahandraða seytjándu og átjándu aldar." Saga IX: tímarit sögufélags, 1971, bls. 123-170.

Tilvísanir breyta

  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 „LÚÐVÍK KRISTJÁNSSON“. www.mbl.is. Sótt 15. nóvember 2021.
  2. Einar Laxness (1981). Vestræna. Sögufélag. bls. xii-x.
  3. Einar Laxness (1981). Vestræna. Sögufélag. bls. x.
  4. Einar Laxness (1981). Vestræna. Sögufélag. bls. ix.
  5. Lúðvík Kristjánsson (1980). Íslenskir sjávarhættir I. Menningarsjóður. bls. 471.
  6. Gunnar Karlsson (2009). Lífsbjörg Íslendinga frá 10. öld til 16. aldar: Handbók í íslenskri miðaldasögu III. Háskólaútgáfan. bls. 170.
  7. „Öndvegisbókmenntir - 2014“. RÚV. 18. mars 2016. Sótt 15. nóvember 2021.