Sigurður Kaiser
Sigurður Kaiser er nemandi við Háskólann á Bifröst, þar sem hann leggur stund á heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði (HHS). Námið er að stofni til sambærilegt við breska háskólanámið Philosophy, Politics and Economics (PPE), sem fyrst var kennt við Oxford-háskóla árið 1920. Þessi grein er einmitt skrifuð vegna verkefnis í námskeiðinu Bandarísk stjórnmál haustið 2014. Á námskeiðinu er m.a. fjallað um uppruna, sögulega þróun og núverandi stöðu stjórnmála og stjórnkerfis Bandaríkjanna, stjórnarskrána, forseta Bandaríkjanna, Bandaríkjaþing, kosningar, stjórnmálahreyfingar og Hæstarétt Bandaríkjanna. Sigurður hefur lengi haft áhuga á stjórnmálum og samfélagsmálum almennt, sem og alþjóðasamskiptum. Hann starfaði um árabil hjá Samfylkingunni og er róttækur jafnaðarmaður.
Sigurður er fæddur og uppalinn í Vesturbænum í Reykjavík, gekk í Melaskóla, Hagaskóla og Menntaskólann við Hamrahlíð. Sigurður hefur búið í Reykjavík alla tíð, utan fimm ára þegar hann bjó í London og stundaði nám í sviðshönnun (e. scenography) við The Royal Central School of Speech and Drama sem er hluti af University College London (UCL). Sigurður hefur lengst af starfað innan lista og menningarlífsins og hefur tekið þátt í yfir 200 verkefnum á sviði leiklistar, tónlistar og kvikmyndagerðar á um 20 ára ferli við fjölbreytt störf, m.a. með Vesturporti, í Þjóðleikhúsinu, Borgarleikhúsinu, Sjónvarpinu, Loftkastalnum og fyrir Leiklistarsamband Íslands. Sigurður er jafnframt upphafsmaður og var framkvæmdastjóri Grímunnar - Íslensku sviðslistaverðlaunanna um árabil. Fyrir utan brennandi áhuga á menningu og listum, hefur Sigurður áhuga á arkitektúr og skipulagsmálum sem og stjörnufræði og náttúruvernd.